Litir Georg Ottósson, garðyrkjubóndi í Garðyrkjustöðinni Jörva á Flúðum, heldur á nýpakkaðri paprikutvennu.
Litir Georg Ottósson, garðyrkjubóndi í Garðyrkjustöðinni Jörva á Flúðum, heldur á nýpakkaðri paprikutvennu. — Morgunblaðið/Sigurður Sigmundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Halldór Armand Ásgeirsson haa@mbl.is „Fyrstu paprikurnar sem eru ræktaðar hér á landi á þessu ári eru að koma á markað frá okkur. Ég lít á þetta sem lið í því að sinna neytendum.

Halldór Armand Ásgeirsson

haa@mbl.is

„Fyrstu paprikurnar sem eru ræktaðar hér á landi á þessu ári eru að koma á markað frá okkur. Ég lít á þetta sem lið í því að sinna neytendum. Þrátt fyrir kreppuna finnum við fyrir mikilli eftirspurn eftir íslensku vörunni og þess vegna getum við gert þetta,“ segir Georg Ottósson, garðyrkjubóndi á Garðyrkjustöðinni Jörva á Flúðum.

Nýlega voru gerðar umfangsmiklar endurbætur á húsnæði Jörva og lýsingarbúnaði komið fyrir í 2.500 fermetra gróðurhúsi.

„Við höfum lengi notast við lýsingu til að rækta tómata og gúrkur en það hefur verið erfiðara með paprikurnar. En við höfum prófað okkur áfram síðustu ár og náum nú mjög góðum árangri.“

Dimmur vetur

Georg segir fyrstu paprikuuppskeru landsins í ár líta vel út. „Þetta virðist hafa tekist vel. Við sáðum þessari papriku fyrir áramót en þetta var afar dimmur vetur þar sem skiptust á rigningar og éljagangur. Lýsingarbúnaðurinn kom þá að góðum notum.“

Georg segist vera afar þakklátur neytendum sem hafi sýnt íslenska grænmetinu tryggð þrátt fyrir að það sé í einhverjum tilvikum dýrara en það innflutta. „Garðyrkjubændur hafa eins og aðrir haldið að sér höndum en við ákváðum að fara út í þessar framkvæmdir því neytendur hafa haldið tryggð við okkur og við finnum fyrir miklum áhuga á íslenska grænmetinu. Stærsti rekstrarkostnaðurinn er rafmagnið. Í einu gróðurhúsi erum við nálægt því að vera með 4-500 kílóvött. Rafmagnsreikningur fyrir svona hús er því um ein til ein og hálf milljón króna á mánuði.“

Neysla hefur aukist mikið

Georg sjálfur hefur umtalsverða reynslu af paprikurækt og hefur fengist við þetta vinsæla grænmeti í 30 ár. „Ég held mikið upp á þessa tegund og neyslan hefur jafnframt margfaldast frá því sem áður var. Því miður er íslenska framleiðslan ekki nema um 20% af þeirri papriku sem fólki stendur til boða yfir árið. Það er mín skoðun að við eigum að vera sjálfum okkur næg í þessum efnum. Við stöndum okkur vel og ég tel að grænmetisræktun hér á landi sé á heimsmælikvarða.“

FYRSTA PAPRIKUUPPSKERA ÁRSINS KEMUR Á MARKAÐ

Litríkar afurðir

Georg segir að nýju íslensku paprikurnar komi í öllum litum; grænar, gular, rauðar og appelsínugular. „Það tekur paprikurnar um þrjár til fjórar vikur að litast. Fólk áttar sig oft ekki á því að grænar paprikur eru í raun einungis lítið þroskaðar paprikur, rétt eins og grænir tómatar. Þær litast svo einum af þessum litum í kjölfarið þegar þær þroskast.“

Íslensku paprikurnar eru seldar í umbúðum sem nefnast paprikutvenna. „Við leggjum mikið upp úr þessum pakkningum í þágu neytandans því við höfum áhyggjur af því að ef við gerum það ekki verði okkar paprikum blandað saman við þær erlendu. Við viljum að neytandinn geti verið alveg viss um að hann sé að kaupa íslenska framleiðslu.“