Jöklar Leikarar í netleikhúsverkinu Jöklum. Þeir munu leika á fjórum stöðum á landinu samstímis og geta netverjar fylgst með öllu saman í beinni.
Jöklar Leikarar í netleikhúsverkinu Jöklum. Þeir munu leika á fjórum stöðum á landinu samstímis og geta netverjar fylgst með öllu saman í beinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Jöklar nefnist nýtt leikverk eftir Hrafnhildi Hagalín og Steinunni Knútsdóttur sem frumflutt verður 15. apríl á netinu, í netleikhúsinu Herbergi 408, herbergi408.is.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Jöklar nefnist nýtt leikverk eftir Hrafnhildi Hagalín og Steinunni Knútsdóttur sem frumflutt verður 15. apríl á netinu, í netleikhúsinu Herbergi 408, herbergi408.is. Verkið er í raun margar leiksýningar í einni, netleikhúsverk þar sem veraldarvefurinn er nýttur bæði sem yrkisefni og leikrými. Leikarar í verkinu flytja það samtímis á fjórum stöðum á landinu auk þess sem einn leikur í Árósum í Danmörku. Persónur verksins hafa samskipti sín á milli um netið í ýmsu formi, allt frá bréfaskriftum til samtala í gegnum Skype. Tölvuskjámynd verður varpað á flöt í hverju leikrými svo gestir þar geti fylgst með því sem fram fer á hinum stöðunum, fylgst með hegðun hinna persónanna.

Dansari í hjólastól

„Verkið fjallar um fjórar persónur sem eiga heima hver í sínum landshlutanum. Þær eru í svipaðri stöðu í lífinu, eru félagslega einangraðar allar og hafa lokað sig af, lifa að mestu leyti sínu lífi á veraldarvefnum,“ útskýrir Steinunn, annar tveggja höfunda verksins. Allar persónurnar séu haldnar ákveðnum kvilla, glími við e.k. getuleysi sem þær vilji sigrast á. Þær sæki sér fróun á netinu og eigi sér þar alter ego, hliðarsjálf, sem bæti fyrir þennan krankleika. Persónurnar leiti hjálpar hjá áströlsku fyrirtæki, Glacier-World, í vandræðum sínum og fái í upphafi verksins meðferðarpakka frá fyrirtækinu.

„Síðan kemur í ljós að þetta virkar ekki eins og þær vildu og ein persónan, dansarinn Ófeigur sem er í hjólastól í Reykjavík, hefur fengið útrás í því að gefa góð andleg ráð og kenna fólki á netinu. Hann tekur ákveðið skref og ætlar að fara í þerapíu. Þau eru náttúrlega öll félagslega svelt þannig að það er ákveðin þörf hjá þeim að eiga samskipti við aðra. Þannig að Ófeigur býður upp á Skype-meðferð á netinu sem fer aðallega fram í gegnum Facebook. Þau eru öll að gúggla og hann þykist vera með aðferð sem hann kallar „inner body“ sem er bara uppspuni, eitthvað sem hann finnur upp á,“ útskýrir Steinunn. Persónurnar fari í þessa meðferð, kynnist hver annarri á netinu og tvær þeirra verði skotnar hvor í annarri. Ein persónan komist svo að því að dansarinn, sem þykist vera maraþonhlaupari, hafi verið að setja andlitið á sér inn á myndir af hlaupurum með því að nota forritið Photoshop og þá sé fjandinn laus.

„Við erum að skoða líf fólks í þessum nýja miðli, þetta er staður og þetta er veruleiki, líf þessara persóna, þótt við gerum góðlátlegt grín að þeim að vissu leyti. Þetta er grátbroslegt, örlög þessa fólks en líka veruleiki sem maður sér út um allt. Netið er fullt af fólki sem á bágt og hefur ekki í önnur hús að venda,“ segir Steinunn og það hafi legið beint við að nota netið til að segja söguna.

Steinunn segir verkið þannig uppbyggt að á meðan tveir tali saman í því á Skype sé einn að dansa og sá fjórði að skrifa í dagbók. „Við skrifum verkið þannig að þú átt að geta notið þess að horfa á alla fjóra í einu. Við Hrafnhildur höfum verið að vinna þetta verk í heilt ár, fengum listamannalaun í fyrra til að vinna að undirbúningi þess og þá unnum við með persónurnar og þessa fléttu,“ segir hún en hún leikstýrir því og Hrafnhildur er dramatúrg. „Við byrjuðum á því að vera öll saman í Reykjavík þar sem ég leikstýrði, vorum hvert í sínu rýminu og fórum milli herbergja. Svo er þetta mikið til spurning um klukkuna, um tímastjórnun. Það er nýbúið að skipta hópnum upp, við erum búin að vinna frá því á sunnudaginn á hinum raunverulegu stöðum og nú er ég að ferðast, er á Akureyri núna,“ segir Steinunn en blaðamaður ræddi við hana miðvikudaginn sl.

Einnig sýnt í Bíó Paradís

Steinunn segir að þeir sem fylgist með verkinu á netinu geti séð allt sem fram fer í fjórum gluggum á tölvuskjánum en bendir á að nettengingin verði að vera býsna hraðvirk. Þeir sem eru með lélega tengingu geta horft á verkið í Bíó Paradís, á skírdag og laugardag fyrir páska.

Verkið verður annars sýnt 15., 16., 17., 21. og 23. apríl kl. 20.

AÐSTANDENDUR JÖKLA

Suður, norður, vestur, austur

Hrafnhildur Hagalín og Steinunn Knútsdóttir eru höfundar verksins og Steinunn leikstýrir en Hrafnhildur er dramatúrg. Með hlutverk dansarans í Jöklum, Ófeigs, fer Árni Pétur Guðjónsson og leikur í Heilsuverndarstöðinni í Reykjavík. Á Akureyri, í Hafnarstræti 95, leikur dóttir Árna, Aðalbjörg Árnadóttir, persónuna Önnu og á Seyðisfirði, á Norðurgötu 5, leikur Halldóra Malín Pétursdóttir persónuna Lísu. Ársæll Níelsson leikur svo Halldór á Ísafirði, í Hafnarstræti 9, og leikkonan Helen Gould fer með hlutverk fulltrúa Glacier-World, Melanie Stein.

Leikmynd og búningar eru í höndum Rebekku Ingimundardóttur, um rafræna leikmynd og ljósmyndun sér Snorri Gunnarsson. Kvikmyndagerð og tæknistjórn er í höndum Hákons Más Oddssonar og um tónlist sér Jarþrúður Karlsdóttir.

Listrænir stöðvarstjórar sýningarstaðanna eru Bjarni Massi Sigurbjörnsson, Helgi Örn Pétursson og Vigdís Arna Jóns Þuríðardóttir.

Tæknilið skipa Árni F. Sigurðsson, Eva Björk Kaaber, Kári Gunnlaugsson, Ólafur Þór Jósefsson, Óli Finns, Saga Garðarsdóttir og Vilborg Ólafsdóttir. Framkvæmdarstjóri sýningarinnar er Ragnheiður Skúladóttir.

Frekari upplýsingar um verkið og miðasölu má finna á vef netleikhússins, herbergi408.is.