Ágætis byrjun Matthías Þór lukkulegaur með fallegan urriða sem hann veiddi í opnun Litluár á dögunum.
Ágætis byrjun Matthías Þór lukkulegaur með fallegan urriða sem hann veiddi í opnun Litluár á dögunum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stangveiði Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Óhætt er að segja að veðrið hafi ekki leikið við stangveiðimenn síðan veiðin hófst um mánaðamótin.

Stangveiði

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Óhætt er að segja að veðrið hafi ekki leikið við stangveiðimenn síðan veiðin hófst um mánaðamótin.

„Það hefur verið mjög kalt og skítaveður fyrir austan,“ sagði Arnar Óskarsson, stjórnarmaður í Stangaveiðifélagi Keflavíkur, þegar hann var spurður í gær að því hvernig fiskast hefði í Geirlandsá við Kirkjubæjarklaustur. Opnunarhollinu gekk nokkuð vel, fékk 31 fisk við erfiðar aðstæður, í miklu vatni og kulda.

„Síðan hefur verið leiðindaveður,“ segir hann. „Annað hollið komst bara fyrsta daginn út en var samt með 15 fiska. Hollið á eftir þeim var með sex fiska og komst ekki heldur mikið til veiða.

Ég held að hollið sem hefur verið að veiða síðustu vaktir hafi í raun fengið tvo þokkalega klukkutíma; þá settu þeir í tvo en misstu báða. Þeir byrjuðu á laugardaginn en þá var áin kakóbrún. Í morgun var síðan komin stórhríð.

Menn eru bara í húsi og glansinn er farinn af spilunum, það er búið að nota þau svo mikið.“

12-pundari í Minnivallalæk

„Þetta er skelfing,“ sagði Ragnar Johansen í Hörgslandi mæðulega þegar hann var spurður út í veiðiskapinn í Vatnamótunum við Skaftá austanverða.

„Það hefur verið kalt og hráslagalegt. Síðasta holl veiddi bara fyrsta kvöldið. Svona hefur þetta verið að mestu síðan í opnuninni. Það hefur verið eilífðar vestanátt beint í andlitið á veiðimönnum – það er þó nóg af fiski og mikið á eftir að ganga niður. „Í Tungulæk í Landbroti hafa veiðst milli 250 og 300 fiskar að sögn Þrastar Elliðasonar leigutaka.

„Síðasta holl fékk 42. Miðað við hvernig veðrið var tel ég það býsna fína veiði,“ sagði hann.

„Veiðin hefur verið mest í Gussa og Holunni, það hafa verið tveir bestu staðirnir. Fjórða apríl veiddust til dæmis 18 fiskar í beit í Gussa. En það er ekki á hverjum degi.“

Þröstur er líka með Minnivallalæk þar sem er staðbundinn urriði.

„Það var rólegt í opnunni í Minnivallalæk en það breyttist nú um helgina. Þá veiddust sjö og þar af voru tveir 63 cm, feitir og pattaralegir, og einnig einn 78 cm úr Stöðvarhyl. Sá var bókaður tólf pund.“

VEIÐIMAÐUR SÁ VÍÐA VÆNA FISKA Í VARMÁ

Hangir ekki yfir hyljunum

Danski veiðimaðurinn Nils Folmer Jörgensen, sem er búsettur hér á landi, var við veiðar í Varmá í síðustu viku og gekk vel.

„Ég sá nokkuð af fiski víða og þeir voru allir vænir,“ segir hann. Aflinn var sex fallegir sjóbirtingar og einn ekki síðri staðbundinn urriði. Stærsti fiskurinn var 72 cm.

„Ég hef veitt nokkrum sinnum í Varmá,“ segir hann og bætir við að efri hluti árinnar sé sér einkum að skapi. Þar séu fallegir afmarkaðir hyljir og veiðistaðir, ólíkt neðri hlutanum sem minni á stundum á hraðbraut. Tveir birtinganna voru lúsungir en það kom Jörgensen ekki á óvart, það væri algengt í Danmörku að „overspringere“, geldfiskar, væru á flakki út í sjó og til baka. Þegar Jörgensen er í Varmá segist hann ganga mikið með bökkunum og leita fiska, ekki hanga yfir sömu hyljunum.