Karen H. Theódórsdóttir
Karen H. Theódórsdóttir
„Geta pabbar ekki grátið?“ var yfirskrift átaks hjálparsíma Rauða kross Íslands sem lauk á sunnudag og heppnaðist mjög vel, að sögn Karenar Theódórsdóttur, verkefnisstjóra hjálparsímans (1717).

„Geta pabbar ekki grátið?“ var yfirskrift átaks hjálparsíma Rauða kross Íslands sem lauk á sunnudag og heppnaðist mjög vel, að sögn Karenar Theódórsdóttur, verkefnisstjóra hjálparsímans (1717).

Rauði krossinn er að jafnaði með átaksvikur tvisvar á ári. Karen segir að ákveðið hafi verið að einblína á fjárhagsáhyggjur að þessu sinni og vekja athygli karla á hjálparsímanum, ekki síst vegna þess að hlutfall þeirra er mun minna en kvenna sem hringja í símann eða 40 á móti 60%. Auk þess séu karlar sem hringi oft á tíðum lengra leiddir í vanlíðan en konur.

Sálrænn stuðningur

„Þetta tókst mjög vel,“ segir Karen um átakið. Hún segir að athygli fjölmiðla á málinu hafi hjálpað mikið. Átakið hafi verið unnið í samvinnu við umboðsmann skuldara og þar af leiðandi hafi verið hægt að benda á öll nýjustu úrræðin.

Karen segir að sálrænn stuðningur, eins og hjálparsími Rauða krossins veitir, skipti mjög miklu máli sem fyrsta skref. Eins hafi mikið að segja að geta bent á fyrirliggjandi úrræði vilji fólk leita sér frekari aðstoðar. „Þetta gekk mjög vel og við erum mjög ánægð,“ segir hún. Karen bætir við að áður en farið hafi verið í átakið hafi símtölum um fjármál fjölgað og þeim hafi fjölgað töluvert meðan á átakinu stóð.

Síðastliðið haust var hjálparsíminn með átaksviku sem sneri að unglingum. Karen segir að enn gæti áhrifa frá þeirri átaksviku og hún á von á að sama verði uppi á teningnum í sambandi við nýliðið átak. „Við vonum að fólk viti af okkur,“ segir hún.

steinthor@mbl.is