Banki Gunnar Karl Guðmundsson, forstjóri MP banka, Þorsteinn Pálsson, nýr stjórnarformaður, og Skúli Mogensen, stærsti eigandi bankans.
Banki Gunnar Karl Guðmundsson, forstjóri MP banka, Þorsteinn Pálsson, nýr stjórnarformaður, og Skúli Mogensen, stærsti eigandi bankans. — Morgunblaðið/Sigurgeir S
Bjarni Ólafsson bjarni@mbl.is Erlendir aðilar eiga nú tæp 23 prósent í MP banka, en í gær var greint frá því að gengið hefði verið frá kaupum á starfsemi MP á Íslandi og í Litháen.

Bjarni Ólafsson

bjarni@mbl.is

Erlendir aðilar eiga nú tæp 23 prósent í MP banka, en í gær var greint frá því að gengið hefði verið frá kaupum á starfsemi MP á Íslandi og í Litháen. Kaupendur eru hópur um fjörutíu innlendra og erlendra fjárfesta með Títan, fjárfestingarfélag Skúla Mogensen, í broddi fylkingar.

Skúli Mogensen sagði á blaðamannafundi í gær að vissulega hefði þurft að sannfæra erlendu fjárfestana um að þeir ættu að koma með fé inn í Ísland, en þeir hafi séð tækifæri í bankanum og landinu. „Það er því munur á erlendum eigendum MP banka, sem eru hér af fúsum og frjálsum vilja, og erlendum eigendum Arion banka og Íslandsbanka, sem aldrei vildu eignast þá banka og vilja gjarnan losna við þá.“ Þá sagði hann að ólíkt stóru bönkunum þremur sé MP banki laus við fortíðarvanda þeirra og geti horft björtum augum fram á við.

Greinilegt var á Skúla að hann hlakkar til að takast á við aðra íslenska banka og fjármálastofnanir í samkeppni um viðskiptavini. Sagði hann að vaxtarmöguleikar MP banka væru miklir, því þrátt fyrir töluvert stóran efnahagsreikning væri markaðshlutdeild hans í inn- og útlánastarfsemi lítil. Gunnar Karl Guðmundsson, forstjóri MP banka, segir að bankinn hafi ekki hingað til getað aukið útlán sín vegna skorts á eigin fé, en með innspýtingu nýja fjárins frá hluthöfunum sé staðan allt önnur.

Hluthafarnir nýju koma með um 5,5 milljarða króna í nýtt eigið fé í bankann og hefur það þegar verið lagt inn í reiðufé. Skúli sagði að MP banki hefði ekki komið nálægt fjármögnun eiginfjáraukningarinnar enda hafi reglum bankans nú verið breytt af nýjum eigendum. „Til dæmis er bankanum nú óheimilt með öllu að taka veð í eigin hlutabréfum.“ Þá er virkum hluthöfum og fyrirtækjum þeirra óheimilt að fá lán í bankanum.

Hlutur Títans í bankanum verður 17,45 prósent, en meðal annarra hluthafa eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, Joseph C. Lewis, sem á m.a. Tavistock Group,, Rowland-fjölskyldan sem á Banque Havilland í Lúxemborg og Guðmundur Jónsson. Þá eru TM, VÍS, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins í hópi hluthafa.

Bankinn mun fyrst um sinn starfa áfram undir nafni MP banka, en Skúli segir að markmiðið sé að breyta nafni bankans. Þá segir hann að ætlunin sé að skrá bankann á markað innan þriggja ára. „Á markaðnum er þörf fyrir fleiri fjárfestingartækifæri en bara ríkisskuldabréf.“

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og ritstjóri, verður formaður stjórnar bankans og Skúli verður varaformaður stjórnar. Aðrir stjórnarmenn eru Vilmundur Jósefsson, formaður SA, Hanna Katrín Friðriksson, yfirmaður viðskiptaþróunar hjá Icepharma, og Mario Espinosa, framkvæmdastjóri Tavistock Group.

Kaupin
» Fjárfestarnir kaupa dótturfélag MP, NB.is, og eru íslenskar og litháskar eignir færðar í það félag, sem hlýtur nafnið MP banki.
» Úkraínskar eignir MP sitja áfram í gamla félaginu, sem fær nafnið EA fjárfestingarfélag.