Hörður Einarsson
Hörður Einarsson
Eftir Hörð Einarsson: "Íslenzka þjóðin hafnaði því aðeins að vera niðurlægð í samningum"

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýjasta IceSave-samninginn liggur fyrir. Öll viljum við Íslendingar ná fram sanngjarnri og réttlátri niðurstöðu fyrir Ísland, og ekki viljum við vísvitandi gera á hlut annarra þjóða.

Örugglega réð ekki eitthvert eitt sjónarmið hjá öllum þeim, sem höfnuðu samningunum – ekki frekar en almennt gerir í kosningum, að allir þeir, sem hallast að sömu niðurstöðu, geri það af sömu hvötum. En ég ætla að leyfa mér að fullyrða það, að aðaldriffjöður nei-hópsins hafi verið sú, að þessi hluti þjóðarinnar finnur sárt til þess, að Bretar hafa verið látnir komast upp með það án eðlilegra bóta og atyrða að hafa gert efnahagslega árás á Ísland, þegar verst stóð á hjá íslenzku þjóðinni. Fjármálaribbaldar, íslenzkir og brezkir, höfðu eyðilagt íslenzka bankakerfið og íslenzka þjóðin stóð agndofa frammi fyrir afleiðingunum. Á þessari stundu réðust Bretar á alla íslenzka hagsmuni, sem þeir komust í tæri við, af pólitískum leikaraskap einum saman – eingöngu til heimabrúks. Í þessum leik tóku svo þátt öll ríki Evrópusambandsins, sem vildu láta íslenzku þjóðina taka skellinn af hinu ógeðfellda samspili fjármálakerfis Evrópu og evrópskra stjórnmálamanna, mannanna, sem áttu að verja hagsmuni almennings.

Þetta mál er óuppgert, og íslenzk stjórnvöld hafa ekki til þessa haft uppburði í sér til þess að leita réttar íslenzku þjóðarinnar í þessu máli. Nú er tíminn til þess kominn.

Það er kominn tími til þess, að samningar milli Íslendinga og Breta verðir teknir upp á réttum grunni. Í þær samningaumræður eiga Hollendingar ekkert sérstakt erindi. Evrópusambandið getur átt erindi í þær viðræður vegna hlutdeildar sinnar í sök Breta. Þó að meirihluti Íslendinga eigi erfitt með að fyrirgefa aðgerðir Breta á sínum tíma er það svo, að öll þurfum við á friði að halda og frið á að semja. En til þess að friður verði saminn þurfa menn að setjast niður og semja á réttum forsendum. Íslendingar og Bretar þurfa að setjast niður og semja sín á milli um allt það, sem miður fór í samskiptum þeirra í aðdraganda efnahagshrunsins, ekki bara um einhver sterlingspund, sem Bretar greiddu sparifjáreigendum í Bretlandi vegna pólitískrar hræðslu heimafyrir. Íslendingar þurfa að ræða við Breta eina um þessi málefni án þess að þeir geti takmarkað umræðuefnið með því að bregða Hollendingum fyrir sig sem skildi. Við Hollendinga eiga Íslendingar að ræða á allt öðrum grundvelli heldur en þeir ræða við Breta.

Eftirlitsstofnun EFTA getur svo sem haldið áfram að skrifast á við íslenzk stjórnvöld og hóta þeim málaferlum og jafnvel höfðað mál á hendur íslenzka ríkinu. En ólíkt hafast þær þá að Eftirlitsstofnun EFTA og Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem hingað til hefur látið óátalda framkomu Breta við Íslendinga, og ekki er vitað til þess, að Eftirlitsstofnun EFTA hafi vakið athygli hennar á hinu augljósa broti Breta á reglum Evrópusambandsins, þó að það sé innan verkahrings hennar að gera það.

Íslendingar þurfa ekki bara að taka til sterkra varna fyrir máli sínu á Evrópuvettvangi, heldur sækja mál sitt og krefjast þess, að kröfur þeirra fái eðlilega meðferð fyrir evrópskum eftirlitsstofnunum.

Með niðurstöðunni í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl 2011 höfnuðu Íslendingar ekki samningaleið. Íslenzka þjóðin hafnaði því aðeins að vera niðurlægð í samningum. Þjóðin vill örugglega samninga, þar sem samið er réttlátlega um allt, sem semja þarf um. Þetta eiga íslenzk stjórnvöld að tilkynna viðsemjendum sínum, þegar af hvorum tveggja bráir.

Höfundur er fyrrverandi hæstaréttarlögmaður.