Vaxtaákvörðun Seðlabanki Evrópu ákvað að hækka stýrivexti í 1,25 prósent og vísaði í hækkandi verðbólgu þeirri ákvörðun til stuðnings.
Vaxtaákvörðun Seðlabanki Evrópu ákvað að hækka stýrivexti í 1,25 prósent og vísaði í hækkandi verðbólgu þeirri ákvörðun til stuðnings. — Reuters
Bjarni Ólafsson bjarni@mbl.is Ákvörðun evrópska seðlabankans um að hækka stýrivexti gæti haft alvarleg áhrif á fjárhagslegt heilbrigði þeirra Evrópuríkja sem eiga í hvað mestum vandræðum núna.

Bjarni Ólafsson

bjarni@mbl.is

Ákvörðun evrópska seðlabankans um að hækka stýrivexti gæti haft alvarleg áhrif á fjárhagslegt heilbrigði þeirra Evrópuríkja sem eiga í hvað mestum vandræðum núna. Í sérstakri úttekt breska blaðsins Observer segir að vextir á björgunarpökkum ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til ríkja eins og Grikklands og Írlands, hreyfist í takt við stýrivexti evrópska seðlabankans. Hækki seðlabankinn vexti, eins og hann hefur nú þegar gert, gæti það því þrýst þessum löndum fram af brúninni og í greiðsluþrot.

Í úttekt Observer, sem unnin var af ráðgjafarfyrirtækinu Fathom í London, segir að staða Spánar sé ennþá mjög viðkvæm, þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda þar um að efnahagur landsins sé mun heilbrigðari en Portúgals. Endurfjármögnunarþörf Spánar sé mikil í ár og á næsta ári og bætist það ofan á þörfina fyrir að fjármagna áframhaldandi hallarekstur á ríkissjóði. Segir í úttektinni að vextir á skuldum Spánar megi ekki hækka mikið til að ríkissjóður landsins lendi í enn alvarlegri vanda en hann er í núna.

Ef þessi ríki geta ekki staðið við skuldbindingar sínar og ef greiðslufall verður í einhverjum þeirra gæti það eyðilagt sjálfstraust á mörkuðum með mjög alvarlegum afleiðingum annars staðar í evrópska fjármálakerfinu.

Evrópski seðlabankinn hefur löngum verið sagður horfa meira á verðbólgutölur við vaxtaákvarðanir sínar en sá bandaríski. Verðbólga á evrusvæðinu mælist nú 2,6 prósent og er það ástæðan fyrir því að bankinn ákvað að hækka stýrivexti í 1,25 prósent.

Hækkandi vaxtakostnaður mun hins vegar breikka bilið milli „kjarnaríkjanna“ í Evrópu, sem eru farin að sýna merki um bata, og þeirra sem liggja nær jaðrinum og eiga í meiri erfiðleikum með fjármögnun og almenna efnahagslega uppbyggingu.