Lóan Veðurfræðingur?
Lóan Veðurfræðingur? — Morgunblaðið/Ómar
Margir Íslendingar fylgjast með veðurspám eins og þær séu heilagur sannleikur, eins og það sé öruggt mál að veðrið verði eins og veðurfræðingurinn segir fyrir um.

Margir Íslendingar fylgjast með veðurspám eins og þær séu heilagur sannleikur, eins og það sé öruggt mál að veðrið verði eins og veðurfræðingurinn segir fyrir um. En eins og segir svo skemmtilega í texta Bogomils Fonts og hljómsveitarinnar Flís þá ljúga veðurfræðingar, þeir segja aldrei satt! Nei, annars, það er ekki rétt, auðvitað ljúga veðurfræðingar ekki. Þeir lesa bara í kort eftir bestu getu og reyna að svala þessari merkilegu þörf manna fyrir að vita hvernig veðrið verður á morgun og hinn og jafnvel næstu vikuna. Og ef það er sól í kortunum eiga menn til að slá því blákalt föstu að vorið sé komið eða treysta jafnvel á lítinn fugl, telja að hann sé heimsins mesti veðurfræðingur og viti hvernig veðrið verður næstu mánuði. Líklega hefur þó litli fuglinn bölvað sjálfum sér í gær fyrir að leggja svona snemma af stað frá sólríkari löndum, þegar haglið hamraði lítinn haus og stél. Vorið kemur nefnilega oftast mjög seint á þessu landi og ekki ólíklegt að það snjói á höfuð fylgdarmanna veðurfræðinga sumardaginn fyrsta, þótt þeir séu í stuttbuxum. Það er ekki veðurfræðingum að kenna og heldur ekki litlum fugli sem nær ekki að kveða burt snjóinn, vesalingurinn.

Helgi Snær Sigurðsson