Trúnaðarbrestur forystu og flokks er stóri vandinn. Hann verður að leysa

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fram fór um síðustu helgi var afgerandi. Skoðanakannanir náðu ekki að segja fyrir um úrslitin þótt MMR-könnun fyrir Andríki hafi verið næst því. Þó gáfu kannanir til kynna að eftir því sem umræðurnar urðu markvissari óx andstaðan. Upplýst umræða hlaut að leiða til að svarið yrði Nei. Hin umdeilda afstaða forystu Sjálfstæðisflokksins til málsins bætti vafalaust stöðu Já-manna nokkuð. En ekki fer þó á milli mála að yfirgnæfandi meirihluti flokksmanna og stuðningsmanna flokksins sagði nei í kjörklefanum.

Forysta Sjálfstæðisflokksins á aðeins tvo kosti í stöðunni. Tilkynna að hún muni fara frá á næsta Landsfundi flokksins, sem ber að halda á þessu ári, ellegar leitast við að endurvinna það traust sem glataðist og fá endurnýjað umboð á fundinum. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki þeirrar gerðar að hann krefjist játninga af forystumönnum sínum við aðstæður eins og þær sem nú eru innan flokksins. En hann hlustar grannt eftir viðbrögðum þeirra.

Í hnotskurn er vandi forystunnar þessi: Hún ákvað skyndilega og óvænt að ganga þvert á svig við skýra ákvörðun Landsfundar flokksins í þýðingarmiklu stórmáli. Það getur forysta flokksins ekki leyft sér að gera nema einhver sú neyð eða nauðung sé uppi sem réttlætti slíkt og flokksfólkið myndi skilja og sætta sig við. Ekkert slíkt var fyrir hendi nú og forysta flokksins og meirihluti þingflokksins náði ekki að skýra með sannfærandi hætti hvers vegna hún ákvað að fylgja leiðsögn Jóhönnu og Steingríms í hinu afdrifaríka máli. Bersýnilega las hún ekki rétt hug sinna eigin flokksmanna og virti ekki skýra ályktun þeirra og afstöðu. Af því leiðir að flokksmenn ræða sín á milli hvort hætta sé á að forystan kunni að bregðast með áþekkum hætti í öðrum stórmálum. Þarna liggur trúnaðarbresturinn.

Núverandi forysta er skipuð ungu fólki sem er mörgum góðum kostum búið. Hún hefur sagt að hún muni gera allt til þess að vinna traust flokksmanna og kjósenda flokksins á ný. Í því felst að hún ætlar ekki að berja höfðinu við steininn heldur viðurkenna mistökin í verki. Hún hefur með öðrum orðum áréttað vilja sinn til að læra af því sem gerðist. Forystan mun ekki vinna trúnað flokksfólks á ný eins og hendi sé veifað. En líkur standa til að það sama fólk vilji gefa forystunni annað tækkifæri. Sé það mat rétt verður hún að nýta það tækifæri vel. Annað mun örugglega ekki gefast. Það er ekki keppikefli að alvarleg upplausn í Sjálfstæðisflokknum bætist við hið almenna upplausnarástand sem nú er í þjóðfélaginu. Ábyrgð forystunnar er því mikil. Sannfærist flokksmenn um einlægni hennar og góðan vilja getur þrátt fyrir allt vel ræst úr.