Það var einhver dularfullur drungi yfir Söngkeppni framhaldsskólanna sem fram fór á Akureyri um liðna helgi.

Það var einhver dularfullur drungi yfir Söngkeppni framhaldsskólanna sem fram fór á Akureyri um liðna helgi. Víkverji sá megnið af „sjóinu“ í sjónvarpinu og velti því fyrir sér á meðan hvort íslensk ungmenni hafi yfir höfuð ekkert gaman af því að vera til. Hver angurvær ballaðan rak aðra og greinilegt að flytjendum var mikið niðri fyrir. Ef undan eru skilin atriði Menntaskólanna við Laugarvatn og Sund virtist dauðans alvara vera þema kvöldsins.

Auðvitað hefur þessi þjóð verið í efnahagslegum öldudal en gefi Söngkeppni framhaldsskólanna rétta mynd af sálarlífi íslenskra ungmenna er ástæða til að hafa áhyggjur af framtíðinni. Hvað varð um gleðina?

Hafandi sagt þetta var tæknskælingurinn Dagur Sigurðsson afar vel að sigrinum í keppninni kominn með íslenska útgáfu af „Helter Skelter“ Bítlanna, „Vitskert vera“. Nú er Víkverji alla jafna ekki getspakur maður en um leið og Dagur lauk sér af mælti hann við fjölskyldumeðlimi: Þessi maður mun vinna! Fyrirtaks rokksöngvari, Dagur og ekki veitir af háværum og aðsópsmiklum mönnum í seinni tíð.

Hvað er þetta eiginlega með sýningartíma kvikmyndahúsanna? Víkverji hefur áður kveinkað sér undan 8- og 10-sýningunum, þykir sú fyrri of snemma á ferðinni og sú síðari of seint. Einhvern daginn í síðustu viku ákvað Víkverji með skömmum fyrirvara að skella sér í bíó klukkan 6 síðdegis. Hann var laus úr vinnu upp úr klukkan 5:30 og hugsaði sér gott til glóðarinnar. En hvað var a'tarna? Eina sýningin sem hófst klukkan 6 var teiknimyndin „Mömmur vantar á Mars“ og hún freistaði Víkverja ekki. Aðrar myndir byrjuðu ýmist klukkan 5:25 eða 5:40 sem hentaði Víkverja ekki. Hann varð því frá að hverfa. Hvers vegna í ósköpunum hefjast engar bíósýningar klukkan 6 síðdegis?