Twin Peaks Þættirnir sönnuðu að hægt væri að gera sjónvarpsþætti sem væru hreinasta listaverk. Höfundur er ólíkindatólið David Lynch.
Twin Peaks Þættirnir sönnuðu að hægt væri að gera sjónvarpsþætti sem væru hreinasta listaverk. Höfundur er ólíkindatólið David Lynch.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar komið var inn í þriðju þáttaröðina var eins og vindurinn væri úr sköpuninni, líkt og ráðaleysi umlyki handritshöfundana

Af sjónvarpsþáttum

Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is Fyrir stuttu bárust þær gleðifréttir að framleiða ætti fleiri þáttaráðir af þáttunum Mad Men, sem eru með því allra besta sem sjónvarpsmiðillinn hefur getið af sér. Þegar David Lynch réðst í að framleiða tímamótaþættina Twin Peaks við enda níunda áratugarins tókst honum að sýna fram á að sjónvarp gæti hýst eitthvað annað og meira en afþreyingu. Hann tók glæsilegt stökk yfir í listheima með þáttunum og sjónvarpslandslagið breyttist til frambúðar. Með tilkomu sjónvarpsstöðva eins og HBO, sem hóf framleiðslu á Sopranos árið 1999 og hóf að nota slagorðið „Þetta er ekki sjónvarp... þetta er HBO“, var brautryðjandastarfi Lynch smellt í stokk og æ síðan hafa sjónvarpsáhoerfendur getað nálgast efni sem er samhliða þeim gæðum sem við sjáum í kvikmyndum, og oft er farið fram úr þeim. Í eina tíð færðu kvikmyndastjörnur sem máttu muna sinn fífil fegurri sig yfir í sjónvarpsþætti en í dag þykir það upphefð ef leikarar ná að tryggja sér burðarrullu í þungavigtarþáttum. Nýjustu fréttir þessa efnis eru af gæðaleikaranum Steve Buscemi sem fer með aðalhlutverkið í Boardwalk Empire, sem er einmitt framleitt hjá HBO. En... já, nú kemur „En-ið“ stóra.

Fréttirnar af Mad Men ollu nefnilega tvíræðum tilfinningum. Jú, þar sem maður er aðdáandi gleðst maður. Líkt og að heyra að uppáhaldshljómsveitin manns sé komin í hljóðver að vinna að nýrri plötu. En um leið setti að manni ugg. Því að þegar þættir eru keyrðir svona áfram eiga þeir til að þynnast út, og reyndar hefur það nánast verið algilt að undanförnu. Desperate Housewives, Heroes, Dexter, 24 og svo má telja. Ef þeir þynnast ekki út verða þeir fyrir því sem kallast „þriðju þáttaraðar þyngsli“ eða „3rd season slump“, hugtak sem er orðið fast í umræðum um sjónvarpsmenningu og rík ástæða fyrir því. Vinsælir gæðaþættir eins og Dexter, Mad Men og Six Feet Under (aðeins Twin Peaks hafa skákað því síðastnefnda að snilld) stríddu við það sama. Þegar komið var inn í þriðju þáttaröðina var eins og vindurinn væri úr sköpuninni, líkt og ráðaleysi umlyki handritshöfundana og þeir vissu hreinlega ekki hvert fara ætti með söguna. Spennan búin að byggjast upp hægt og sígandi í fyrstu tveimur, ýjað að margvíslegum hlutum sem fá fólk til að brjóta heilann, allnokkur dýpt og pælingar í samtölum og heildræn framvinda í gangi. Svo bara... eitthvað!?

Hver er ástæðan fyrir þessu? Jú, þegar lagt er af stað með nýjar þáttaraðir er lagt af stað út í óvissuna. Þættirnir tikka á áhorfi og ef þeir falla á milli þilja, fá ekki góðar undirtektir, er þeim umsvifalaust kippt út af dagskrá. Og gildir þá einu hversu langt menn eru komnir í ferlinu, tilbúnir þættir sem biðu útsendingar fara rakleitt ofan í kassa. Svo þegar þættir slá í gegn, líkt og með Mad Men, Heroes og Desperate Housewives, koma hins vegar kröfur um fleiri þætti. Og þá er líkt og Mammon snúi listgyðjuna niður. Jafnan fleiri þættir - » meira áhorf - » meiri peningar verður til muna mikilvægari en það hvort menn eigi það í sér að kokka upp eitthvað af viti fyrir saklausa aðdáendurna.

Twin Peaks entist ekki nema í tvær þáttaraðir og nýtur kannski költstöðu vegna þess. Og meira að segja þótti mörgum sem þeir væru farnir að fara út af sporinu. Maður skyldi ætla að þegar þættir verða vinsælir væri hægt að ráða öfluga handritshöfunda. Eða er græðgin orðin slík að ákveðið er að skera þar niður líka, úr því að það er búið að veiða áhorfendur hvort eð er? Hugsjón Lynch um sjónvarpsþætti sem list heldur kannski ekki vatni eftir allt saman. Alltént, ég er tvístígandi gagnvart Mad Men eins og sjá má.