Íslandsmeistararnir í íshokkí karla í Skautafélagi Akureyrar munu missa spón úr aski sínum á næstu leiktíð. Fyrirliði liðsins og íshokkímaður ársins, Jón Benedikt Gíslason, er fluttur til Danmerkur og ætlar að reyna fyrir sér erlendis.

Íslandsmeistararnir í íshokkí karla í Skautafélagi Akureyrar munu missa spón úr aski sínum á næstu leiktíð. Fyrirliði liðsins og íshokkímaður ársins, Jón Benedikt Gíslason, er fluttur til Danmerkur og ætlar að reyna fyrir sér erlendis. „Stefnan hefur alltaf verið sú að fara aftur út eftir háskólanámið en svo meiddist ég fyrir tveimur árum og hætti þá við. Þetta hefur dregist á langinn en löngunin til að spila aftur í hærri gæðaflokki er enn til staðar,“ sagði Jón í samtali við Morgunblaðið í Zagreb þar sem Jón leikur með íslenska landsliðinu á HM.

Jón er 27 ára gamall og hefur reynslu af því að spila erlendis. Hann var til að mynda atvinnumaður í Kína eitt keppnistímabil fyrir nokkrum árum. Hann á eftir að ákveða hvar hann mun spila. „Ég er með boð frá Olaf Eller (landsliðsþjálfaranum) en hann þjálfar lið í næstefstu deild í Danmörku. Ég mun skoða það og væntanlega mun ég reyna fyrir mér hjá fleiri félögum,“ sagði Jón ennfremur og bætti því við að erfitt væri að komast að hjá liðum í efstu deild þar sem einungis eru leyfðir fimm útlendingar í hverju liði og mikið framboð er af leikmönnum frá sterkum íshokkíþjóðum eins og Kanada og Rússlandi. kris@mbl.is