Öflugur Brynjar Þór Björnsson skoraði 28 stig fyrir KR-inga í gærkvöld og reynir hér að finna leið í gegnum vörn Stjörnunnar. KR er með 1:0 forystu og liðin mætast aftur í Ásgarði í Garðabæ á fimmtudagskvöldið.
Öflugur Brynjar Þór Björnsson skoraði 28 stig fyrir KR-inga í gærkvöld og reynir hér að finna leið í gegnum vörn Stjörnunnar. KR er með 1:0 forystu og liðin mætast aftur í Ásgarði í Garðabæ á fimmtudagskvöldið. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á vellinum Ólafur Már Þórisson omt@mbl.

Á vellinum

Ólafur Már Þórisson

omt@mbl.is

„Við erum ótrúlega sáttir og glaðir en á sama tíma einbeittir og erum duglegir að minna okkur á að staðan er bara 1:0,“ sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR, eftir að hans menn tóku Stjörnuna í kennslustund í þriðja leikhluta. Þetta var fyrsti leikur liðanna í úrslitum um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik þó KR hafi alltaf haft frumkvæðið. Dómararnir leyfðu ekki mikla snertingu og allt önnur lína var sett í þessum fyrsta leik en til að mynda í einvígi KR og Keflavíkur. Það varð til þess að leikmenn söfnuðu villum eins og nammi á öskudaginn. Jovan Zdravevski, leikmaður Stjörnunnar, lenti snemma í villuvandræðum sem hafði áhrif á leik gestanna.

Brynjar Þór Björnsson fór þó fyrir heimamönnum í fyrri hálfleik en í þeim þriðja steig Marcus nokkur Walker upp og hóf að setja niður hvert þriggja stiga skotið á fætur öðru. Frábær frammistaða hjá þessum magnaða leikstjórnanda sem ætlar greinilega að reynast KR mikilvægur. Eftir það sá Stjarnan aldrei til sólar og heimamenn fóru með sanngjarnan 30 stiga sigur, 108:78.

Stjarnan bognaði allt of snemma og náði aldrei að rétta úr kútnum. Framlag sterkra leikmanna vantaði eins og Jovans Zdravevski. Þá vantaði meira frá Renato Lindmets og Justin Shouse þó þeir hafi líklega verið bestu menn liðsins. Það segir kannski meira um hina, eins og Fannar Frey Helgason sem fann sig engan veginn í leiknum. Nú er hinsvegar Stjarnan búin að kynnast úrslitunum og ekkert sem segir að liðið sem sló deildarmeistarana út, 3:0, komi ekki til baka og veiti KR meiri mótspyrnu. Þvert á móti og ef það er einhver sem kann það betur en aðrir þá er það þjálfarinn þeirra, Teitur Örlygsson.

Ekkert hefur breyst

KR hefur hinsvegar mikið meira til að gleðjast yfir og það gerði Hrafn Kristjánsson í leikslok. „Við munum ekki setja sextíu prósent af þriggja stiga skotum okkar niður í öllum leikjunum. Það er því mikilvægt að skerpa á nokkrum hlutum í vörninni fyrir næsta leik,“ sagði Hrafn og hélt áfram: „Við unnum fyrir þessum skotum fyrir utan. Spiluðum boltanum vel og komum okkur í færin.

Ég var samt ósáttur með einbeitinguna í vörninni í fyrri hálfleik en þrátt fyrir það náðum við að keyra upp hraðann. Það er okkur í hag og skilaði sér í seinni hálfleik.“

Hrafn sagði að þessi sigur breytti engu um það hvernig þeir nálguðust annan leik liðanna á fimmtudaginn. „Mér líður nákvæmlega eins gagnvart honum og mér leið fyrir þennan leik. Hver einasti leikur verður erfiður og þeir koma brjálaðir til leiks. Það ætlum við hinsvegar að gera líka. Ég býst samt við erfiðari leik og háspennu fram á síðustu sekúndu í Garðabænum.“

Átti aldrei að spila

Hrafn gat leyft sér að skipta yngri og óreyndari mönnum inn á í fjórða leikhluta. Auk þess spilaði Fannar Ólafsson ekki mínútu vegna meiðsla í kálfa. „Það var aldrei í myndinni fyrir leik að ég gæti rúllað þeim svona. Ég er hinsvegar með marga frábæra körfuboltamenn og það gleður mitt hjarta að sjá þá koma inn á og spila með þeim hætti sem þeir gerðu.

Við ætluðum hinsvegar aldrei að nota Fannar. Þetta var einhver sirkus að hafa hann í búningi en mér er sagt að þrír dagar eigi að geta komið honum í leikhæft ástand. Það er hinsvegar jákvætt að sjá liðið spila svona án hans.“

KR – Stjarnan 108:78

DHL-höllin, fyrsti úrslitaleikur karla í körfuknattleik mánudag 11. apríl 2011.

Gangur leiksins : 8:4, 17:9, 25:18, 27:25 , 36:27, 40:32, 47:41, 56:48, 64:50, 66:55, 77:59, 87:66 , 95:68, 100:71, 102:73, 108:78 .

KR: Brynjar Þór Björnsson 28/4 fráköst, Marcus Walker 23, Hreggviður Magnússon 16/5 fráköst, Finnur Atli Magnússon 10/4 fráköst/4 varin skot, Pavel Ermolinskij 10/9 fráköst/7 stoðsendingar, Ágúst Angantýsson 6/8 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 6/8 fráköst, Ólafur Már Ægisson 3, Martin Hermannsson 3, Skarphéðinn Freyr Ingason 3.

Fráköst : 29 í vörn, 15 í sókn.

Stjarnan : Justin Shouse 19/6 stoðsendingar, Renato Lindmets 18/7 fráköst, Guðjón Lárusson 12/8 fráköst, Jovan Zdravevski 11/4 fráköst, Daníel G. Guðmundsson 5/4 fráköst, Kjartan Atli Kjartansson 4, Fannar Freyr Helgason 4/4 fráköst, Dagur Kár Jónsson 3, Ólafur A. Ingvason 2.

Fráköst : 21 í vörn, 10 í sókn.

Dómarar : Kristinn Óskarsson, Jón Guðmundsson.

*Staðan er 1:0 fyrir KR.

„Við vinnum saman og við töpum saman“

Teitur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar sagði í samtali við Morgunblaðið fyrir leikinn við KR að hann vonaðist til að fyrirsögnin yrði Stjarnan hafði gott af fríinu. Svo varð ekki raunin. „Ég vona að fríið sé ástæðan en það er samt ekki hægt að afsaka sig með því eftir 30 stiga tap. Það kemur í ljós á fimmtudaginn hvort sú er raunin. Þá sagði Teitur að sumir hefðu einfaldlega ekki verið tilbúnir í átökin. „Sumir voru það svo sannarlega en aðrir hreinlega ekki. Við hinsvegar vinnum saman og við töpum saman. Þess vegna þurfum við að koma til baka á fimmtudag og gera leik úr þessu.“

Teitur sagði að ekkert hefði komið sér á óvart í leik KR þrátt fyrir stórt tap. „Þetta var allt búið til hér í DHL-höllinni, ekta leikur hjá KR. Þeir hlupu á okkur og fengu galopna þrista sem þeir nýttu mjög vel. Við þurfum að koma í veg fyrir það en við vorum frekar dofnir í vörninni og þá er erfitt að verjast.“ omt@mbl.is

Moggamaður leiksins

Marcus Walker spilaði einstaklega vel bæði í vörn og sókn hjá KR. Þó að Justin Shouse hafi líklega verið einn besti maður Stjörnunnar sá Walker til þess að hann var ekki betri en raun bar vitni. KR sleit sig frá gestunum þegar hann fór að hitta í þriðja leikhluta.