Stytta í vegghleðslu Gripirnir eru viðkvæmir en þá þarf að fjarlægja.
Stytta í vegghleðslu Gripirnir eru viðkvæmir en þá þarf að fjarlægja.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tugir fornleifafræðinga og allt að eitt þúsund verkamenn, sem 1.600 hermenn gæta, keppast við að grafa upp sem mest af fornminjum í Mes Aynak í Afganistan og koma þeim í skjól.

Tugir fornleifafræðinga og allt að eitt þúsund verkamenn, sem 1.600 hermenn gæta, keppast við að grafa upp sem mest af fornminjum í Mes Aynak í Afganistan og koma þeim í skjól. Þeir reyna að bjarga sem mestu af fornum styttum, stúpum og öðrum minjum áður en kínverskt námufyrirtæki fær svæðið afhent og breytir því í opna koparnámu. Talið er að á svæðinu sé eitt besta koparsvæði jarðar í dag. Þeim fornminjum sem næst ekki að flytja áður en framkvæmdir hefjast verður eytt.

Mes Aynak var við hina fornu Silkileið og þar höfðu verið reist umfangsmikil búddahof fyrir um 2.500 árum. Auk þess að vera mikilvæg trúarmiðstöð var þetta litríkur verslunarstaður og þá þegar var farið að vinna dýra málma úr fjöllunum í kring.

Í Mes Aynak er nú viðamesti fornleifagröftur samtímans, enda unnið í kapphlaupi við tímann. Að sögn The Art Newspaper var það þarna sem liðsmenn Osama bin Ladens voru þjálfaðir áður en þeir gerðu árásina á Tvíburaturnana, en nú hefur svæðið verið leigt kínversku ríkisfyrirtæki til næstu 30 ára fyrir sem nemur 3,5 milljörðum Bandaríkjadala. Er það stærsti samningur sem afgönsk stjórnvöld hafa gert við erlenda aðila og er vonast til að hann verði mikilvæg innspýting fyrir afganskt efnahagslíf.

Kínverjar bíða átekta

Merkar afganskar menningarminjar hafa verið eyðilagðar í stórum stíl á síðustu árum, ekki síst meðal talibanar ríktu í landinu. Fornleifafræðingarnir í Mes Aynak hafa til að mynda fundið margar stórar búddastyttur, sem höfuðið hefur verið brotið af til að selja.

Þrátt fyrir að samið hafi verið um námuvinnsluna árið 2007 var ekki hafist handa við að bjarga fornleifum fyrr en tveimur árum síðar. Hluti klaustra hefur síðan verið grafinn upp og fjöldinn allur af styttum, í misgóðu ásigkomulagi, komið í ljós. Til að mynda fundust tíu metra löng höggmynd af Búdda liggjandi, umfangsmikil veggmálverk og hlaðnar stúpur, en það eru bænaturnar sem hýsa helga gripi.

Þrátt fyrir að tiltölulega lítið hafi enn verið grafið upp af þeim minjum sem sérfræðingar telja vera á staðnum á verkinu að ljúka eftir 14 mánuði. Fullyrt að þá hafi aðeins hluta verðmætanna verið bjargað.

Aðstoðarmenningarráðherra Afganistans, Omar Sultan, sagði fyrir skemmstu að fjölga ætti fornleifafræðingum við verkið úr 30 í 65. Mikilvægustu gripirnir eru sendir til Þjóðminjasafnsins í Kabúl en talið er að geymslur muni þó engan veginn ráða við umfangið. Þegar er þó farið að sýna í safninu hluti sem fundist hafa í Mes Aynak, en bandaríska sendiráðið kostar sýningu á 70 gripum sem var opnuð 15. mars síðastliðinn. Þá er nú rætt um að byggja sérstakt safn um hluti frá Mes Aynak.

Kínverskir verktakar hafa þegar hafist handa við vegagerð og annan undirbúning fyrir námuvinnsluna sem hefst árið 2014. efi@mbl.is