Örn Arnarson: "Þrjú aðildarríki evrusvæðisins hafa þurft að leita eftir neyðarlánum frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á síðustu tólf mánuðum sökum þess að þau hafa ekki með góðu móti getað endurfjármagnað skuldir sínar á fjármálamörkuðum."

Þrjú aðildarríki evrusvæðisins hafa þurft að leita eftir neyðarlánum frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á síðustu tólf mánuðum sökum þess að þau hafa ekki með góðu móti getað endurfjármagnað skuldir sínar á fjármálamörkuðum. Þetta ætti að vera sterk vísbending um að ekki sé allt með felldu á evrusvæðinu. Neyðarlánin fela í sér takmarkaða lausn á þeim vanda sem við er að etja. Þau veita grískum, írskum og portúgölskum stjórnvöldum tímabundið skjól frá fjármálamörkuðum en hins vegar verður vart séð að það dugi til þess að leysa þann grundvallarvanda sem við er að etja.

Opinber skuldastaða viðkomandi hagkerfa er aðeins birtingarform þess vanda sem er óumflýjanlegur þegar Evrópski seðlabankinn tekur fyrst og fremst tillit til stöðu mála í þýska hagkerfinu, stærsta hagkerfi evrusvæðisins, við framkvæmd peningamálastefnunnar. Stærstan hluta fyrsta áratugar aldarinnar hélt ECB stýrivöxtum lágum vegna hægagangs þýska hagkerfisins. Á sama tíma flæddi fjármagn til jaðarsvæðanna, meðal annars með þeim afleiðingum að launakostnaður rauk upp úr öllu valdi án þess að framleiðni fylgdi með. Á meðan hann stóð nánast í stað í Þýskalandi hækkaði hann um 30% í ríkjum á borð við Grikkland og Portúgal. Því hefur verið fleygt fram í umræðunni hér heima að þessi þróun sýni hversu evran er góð þegar kemur að því að verja kaupmátt launamanna en í þeirri fullyrðingu felst hugsunarvilla. Þessi launaþróun í þeim evruríkjum sem eru verst stödd um þessar mundir hefur leitt til þess að útflutningsiðnaður þeirra er hvorki samkeppnishæfur á evrusvæðinu né á alþjóðamörkuðum. Allar efnahagsaðgerðir þeirra ríkja sem þurft hafa að leita eftir neyðarláni þurfa að miðast við að ná niður launakostnaði til þess að endurreisa samkeppnishæfni. Þetta þýðir með öðrum orðum að þau þurfa að framkalla sjálfkrafa áhrif gengisfellingar án þess að mögulegt sé að fella gengið.

Ennfremur knúðu lágir vextir á evrusvæðinu áfram stórfellda eignabólu á fasteignamarkaði í ríkjum á borð við Spán og Írland. Þrát fyrir að fasteignaverð í þessum ríkjum hafi lækkað umtalsvert á liðnum árum er hægt að færa nokkuð sannfærandi rök fyrir því að leiðréttingin sé ekki komin fram að fullu og það á auðvitað eftir að hafa skaðleg áhrif á viðkomandi hagkerfi.

Lausnin við þessum vanda hefur falist í frekari lántökum hins opinbera auk þess að grípa til víðtækra aðhaldsaðgerða sem einsýnt er að muni halda niðri hagvexti á næstu árum og þar af leiðandi getu viðkomandi stjórnvalda til þess að standa straum af aukinni skuldabyrði. Ákvörðun Evrópska seðlabankans um hækkun stýrivaxta vegna umtalsverðrar þenslu og verðbólguskriðs í Þýskalandi stráir svo salti í sár hinna svokölluðu jaðarríkja evrusvæðisins á sama tíma og viðbúið er að það muni blæða áfram úr því á komandi árum.

Örn Arnarson