Skjól Athvarf Stígamóta verður byggt að danskri fyrirmynd. Þær konur sem leiðast út í vændi hafa flestar áður orðið fyrir ofbeldi.
Skjól Athvarf Stígamóta verður byggt að danskri fyrirmynd. Þær konur sem leiðast út í vændi hafa flestar áður orðið fyrir ofbeldi. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Stígamót munu brátt opna athvarf fyrir konur sem eru á leið úr vændi eða mansali.

Baksvið

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Stígamót munu brátt opna athvarf fyrir konur sem eru á leið úr vændi eða mansali. Að mati Guðrúnar Jónsdóttur, talskonu Stígamóta, er vændi viðvarandi vandamál og henni finnst mikilvægt að lögreglan framfylgi lögum sem banna kaup á vændi. „Ég sakna þess að fleiri hafi ekki verið dæmdir fyrir vændiskaup, miðað við það vændi sem er í gangi.“ Hildur Jónsdóttir, formaður sérfræði- og samhæfingarteymis vegna mansals, segir að talið sé óyggjandi að dæmi séu um að konur komi hingað til lands sérstaklega til að stunda vændi. Í sumum tilfellum séu þær fórnarlömb mansals en í öðrum ekki. „Það er aldrei hægt að vita hvort konur sem stunda vændi eru fórnarlömb mansals eða ekki. Þess vegna hvet ég alla þá sem verða varir við óeðlilega starfsemi af þessum toga að láta lögreglu vita svo hún geti rannsakað málið,“ segir hún.

Ástundun vændis er ekki lögbrot en kaup á vændi og að skipuleggja það er á hinn bóginn ólöglegt. Hildur bendir einnig á að það sé ólöglegt að hafa vitandi vits hagnað af vændi, s.s. með því að leigja húsnæði undir slíka starfsemi eða auglýsa það. Hildur segir að þær vísbendingar sem liggi fyrir um skipulag vændismarkaðarins hér á landi bendi til að það séu Íslendingar sem ráði þar mestu en séu gjarnan í sambandi við glæpahringi úti í heimi sem geti útvegað konur.

Alvarlegar afleiðingar

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir að flestar konur, þó ekki allar, sem komi til Stígamóta vegna vændis eigi það sameiginlegt að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, s.s. sifjaspellum eða nauðgunum, áður en þær leiddust út í vændi. „Afleiðingar þess að hafa verið í vændi eru ákaflega sambærilegar við afleiðingar annars ofbeldis, nema afleiðingar vændis geta verið ýktari. Við lítum raunar á vændi sem ofbeldi gegn konunum,“ segir hún.

Þrjár starfskonur Stígamóta starfrækja sjálfshjálparhóp fyrir konur sem hafa verið í vændi og segir Guðrún að konurnar líki starfi sjálfshjálparhópsins við hálfgerða frelsun.

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastýra Unifem á Íslandi, hefur verið ráðin sem verkefnisstýra í athvarfinu sem Stígamót ætla að opna fyrir konur sem eru á leið úr vændi og mansali. Búið er að tryggja lágmarksfjármögnun fyrir verkefnið en eftir er að finna rétta húsnæðið. Hingað til hafa konur sem koma úr vændi getað leitað til Kvennaathvarfsins en Guðrún segir að aðstaðan þar sé ekki talin henta nægilega vel. „Við vitum það af okkar reynslu og annarra að þessar konur þurfa meiri ró og lengri tíma til að jafna sig. Við sjáum fyrir okkur að athvarfið verði fyrir færri konur og að þær geti verið öruggar um að fá sérherbergi.“

Guðrún bendir á að þótt reynt sé að láta skipulagða vændisstarfsemi fara hljótt geti vændi aldrei verið ósýnilegra en svo að hægt sé að selja það. „Og ef kúnnarnir geta fundið það, þá geta það aðrir líka, meðal annars lögreglan, fjölmiðar og fleiri,“ segir hún. Lögregla hér á landi hafi tekið marga góða spretti við að uppræta skipulagt vændi. „En það vantar upp á að hún sýni sífellda árvekni.“

TÍMAFREKAR RANNSÓKNIR

Ungar stúlkur fyrir fíkniefni

Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að kynferðisbrotadeildin eigi fullt í fangi með að rannsaka kærur vegna kynferðisofbeldis, s.s. nauðgana og kynferðisbrota gegn börnum, og hafi því lítið getað sinnt rannsóknum á vændi. Rannsóknir á vændi séu tímafrekar og krefjist töluverðs mannafla. „Við sinnum því sem kemur inn á okkar borð og tilefni er til.“

Björgvin segir að svo virðist sem það hafi frekar aukist að ungar stúlkur selji sig fyrir fíkniefni og peninga. „Þetta kemur ekki á borð lögreglu en þetta er virkilega mikið áhyggjuefni sem vert er skoða,“ segir hann.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri segir að lögregla sinni öllu sem komi inn á borð til hennar en tíminn til að fara í frumkvæðisvinnu sé sífellt minni.