Sigurgleði Íslensku stúlkurnar hoppuðu næstum því hæð sína í loft upp af gleði eftir sigurinn á Pólverjum í gær. Þær leika um verðlaunasæti á Evrópumótinu í Sviss í lok júlímánaðar.
Sigurgleði Íslensku stúlkurnar hoppuðu næstum því hæð sína í loft upp af gleði eftir sigurinn á Pólverjum í gær. Þær leika um verðlaunasæti á Evrópumótinu í Sviss í lok júlímánaðar. — Ljósmynd/Íris Björk
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Nýr kafli var skráður í sögu íslenskrar knattspyrnu í gær þegar U17 ára landslið stúlkna tryggði sér sæti í undanúrslitum á Evrópumótinu.

Fótbolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Nýr kafli var skráður í sögu íslenskrar knattspyrnu í gær þegar U17 ára landslið stúlkna tryggði sér sæti í undanúrslitum á Evrópumótinu. Íslendingar höfðu betur gegn Pólverjum, 2:0, í öðrum leik sínum í milliriðli sem leikinn er í Póllandi en áður höfðu íslensku stelpurnar lagt Englendinga að velli, 2:0. Þetta er besti árangur íslensks landsliðs í knattspyrnu á alþjóðavettvangi frá upphafi. Þar sem Englendingar höfðu betur á móti Svíum, 1:0, í gær er ljóst að Ísland hafnar í efsta sæti riðilsins hver sem úrslitin verða í lokaumferð riðilsins því Pólland og England geta einungis náð Íslandi að stigum og Ísland hefur betur í innbyrðisviðureignum.

Sextán landslið keppa í fjórum milliriðlum og komast efstu liðin áfram í undanúrslitin en þau fara fram í Nyon í Sviss í lok júlí.

Til mikils er að vinna þar því þrjár efstu þjóðirnar vinna sér keppnisréttinn á heimsmeistaramótinu sem haldið verður í Aserbaídsjan á næsta ári. Ísland mun leika í undanúrslitum gegn Spánverjum sem í gær tryggðu sér sigur í 2. riðli keppninnar en Spánn er núverandi Evrópumeistari í þessum aldursflokki.

„Þetta er einfaldlega besti árangur í sögu íslenskrar knattspyrnu. Það hefur ekkert íslenskt landslið komist í undanúrslit á svona sterku móti og við erum auðvitað öll gríðarlega ánægð,“ sagði Þorlákur Árnason, þjálfari U17 ára landsliðsins, við Morgunblaðið í gær.

Það voru þær Guðmunda Brynja Óladóttir frá Selfossi og Telma Þrastardóttir úr Aftureldingu sem skoruðu mörk Íslands í leiknum gegn Póllandi og komu þau í seinni hálfleik.

„Við vorum betri fyrsta hálftímann en fórum illa með nokkur góð færi. Þær pólsku komust síðan meira inn í leikinn en síðustu 20-25 mínúturnar voru algjörlega okkar eign og við hefðum getað skorað fleiri mörk,“ sagði Þorlákur.

Er þessi árangur framar þínum björtustu vonum?

„Við stefndum á að komast áfram. Við ákváðum í sameiningu að setja okkur háleit markmið eftir að hafa tapað fyrir Norðmönnum í úrslitaleik á Norðurlandamótinu. Nú hefur okkur tekist það og næsta markmið er að komast á HM. Þetta er búið að vera mjög erfitt þar sem stelpurnar hafa ekkert spilað á grasi fyrr en út í leikina var komið hér í Póllandi og þá hafa verið veikindi í hópnum. En þessar stelpur eru frábærar og það eru svo sannarlega bjartir tímar í íslenskri kvennaknattspyrnu. Það eru mjög margir sterkir leikmenn að koma og eiga eftir að gera það gott í framtíðinni,“ sagði Þorlákur.