Axel Kristjánsson
Axel Kristjánsson
Eftir Axel Kristjánsson: "Þetta fór svona vegna þess, að umdeildur forseti þjóðarinnar og fyrrverandi ástmögur vinstrimanna nauðgaði stjórnarskránni í 3. skipti. Kaldhæðnislegt?"

Nú liggur fyrir afstaða þjóðarinnar til samninga stjórnvalda vegna Icesave-reikninganna. Þrátt fyrir baráttu stuðningsmanna samninganna og tilraunir til að hræða fólk til samþykkis fór svona. Þrátt fyrir baráttu stjórnarforustunnar innan og utan sinna flokka, sem Steingrímur J. þegir yfir þunnu hljóði en Jóhanna sver af sér þvert ofan í staðreyndir, fór þetta svona. Þetta fór svona vegna þess, að umdeildur forseti þjóðarinnar og fyrrverandi ástmögur vinstrimanna nauðgaði stjórnarskránni í 3. skipti. Kaldhæðnislegt?

Stjórnarforustan segir nú, að úrslit kosninganna komi ekki óvinsældum stjórnarinnar við. Þeir segja, að ekki hafi verið kosið um neitt nema „ágæti“ Icesave III. Öllum er þó ljóst, og líka stjórnarforustunni, að afstaða til málsins mótast að miklu leyti af óánægju og vonbrigðum með gagnslausa ríkisstjórn, með svik hennar við kosningaloforð, óánægju með fjas og fálm við lausn á skuldavandamálum almennings og fyrirtækja, óánægju með þvermóðsku forsætisráðherra í fiskveiðistjórnunarmálum og með tilraunir sama ráðherra til að slá sjálfa sig til riddara í stjórnarskrármálinu. Andstaða við ESB-aðild réð mjög miklu, hvað sem Steingrímur J. segir, og svo mætti lengi telja. Eftir allt, sem þessi ríkisstjórn hefur svikið og klúðrað, stendur uppi klofin þjóð og sundruð. Fjöldinn leitar forustu, sem getur sameinað þjóðina og leitt hana til sigurs í stríði hennar við nýlenduherrana. Slík forusta er vandfundin. Víst er, að hún finnst ekki hjá núverandi stjórnarforustu.

Forusta finnst ekki hjá forsætisráðherra, sem hefur það eitt að leiðarljósi að að halda í völd sín af eintómri hégómagirni („Minn tími er kominn“). Forusta finnst ekki hjá fjármálaráðherra, sem enn hefur ekki hreinsað huga sinn af gömlum kommúnistafræðum og hefur það helst að leiðarljósi, að halda stærsta stjórnmálaflokki landsins („íhaldinu“) frá völdum og þar með a.m.k. þriðjungi þjóðarinnar. Forustumenn núverandi ríkisstjórnar verða að segja af sér. Stjórnin verður að fara frá. Ekkert verra en þessi stjórn getur tekið við. Engin leið er að koma henni frá án vilja hennar. Forustan er ákveðin í að halda völdum til næstu kosninga, hvað sem það kostar þjóðina fjárhagslega, hvað sem það kostar samstöðu hennar, þegar mest ríður á, og hvað sem það kostar virðingu þjóðarinnar fyrir sjálfri sér og virðingu hennar út á við. Hvað er til ráða?

Höfundur er lögmaður.

Höf.: Axel Kristjánsson