Daníel Hans Hlynsson fæddist 20. apríl 1979. Hann lést 28. mars 2011.

Móðir hans er Sesselja Eysteinsdóttir, fædd 27. ágúst 1961. Faðir hans var Hlynur Hansen, fæddur 10. maí, lést 31. ágúst 1996.

Útför Daníels Hlyns var gerð í kyrrþey.

Þú varst fyrsti vinur minn, sá sem ég treysti fyrir öllu og ég var sá sem þú treystir fyrir öllu. Þú kenndir mér á klukku og allt virtist svo auðvelt með þér. Við vorum öllum stundum saman að koma okkur í vandræði og gerðum foreldra okkar gráhærða. Eitt stendur upp úr, þegar við fórum niður að bryggju í Stykkishólmi að dorga. Þú veiddir marhnút og við skemmtum okkur við að skoða hversu ljótur hann væri. Þú sagðir mér að maður veiddi betur ef maður hallaði sér fram en ég þorði það ekki. Það næsta sem ég vissi var að þú hafðir dottið út í sjó og ég prílaði niður til að draga þig upp. Við vorum bara litlir strákar en ég man vel hversu vel þú þakkaðir mér fyrir að bjarga lífi þínu og sagðir að ég væri besti vinur þinn. Ég mun aldrei gleyma því.

Ég man eftir ófáum skiptum þegar við vorum 7 til 12 ára að við hjóluðum út fyrir bæinn með djús í flöskum og samlokur í nesti. Þetta voru ævintýraferðirnar okkar sem við fórum á sumrin. Stundum fórum við svo langt að við rétt gátum hjólað til baka, tveir litlir bestu vinir að njóta sín. Okkur þótti svo vænt hvorum um annan og ekkert komst á milli okkar, við pössuðum hvor upp á annan og rifumst nánast aldrei. Ég mun heiðra afmælisdaginn þinn sem er á næsta leiti, á hverju ári, því að ég gleymi aldrei afmælisveislunum þínum þegar pabbi þinn fór á kostum og hafði ofan af fyrir okkur krökkunum.

Það er langt síðan ég hitti þig síðast en mér finnst við aldrei hafa hætt að vera vinir, bestu vinir. Í mínum huga varstu, ertu og verður alltaf minn besti vinur, elsku Daníel.

Ég verð alltaf þinn besti vinur og gleymi þér aldrei.

Davíð Smári Harðarson.

Þegar sá sem þetta ritar var að alast upp á Patreksfirði kviknaði snemma mikill áhugi fyrir orðaleikjum og tiltækjum. Leitar hugurinn ávallt vestur á firði til æskuára minna er snjallar setningar berast mér til eyrna. „Stál skerpir járn og maður skerpir mann,“ eru orð sem hafa lengi verið í uppáhaldi og eiga þau svo sannarlega við hér þegar ég rifja upp þau spor sem við Daníel fengum að stíga saman. Þó þau hefðu mátt vera margfalt fleiri þá voru þau mér ákaflega dýrmæt.

Við félagarnir höfðum allir mjög mikla trú á þér, elsku Daníel. Við vonuðum að vindarnir myndu snúast með þér, að þú myndir finna hæfileikum þínum farveg og fá tækifæri til að blómstra – eins og okkur öll dreymir um. Með örlítilli heppni hefði það getað orðið að veruleika. En leið þín var krókótt, í gegnum djúpa dali og um háa tinda þar til leiðir okkar skildi og sannur vinur hvarf á braut.

Alveg er ég viss um að sá sem bíður þín hinum megin færir þér nýtt ævintýri þar sem hamingjan verður allsráðandi og þú heldur áfram að snerta við þeim sem verða í kringum þig, rétt eins og þú snertir við okkur – þeim heppnu sem hlotnaðist sá mikli heiður að sjá þann fallega mann sem þú hafðir að geyma.

Smári Tarfur Jósepsson Blöndal.

Ég kynntist Daníel þegar ég flutti í Stykkishólm. Ég verð þó að viðurkenna að hvernig nákvæmlega vinátta okkar þróaðist man ég ekki. En það fyrsta sem ég man um Daníel eru augun hans. Hann var með afar falleg og sérstök augu. Þau voru oft umtalsefni stelpnanna í bekknum, mörgum bekkjarbróðurnum til gremju. Augun voru skær, djúp, tær og einhver einkennilegur hringur sem var líkt og marghyrnd stjarna í kringum augasteininn. Þau voru eins og dularfullir ískristallar.

Við Dandli, eins og hann var kallaður, lékum okkur mikið saman í fyrstu bekkjum grunnskólastigsins. Stax eftir skóla og allt sumarið var hann mætur heim í Nokia-stígvélunum sínum, sem urðu einskonar vörumerki hans. Sama hvernig viðraði voru fætur hans vel varðir af stígvélunum, hvort sem var gegn steikjandi sólinni, regni eða frosthörkum og snjó. Í leik þóttu þau einkar góð til þess að geyma sverð eða önnur löng vopn, því eins og litlum drengjum sæmir þurftum við oftar en ekki að vígbúast strax eftir skóla eða yfir sumarið. Hvort sem við vorum innskráðir í ameríska herinn eða partur af hersveit „He-man“, nú eða norrænir víkingar. Sá leikur sem varð hve oftast ofan á þegar kom að því að velja leiki var byggður á myndinni Hrafninn flýgur. Þá vorum við víkingar. Við gengum þá um hverfið sem við bjuggum í og söfnuðum að okkur ca. 10-15 cm löngum spýtum eða tjaldhælum sem voru „hnífar“. Hnífarnir voru ólaðir á framhandlegg og innundir peysu eða úlpu, ósýnilegt öðrum því þetta voru leynivopn. Fyrir þá sem þekkja til myndarinnar var samskonar vopn aðalvopn aðalhetjunnar. Með þetta hlupum við um bæinn og eltumst við aðra sem voru ímyndaðir óvinir. Þá lágum við uppi á skúrum í „leyni“ og köstuðum vopnunum í átt að saklausum vegfarendum, grunlausir um að þeir voru hugsanlega flugumenn Haraldar hárfagra Noregskonungs eða lykilmenn annarra goða eða höfðingja stórra ætta sem ásældust land okkar og auð. Þessi leikur gat staðið í marga tíma og náð yfir bæinn þveran. Enginn var óhultur. Þegar kvöldaði voru vopnin grafin svo þau lentu ekki í óæskilegum höndum fjandmanna. Það gerði aðalhetjan líka þegar kaflaskil urðu í lífi hans og hann mælti svo fjálglega að penninn myndi að lokum sigra sverðið. Það þýddi að við þurftum að fara inn að læra, eða snemma að sofa vegna þess að okkar beið penninn í skólastofunni daginn eftir. Þessi minning mín um Daníel er hve skemmtilegust, saklaus og full af lífsgleði því við gátum ekki beðið eftir að hittast aftur eftir skóla, grafa upp vopnin og halda leiknum áfram.

Leiknum er nú lokið. Vinur sem borðaði með mér brauð með malakoffi og drakk svala á meðan ég drakk kókómjólk í kaffipásum milli stríða er dáinn.

Þegar ég hugsa til baka hugsa ég til vinar og góðs leikfélaga og syrgi af eigingirni. En um leið samgleðst ég þér yfir því að vera laus úr skuggadal og vera farinn á fund pabba þíns. Pabbastrákur kominn í faðm pabba síns aftur. Faðmlag sem verður aldrei tekið frá þér aftur.

Kveðja,

Karl Jónas Smárason.

Ég hafði beðið lengi eftir þessum fréttum og talið mig reiðubúinn til að heyra þær, en það voru sorgartár sem féllu það kvöld. Daníel, æskuvinur minn, er dáinn.

Líf þitt var ekki dans á rósum en ég vil ekki minnast þess frekar. Ég vil muna eftir þér sem lífsglöðum patta sem ég ólst upp með. Fyrsta skiptið sem við hittumst var ég nýfluttur til Stykkishólms. Þú fréttir af nýja stráknum og ákvaðst því að banka upp á og bjóða mér út að leika. Eftir það voru vinabönd okkar sterk og hafa ávallt verið það, þó svo að samband okkar hafi ekki verið mikið seinustu ár. Eitt skipti fékkstu þá hugmynd að fara í hjólreiðatúr og fannst mér það bara hið besta mál þar til þú sagðir mér hvert þú vildir hjóla. Frá Stykkishólmi á Breiðabólsstað. Fyrir 12 ára gutta er þetta ansi löng leið. Loks tókst þér að sannfæra mig og eftir stutt stopp í bakaríinu var haldið í hann. Þú varst svo spenntur og varst búinn að skipuleggja dagskrá fyrir okkur þegar þangað væri komið. Eitthvað sóttist leiðin hægt hjá okkur og fór mér að líða skringilega þegar við vorum hálfnaðir. Loks náðum við leiðarenda og var þá tjaldað. Ég lagðist beint inn í tjald og var orðinn veikur. En þú varst ekkert vonsvikinn þar sem þú skemmtir þér konunglega. Við vorum alltaf hrifnir af sömu stelpunni og krotuðum nafn hennar á alla ljósastaura og bera þeir sumir þess merki enn þann dag í dag. Fórum við svo heim til hennar, inn í garð og hófum að spangóla eins og hungraðir úlfar. Vakti það litla lukku, sérstaklega hjá nágrönnum. Ég man vel eftir því þegar pabbi þinn keypti sér ameríska jálkinn, þegar hann tók okkur á rúntinn. Sátum við báðir í aftursætinu og þegar pabbi þinn gaf allt í botn mátti sjá montsvipinn í andlitinu þínu. Varst svo ánægður með pabba gamla að hafa keypt svona fínan bíl. Á unglingsárum þínum varð faðir þinn bráðkvaddur og mátti þá sjá breytingar hjá þér og fór að halla undan fæti. Á þessum tíma dvaldir þú oft hjá minni fjölskyldu. Komstu yfir í mat og stundum svafstu á dýnu á gólfinu hjá mér. Til að þakka fyrir þig komstu svo með eyrnalokka og hálsmen fyrir mömmu mína sem hún geymir vel og metur mikils. Finnst mér þetta sýna vel hversu góðan mann þú hafðir að geyma.

Fyrir ekki svo löngu var móðir mín úti að ganga og heyrir hún þá kallað nafnið sitt, snýr hún sér við og sér þig koma á harðaspretti og stekkur þú svo beint upp í fangið á henni. Er þetta síðasta stundin sem þú áttir í lífi mínu og get ég ekki lýst því hvað ég er ánægður að þú hafir gert þetta.

Elsku Daníel minn, eitt skipti rifumst við og á leiðinni heim til þín skarstu í ákveðið grindverk, Axel asni. Þegar ég sé þetta hugsa ég alltaf til þín, hvar þú sért og hvernig þú hafir það og mun ég um ókomna tíð gera það og um leið hugsa til allra þeirra góðu tíma sem við áttum saman. Núna ertu á betri stað og ég er ekki frá því að ég sjái aftan í skottið á ameríska kagganum með ykkur feðgana í framsætinu haldandi á vit nýrra ævintýra.

Ég bið Guð að blessa þig og þitt ferðalag sem þú hefur nú hafið.

Þinn vinur,

Axel Þórisson.

Lífið er undarlegt ferðalag og misjafnar þrautirnar sem lagðar eru á fólk. Sagt er að tilgangur sé með öllum þeim þrautum er við mætum á lífsleiðinni en stundum er erfitt að greina tilganginn, sérstaklega þegar ungt fólk kveður lífið þegar lífið á að vera rétt að byrja.

Í dag kveð ég æskuvin minn og bekkjarbróður Daníel. Við Daníel vorum ung þegar við fórum að leika okkur saman, grindverk aðskildi garðana okkar og þar hittumst við oft til þess að ákveða hvað við ætluðum að gera yfir daginn. Daníel var skemmtilegur leikfélagi, datt ýmislegt forvitnilegt í hug, var glaðlyndur, uppátækjasamur og frakkur og það var alltaf líf og fjör í kringum hann.

Daníel hafði að geyma góða sál og var góður vinur. Hann var stór karakter í bekknum okkar í grunnskóla og skilur eftir sig stórt skarð í árgangi 1979 en ég veit þó að minningin um góðan dreng á eftir að lifa með okkur um ókomin ár.

Öll við færum, elsku vinur,

ástar þökk á kveðjustund.

Gleði veitir grátnu hjarta.

guðleg von um eftirfund.

Drottinn Jesú, sólin sanna,

sigrað hefur dauða og gröf.

Að hafa átt þig ætíð verður,

okkur dýrmæt lífsins gjöf.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Hvíldu í friði, kæri vinur.

Þín bekkjarsystir,

Guðbjörg.