Rannveig Sigurðardóttir
Rannveig Sigurðardóttir
Eftir Rannveigu Sigurðardóttur: "Hvernig kvenfrelsi er viðhaft hjá VG? Við hvað eru þau hrædd? Á að þurrka út sjálfstæðar skoðanir í VG? Svei þessum þingmönnum flokksins, orð á borði en ekki í verki."

Það er aumt að auglýsa sig sem kvenfrelsis- og jafnréttishreyfingu þegar það eru orðin tóm, orð í kosningabaráttu, orð á borði en ekki í verki. Kvenfrelsi og jafnrétti eru þverbrotin þegar kemur að verkunum. Guðfríður Lilja kemur úr fæðingarorlofi og er umsvifalaust svipt starfi þingflokksformanns Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, fyrir karlmann. Og konurnar í þingflokknum kjósa Árna Þór til þingflokksmanns. Hvernig kvenfrelsi er viðhaft hjá VG? Við hvað eru þau hrædd? Á að þurrka út sjálfstæðar skoðanir í VG? Svei þessum þingmönnum flokksins, orð á borði en ekki í verki. Það voru ekki innantóm orð sem ég viðhafði á flokksráðsfundi VG í Hagaskóla á síðasta ári, þeir ráða sem eru hollir formanninum og eru liðsmenn flokkseigendafélagsins innan VG, Samfylkingarhluta VG. Í lögum um fæðingarorlof segir: „29. gr. Réttur til starfs.

Ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda helst óbreytt í fæðingar- og foreldraorlofi.

Starfsmaður skal eiga rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning.

31. gr. Skaðabótaskylda.

Brjóti vinnuveitandi gegn ákvæðum laga þessara varðar það skaðabótaskyldu samkvæmt almennum reglum.“ Og í lögum nr. 5/1985, Samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum, segir í 2. gr.: „Til þess að koma í veg fyrir mismunun gagnvart konum vegna hjúskapar eða móðurhlutverksins og til þess að framfylgja raunverulegum rétti þeirra til vinnu skulu aðildarríkin gera allar viðeigandi ráðstafanir:

a. til þess að banna, að viðlögðum viðurlögum, brottvísun úr starfi vegna þungunar eða fjarveru vegna barnsburðar svo og misrétti varðandi brottvísun úr starfi vegna hjúskaparstöðu;

b. til þess að koma á fæðingarorlofi eða leyfi með sambærilegum fríðindum af hálfu hins opinbera, án þess að missa fyrra starf, starfsaldur eða greiðslur félagslegra bóta.“

Hvað gerir flokkseigendafélag VG vegna endurkomu Guðfríðar Lilju úr fæðingarorlofi? Kallar til aukaþingflokksfundar og kýs hana burt sem þingflokksformann. Svei þeim sem studdu tillöguna, fals forystu VG í kvenfrelsis- og jafnréttismálum. Vantraust á konu! Hvað skyldi Sóley segja? Margt hef ég aðhyllst í stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. En nú er fokið í flest skjól. Kvenfrelsi fyrir borð borið – brottrekstur Guðfríðar Lilju úr formannsstóli þingflokksins. Auðlindir í eigu þjóðarinnar – HS Orka. Aldrei til liðs við ESB – aldildarviðræður í gangi, þökk sé VG! Icesave – einkavæðing bankanna, bara borga. Forysta Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur svikið grundvallarhugsjónir flokksins. Þeim hefnist sem að svíkja sína huldumey.

Höfundur er skrifstofumaður og fyrrverandi félagi í VG.

Höf.: Rannveigu Sigurðardóttur