Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku.
Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku.
Kristján Jónsson kjon@mbl.is Tilraun Afríkusambandsins til að miðla málum í deilum Muammars Gaddafis og uppreisnarmanna í Líbíu virtist ekki líkleg til að bera árangur í gær.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Tilraun Afríkusambandsins til að miðla málum í deilum Muammars Gaddafis og uppreisnarmanna í Líbíu virtist ekki líkleg til að bera árangur í gær. Fulltrúar sambandsins undir forystu Jacobs Zuma, forseta Suður-Afríku, hittu Gaddafi í Tripoli á sunnudag og sögðu hann hafa tekið vel í vopnahléstillögur. En hljóðið var verra í uppreisnarmönnum eftir að Zuma hafði hitt þá í Benghazi.

Gaddafi hefur árum saman lagt áherslu á samskipti við Afríkuríki sunnan Sahara. Zuma hvatti til þess að loftárásum yrði hætt, Gaddafi hefði samþykkt „vegvísi“ að vopnahléi. En talsmenn stjórnar uppreisnarmanna segja að þeir muni ekki hvika frá kröfunni um að Gaddafi hverfi frá völdum. „Um mál Gaddafis og sona hans verður ekki samið,“ sagði Ahmed al-Adbor, fulltrúi í stjórninni. Við hótel sendinefndarinnar í Benghazi voru um þúsund manns, sumir sögðust ekki hafa trú á milligöngumönnum sem predikuðu lýðræði fyrir Líbíu en styddu það ekki á heimaslóðum.

Áfram harðir bardagar
» William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, tók í gær undir með uppreisnarmönnum, Gaddafi yrði að víkja. Einnig yrði hann að draga heri sína frá borgum uppreisnarmanna.
» Talsmenn Atlantshafsbandalagsins, NATO, sögðu herlið Gaddafis hafa haldið uppi hörðum árásum á Misrata í gær þrátt fyrir vopnahléstalið.