Þórhallur Einarsson fæddist 30. júlí 1930 á Djúpalæk. Hann lést 2. apríl 2011 á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Foreldrar Þórhalls voru Einar V. Eiríksson, f. 1871, d. 1937 og seinni kona hans Gunnþórunn Jónasdóttir, f. 1895, d. 1965, hjón á Djúpalæk. Fyrri kona Einars var Sigurlaug Alexandersdóttir, börn þeirra voru 8, þau eru öll látin. Alsystkini Þórhalls eru: Hilmar Sigþór, Kristján frá Djúpalæk og Eiríkur, sem allir eru látnir, en eftirlifandi eru systurnar Aðalheiður og Bergljót.

Þórhallur kvæntist árið 1953 Þóru Þorsteinsdóttur, f. 20. ágúst 1930. Þau skildu. Börn þeirra: 1. Þórdís Guðrún, f. 5. ágúst 1950. Eiginmaður hennar er Flosi Kristinsson og dætur þeirra eru a) Ásta F. Flosadóttir, f. 28. janúar 1975, gift Þorkeli M. Pálssyni. Börn þeirra eru Sigrún Þóra og Sigurður Einar. b) Inga Hrönn Flosadóttir, f. 2. október 1976, dóttir hennar er Guðrún Birna. 2. Þorsteinn, f. 21. apríl 1955, d. 20. janúar 1991. Kona hans var Sigurlaug Sigurðardóttir og börn þeirra eru a) Sigurður Baldur Þorsteinsson, f. 28. apríl 1978, kona hans er Guðbjörg Heiða Jónsdóttir og þeirra dóttir er Sigurlaug Birna. b) Þóra G. Þorsteinsdóttir, f. 7. mars 1981, gift Jóni Þór Jónssyni. Synir þeirra eru Þorsteinn Ari og Birkir Orri. Seinni maður Sigurlaugar er Ari Laxdal og dóttir þeirra er Auður Snjólaug, f. 26. maí 1997. 3. Þrúður, f. 9. september 1957, d. 26. júní 2010. Eiginmaður Þrúðar var Sigurður Reynir Magnússon, þau skildu. Börn þeirra eru: a) Eva Sædís Sigurðardóttir, f. 29. október 1976, gift Snorra Marteinssyni. Synir þeirra eru Júlíus Patrik og Hilmir Örn. b) Davíð Sindri Sigurðarson, f. 12. ágúst 1979 og c) Magnús Þór Sigurðarson, f. 4. febrúar 1989. Kona Þórhalls er Jónína Þorsteinsdóttir (Ninna), f. 14. ágúst 1932. Dóttir hennar er Arna H. Jónsdóttir, f. 10. september 1953. Hennar maður er Guðmundur Vignir Óskarsson. Synir Örnu eru a) Hrafn Kristjánsson, f. 30. október 1972, kona hans er Maríanna Hansen. Synir þeirra eru Mikael Máni, Alexander Jan og Kristján Breki. b) Vignir Örn Guðmundsson, f. 13. nóvember 1989, kærasta hans er Sólveig Sif Guðmundsdóttir. Þórhallur missti föður sinn ungur og ólst upp á Djúpalæk í skjóli Steinþórs hálfbróður síns og Guðnýjar eiginkonu hans. Hann var einn vetur í Laugaskóla en lengri varð skólagangan ekki. Eftir það fluttist hann til Akureyrar og var svo á vertíð í Vestmannaeyjum. Fjölskyldan bjó fyrir sunnan á árunum 1954 til 1962 og þá vann Þórhallur lengst við vörubílaakstur hjá Hraðfrystistöðinni. Eftir það átti Þórhallur heimili á Akureyri og lengst í Helgamagrastræti 36. Þórhallur gerði út eigin vörubíl og stofnaði bílasölu Norðurlands sem hann rak í mörg ár. Þau Ninna ráku saman tjaldvagnaleigu Akureyrar í skamman tíma. Þórhallur hætti vinnu af heilsufarsástæðum, en var sífellt að brasa við bíla. Hann var einn af stofnendum „Flakkara – félags húsbílaeigenda“ og var ötull liðsmaður í þeim félagsskap.

Þórhallur verður jarðsunginn frá Akureyrarkirkju þriðjudaginn 12. apríl 2011 og hefst athöfnin kl. 13.30.

Ég ætla að minnast pabba míns með örfáum kveðjuorðum. Fyrir réttum 9 mánuðum sat ég og skrifaði minningargrein um mína ástkæru systur, Þrúði, sem lést 52 ára eftir stutt og erfið veikindi. Það var mjög erfiður tími fyrir okkar litlu fjölskyldu og tók pabbi það nærri sér, enda var hann að missa annað barnið sitt, Þorsteinn lést af slysförum í janúar 1991, aðeins 35 ára gamall. Björgunarsveitin Ægir á Grenivík leitaði lengi að Steina bróður eftir slysið en án árangurs, studdi pabbi vel við bakið á þeim eftir það og mat þeirra störf mikils.

Þessi áföll átti pabbi mjög erfitt með að sætta sig við. Hann var tilfinningavera, þó oft á yfirborðinu hrjúfur, en raungóður og góður vinur vina sinna. Hann var hrókur alls fagnaðar í góðra vina hópi og áttu þau Ninna góðar stundir með samferðamönnum sínum. Á Djúpalæk átti pabbi sínar bestu stundir, þar sleit hann barnsskónum við ysta haf. Þar voru haldin nokkur ættarmót og þar hélt hann upp á 60 ára afmælið sitt með mikilli veislu. Þau Ninna voru höfðingjar heim að sækja og í þau tvö skipti sem ég dvaldi hjá þeim eftir sjúkrahúslegur þá snerust þau í kringum mig alveg endalaust. Við pabbi fengum okkur t.d. alltaf „nábít“ á kvöldin, það var ristað brauð og kakó og stundum rjómi út í.

Ég fékk aldrei fullþakkað honum þegar þau Ninna tóku að sér að sitja yfir Ingu minni á gjörgæsludeild Borgarspítalans eftir alvarlegt bílslys árið 2000. Það var ómetanlegt fyrir fjölskylduna og pabbi varð manna glaðastur þegar Inga vaknaði loksins til lífsins og þekkti þau bæði. Þeirra verður sárt saknað á réttardögum í Höfðahverfi, þar var opið hús í bílnum með alls kyns góðgæti fyrir unga sem aldna. Einnig voru þau fastir gestir á bryggjunni á sjómannadaginn á Grenivík, þegar messað var og minnst látinna sjómanna í kirkjugarðinum.

Pabbi átti við mikið heilsuleysi að stríða síðustu árin en gat verið heima hjá sér þar til fyrir hálfum mánuði að hann var fluttur á sjúkrahúsið á Akureyri fárveikur. Þar vakti Ninna yfir honum og ég var svo lánsöm að fá að vera hjá honum síðustu nóttina og halda í höndina á honum þegar hann kvaddi. Það er mér ómetanlegt. Nú er stríðinu hans pabba lokið og var það langt og strangt.

Við fjölskyldan viljum þakka sérstaklega Bryndísi og öðrum góðum konum sem önnuðust hann heima á yndislegan hátt, þeirra starf er frábært, unnið af kærleika og hlýju. Einnig viljum við þakka starfsfólki H-deildar á sjúkrahúsinu á Akureyri sem gerði sitt besta svo honum gæti liðið eins vel og hægt var. Ég vil líka þakka Ninnu sérstaklega fyrir alla þá umhyggju og þolinmæði sem hún sýndi pabba á erfiðum tímum.

Að lokum vil ég biðja að fjölskyldunni auðnist styrkur til að vinna úr undangengnum áföllum og að okkur takist að standa þétt saman. Ég kveð pabba með hluta úr ljóði eftir Kristján frá Djúpalæk.

Og tregið ei né tárist

því sorgir sefa kann

og söknuð hann, er vakir þjóðum yfir.

Ó, líknið þeim sem líða

en harmið ekki hann

sem horfinn er á brautu því hann lifir.

Þórdís G. Þórhallsdóttir.

Ég kynntist Þórhalli ung að árum þegar hann var enn kvæntur Þóru móðursystur minni. Þau bjuggu þá á Akureyri ásamt börnum sínum, Dísu, Steina og Þrúði, við móðir mín bjuggum í Helgamagrastrætinu hjá afa og ömmu og það var mikill samgangur á milli fjölskyldnanna. Þegar Þórhallur og móðir mín hófu sambúð var ég löngu flutt til Reykjavíkur og búin að stofna mína eigin fjölskyldu. Við þessa breytingu endurnýjuðust kynnin, samskiptamynstrið breyttist og smám saman fór ég að kalla hann stjúpa minn, sem ég held að honum hafi líkað nokkuð vel.

Þórhallur stjúpi minn var um margt sérstakur maður. Hann gat verið töluvert plássfrekur og með sterkar skoðanir þegar hann var í hópi fjölskyldu og vina og á stundum fannst mér ástæða til að svara honum fullum hálsi. Á hinn bóginn var hann vinur vina sinna, oft laginn við að virkja fólk til verka, hugsaði mjög vel um umhverfi sitt og var einstaklega hjartahlýr. Hann var fjölskyldu minni góður, drengjum mínum afi og barnabörnunum langafi. Hann var í senn óheflaður alþýðumaður vanur erfiðisvinnu og heimspekilega sinnaður gáfumaður sem gat sett fram góða og kjarnyrta vísu á augabragði.

Við Guðmundur Vignir og Vignir Örn sonur okkar urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að ferðast með mömmu og Þórhalli bæði innanlands og utan. Hvergi held ég að þeim hafi liðið betur en í ferðabílnum, hún dundandi sér við matinn, lesandi ferðahandbókina og hann sitjandi í bílstjórasætinu, með skoðanir á mönnum og málefnum, dyttandi að, við undirleik eða fréttir úr útvarpinu. Þannig ferðuðumst við með þeim um Vestfirðina sumarið 1995 og hann fræddi okkur um alla staðhætti og mannlífið í fortíð og nútíð. Ógleymanleg er einnig ferðin til Danmerkur árið 2000 þar sem við gistum í kojum á farfuglaheimili þar sem Þórhallur var rændur og við ferðuðumst um alla Kaupmannahöfn í strætisvögnum, þrátt fyrir að sumir væru þreyttir á öllu plampinu þegar leið á daginn.

Sextugsafmæli Þórhalls á Djúpalæk, þar sem Steini heitinn og fleira fólk söng í tjaldi fram undir morgun, afmæli Þrúðar heitinnar í Sönderborg og ferðirnar til Dísu og Flosa í Höfða, allt eru þetta kærar minningar tengdar Þórhalli og stórfjölskyldunni. Þórhalli fannst ég vinna mikið og skildi ekki í því hvernig ég gæti setið við tölvuna langtímum saman. Hann var einnig viss um að ef ég lyki einhvern tímann doktorsritgerðinni þá myndi ég strax finna mér annað krefjandi verkefni til að fást við. Það var því kærkomið að alltaf var tekið hjartanlega á móti okkur, vinnulúnu og stressuðu hjónunum úr Reykjavík, þegar við heimsóttum móður mína og Þórhall í Helgamagrastrætið, og við töluðum um það sem sanna hressingarheimilisdvöl.

Nú er stjúpi minn farinn og missir fjölskyldunnar, ekki síst móður minnar, er mikill. En hver minning er dýrmæt perla og ég vona að þú, mamma mín, njótir minninganna um allt það góða sem þið áttuð saman.

Arna Hólmfríður Jónsdóttir.

Elsku afi minn. Nú þegar þú ert farinn minnist ég þín með mikilli hlýju. Okkar fyrstu kynni hófust fyrir alvöru þegar þú gekkst með mig sem ungbarn um gólf heila nótt vegna eyrnabólgu. Áður hafði ég verið hrædd við þig en þú varst með gleraugu og skegg. Upp frá þessari nótt varð ég mikil afastelpa.

Þú sýndir mér ávallt mikla hlýju og væntumþykju, traust og stuðning. Betri afa var ekki hægt að hugsa sér.

Ég bið þess að þér líði vel í nýju lífi og lítir til okkar annað slagið. Ég sakna þín.

Þín

Eva Sædís.

Okkur bræðurna langar að minnast elsku afa með þessum orðum:

Í bljúgri bæn og þökk til þín,

sem þekkir mig og verkin mín.

Ég leita þín, Guð, leiddu mig,

og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,

sú rétta virðist aldrei greið.

Ég geri margt sem miður fer,

og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,

ég betur kunni þjóna þér.

Því veit mér feta veginn þinn

og verðir þú æ Drottinn minn.

(Pétur Þórarinsson.)

Takk fyrir allt, elsku afi, þín verður sárt saknað.

Þorsteinn Ari og Birkir Orri.

Við viljum minnast okkar elskulega afa og langafa, með þessu litla ljóði eftir Hákon Aðalsteinsson.

Stundin líður, tíminn tekur,

toll af öllu hér,

sviplegt brotthvarf söknuð vekur

sorg í hjarta mér.

Þó veitir yl í veröld kaldri

vermir ætíð mig,

að hafa þó á unga aldri

eignast vin sem þig.

Þú varst ljós á villuvegi,

viti á minni leið,

þú varst skin á dökkum degi,

dagleið þín var greið.

Þú barst tryggð í traustri hendi,

tárin straukst af kinn.

Þér ég mínar þakkir sendi,

þú varst afi minn.

Ásta, Inga Hrönn, Sigrún Þóra, Guðrún Birna og Sigurður Einar.

Elskulegur afi minn er látinn. Afi var góður maður sem ég leit mikið upp til. Við vorum góðir vinir og oft á tíðum var hann mér meira sem faðir heldur en afi. Þegar faðir minn lést þegar ég var tæplega 10 ára gömul flutti afi inn á heimilið og var okkur mömmu og Sigga bróður mikil stoð og stytta á erfiðum tíma.

Þessi tími tók mikinn toll af afa þar sem þarna missti hann ekki aðeins sinn einkason heldur sinn besta vin og félaga líka. Hann talaði alltaf um mig sem litlu afastelpuna sína sem passaði svo vel við það hvernig okkar samband var, einlægt og ástríkt.

Húsbíllinn var stór partur af lífi afa og Ninnu og voru það ófá sumrin sem þau ferðuðust um í honum og fékk ég stundum að fljóta með. Þegar kom að því að litla afastelpan fengi bílpróf þá varð nú afi að fá einhverju ráðið um hvers konar bíl ég myndi kaupa. Ég mátti ekki kaupa þennan bíl því hann var ómögulegur, ekki hinn bílinn þar sem ekki var hægt að selja hann aftur og alls ekki þennan þarna því hann var ekki nógu traustur! Já, afi hafði sterkar skoðanir á ýmsum hlutum.

Þegar frumburður minn hann Þorsteinn Ari fæddist var afi fyrstur manna á sjúkrahúsið. Litli guttinn eyddi fyrstu sólarhringunum á vökudeildinni og voru allar heimsóknir bannaðar. Afi lét það nú ekki stoppa sig og blikkaði aðeins hjúkkurnar og fékk að sjá litla drenginn. Afi var nefnilega ekki að láta smá hindranir standa í vegi fyrir sér. Stoltið leyndi sér ekki þennan dag og þegar hann svo fékk að halda á drengnum í fyrsta skipti þá gat hann ekki litið af barninu. Þarna var Þorsteinn litli fæddur, nefndur eftir afa sínum heitnum. Þeir félagarnir Þorsteinn Ari og afi áttu góðar stundir saman og voru miklir félagar, söknuður hans er mikill. Læt fylgja með vísuna sem afi gaf Þorsteini Ara þegar hann var skírður og segir hún meira en mörg orð um hversu ánægður afi var með nafnið sem drengnum var gefið.

Að verði líf hans bjart og blítt.

Um brautir gæfu hann megi fara.

Af alúð geymi afanafnið sitt,

um þetta bið ég fyrir Þorstein Ara.

(Þ.E.)

Ninna var kletturinn hans afa, frá því að þau tóku saman hafa þau gengið í gegnum ýmislegt og á Ninna heiður skilið fyrir það og sérstaklega síðustu ár eftir að afi veiktist hefur Ninna staðið sig eins og hetja!

Nú kveð ég elsku afa minn með tárum og hugga mig við það að nú er hann laus við veikindin og líður vel. Einnig veit ég það að hann hefur fengið góðar viðtökur þarna hinum megin þegar börnin hans Steini og Þrúður tóku hann í sinn faðm. Ég ætla að enda á hluta úr ljóði eftir bróður hans afa Kristján frá Djúpalæk sem hann samdi þegar faðir minn lést.

Hvað gagnar að gráta og sakna?

Oss goð hafa örlög spunnið.

Óboðað kallið því kemur

að kerti vort út sé brunnið.

Tré brotnar í vetrarbyljum;

mörg blómin á vori deyja.

Guð, ljáðu syrgjendum sálarstyrk

löng sorgardægur að þreyja.

Minning um yndislegan afa mun lifa í hjarta mínu um ókomna tíð.

Þóra G. Þorsteinsdóttir.