Passar Meistari síðasta árs Phil Mickelson klæðir Charl Schwartzel í græna jakkann góða eins og hefðin segir til um á US Masters. Hann virtist passa ágætlega á Charl sem er þó frekar grannvaxinn, í það minnsta við hliðina á Mickelson.
Passar Meistari síðasta árs Phil Mickelson klæðir Charl Schwartzel í græna jakkann góða eins og hefðin segir til um á US Masters. Hann virtist passa ágætlega á Charl sem er þó frekar grannvaxinn, í það minnsta við hliðina á Mickelson. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Golf Ólafur Már Þórisson omt@mbl.is Charl Schwartzel er frá Suður-Afríku og er fæddur í Jóhannesarborg. Hann verður 27 ára 31. ágúst næstkomandi. Schwartzel gerði sér lítið fyrir á sunnudaginn og vann eitt stærsta golfmót sem haldið er, Masters.

Golf

Ólafur Már Þórisson

omt@mbl.is

Charl Schwartzel er frá Suður-Afríku og er fæddur í Jóhannesarborg. Hann verður 27 ára 31. ágúst næstkomandi. Schwartzel gerði sér lítið fyrir á sunnudaginn og vann eitt stærsta golfmót sem haldið er, Masters. Þetta var fyrsta risamótið sem þessi ungi kylfingur vinnur en áður var hans besti árangur 14. sæti á Opna meistaramótinu árið 2010. Með sigrinum fylgja ekki bara peningar og grænn jakki heldur einnig lífstíðar keppnisréttur á mótinu. Auk þess fimm ára keppnisréttur á hinum þremur risamótunum. Árangurinn er enn athyglisverðari í ljósi þess að þetta var aðeins í annað skiptið sem hann tekur þátt á Masters. Í fyrra endaði hann í þrítugasta sæti.

Charl Schwartzel var viss um að ef hann ynni stórmót þá yrði það einmitt þar sem barist yrði um græna jakkann. Hann bjóst þó eflaust ekki við því að það myndi gerast strax. „Ég hélt alltaf að ef ég ynni eitthvert mót, þá yrði það þetta. Þetta er völlur eins og ég ólst upp við, umlukinn trjám. Mér líður mjög vel í því umhverfi,“ sagði Schwartzel eftir mótið.

Atvinnukylfingur aðeins átján ára

Hver er þó þessi ungi kylfingur sem stal senunni af öðrum ungum kylfingi, Rory McIlroy, á síðasta degi Masters? Jú, hann er annar yngsti kylfingurinn frá Suður-Afríku til að fá keppnisrétt á Evrópumótaröðinni, aðeins 18 ára. Síðan hann byrjaði að keppa sem atvinnumaður hefur hann unnið 7 mót á Evrópumótaröðinni, það fyrsta árið 2004 á Dunhill-meistaramótinu. Með sigrinum á sunnudaginn færðist hann upp um 29 sæti á heimslistanum og er nú ellefti. Hann hefur ferðast hátt síðan um áramót þegar hann var í 34. sætinu. Þá er hann besti kylfingur Suður-Afríku um þessar mundir ef miðað er við heimslistann.

Kláraði eins og sannur meistari

Schwartzel hefur fengið fjölmargar kveðjur og heillaóskir frá aðdáendum og öðrum kylfingum. Nú er samskiptaforritið Twitter mikið notað í þeim tilgangi og það hafa tveir fyrrum suðurafrískir sigurvegarar á Masters notað. Gary Player sem varð fyrsti kylfingurinn utan Bandaríkjanna til að klæðast græna jakkanum nákvæmlega 50 árum áður skrifaði: „Ég er algjörlega himinlifandi fyrir hönd Charl og Suður-Afríku. Svona klárar þú mót eins og sannur meistari.“ Trevor Immelmann sem vann mótið árið 2008 skrifaði: Mjög ánægður fyrir hönd Charl. Það verður gott að hafa suðurafrískan mat í „meistaramatnum“ á næsta ári,“ og átti þar við að sá sem vinnur Masters fær að velja matseðilinn fyrir kvöldverð meistaranna á Masters ári síðar.

Charl vann sér inn tæpa eina og hálfa milljón bandaríkjadala eða sem samsvarar um 162 milljónum íslenskra króna fyrir sigurinn sem ætti að koma honum og konu hans Rosalind vel.

Charl Schwartzel
» Heitir fullu nafni, Charl Adriaan James Lindsay Schwartzel, 1,79 m á hæð og 64 kg.
» Fæddur í Jóhannesarborg 31. ágúst árið 1984, þar sem hann er uppalinn og býr enn.
» Þriðji kylfingurinn frá Suður-Afríku til að vinna Masters.
» Vann sér inn 1,4 milljónir bandaríkjadala á Masters, 2,7 milljónir alls á Evrópumótaröðinni.