Wayne Rooney
Wayne Rooney
Það verður mikið undir á Old Trafford í Manchester í kvöld þegar Manchester United og Englandsmeistarar Chelsea leiða saman hesta sína í síðari viðureign liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Það verður mikið undir á Old Trafford í Manchester í kvöld þegar Manchester United og Englandsmeistarar Chelsea leiða saman hesta sína í síðari viðureign liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. United stendur vel að vígi eftir 1:0-sigur á Stamford Bridge í síðustu viku en lærisveinar Carlos Ancelottis hafa engan veginn játað sig sigraða og þeir líta á Meistaradeildina sem síðasta hálmstráið til að bjarga tímabilinu enda eru möguleikar liðsins á að verja Englandsmeistaratitilinn orðnir afar veikir.

Manchester United hefur ekki tapað leik á þessari leiktíð á Old Trafford, hvorki í deildinni, bikarnum né Meistaradeildinni, og sú staðreynd blasir við Chelsea að United hefur aldrei verið slegið út í Evrópukeppni eftir að hafa haft betur í fyrri rimmunni. Chelsea bar sigurorð af Manchester United, 2:1, þegar liðin áttust við á Old Trafford í deildinni á síðustu leiktíð og takist Chelsea að endurtaka þann leik fer liðið áfram í undanúrslitin og etur þar kappi nær örugglega við þýska liðið Schalke.

Allt opið í einvíginu

„Það er allt opið í þessu einvígi þrátt fyrir að við höfum unnið á Stamford Bridge. Við berum virðingu fyrir liði Chelsea. Við munum að við töpuðum á heimavelli fyrir Chelsea á síðasta tímabili og með sömu úrslitum þá værum við úr leik,“ sagði Michael Carrick, miðjumaðurinn sterki hjá United, við fréttamenn í gær. Carrick telur að Wayne Rooney geti reynst liði United mikilvægur í leiknum en Rooney skoraði sigurmarkið á Brúnni. „Rooney er byrjaður að skora mikilvæg mörk fyrir okkur og þegar að svona stórleikjum kemur nær hann oftar en ekki að sýna sinn besta leik. Vonandi verður hann í stuði,“ sagði Carrick en Rooney mætir vel úthvíldur þar sem hann var í banni í leiknum gegn Fulham.

Mikilvægt að hafa trúna

„Það er mikilvægt að menn trúi því að þeir geti farið með sigur af hólmi. Við vitum vel að við þurfum að ná toppleik. United er með forskot og ég býst við því að það leggi leikinn þannig upp að spila sterkan varnarleik og beita skyndisóknum. Það verður ekki auðvelt að koma marki á þá en við höfum til þess 90 mínútur,“ sagði Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Chelsea. gummih@mbl.is