Stefan Füle
Stefan Füle
Guðmundur Sv.

Guðmundur Sv. Hermannsson

og Baldur Arnarson

Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, og Michel Barnier, sem fer með málefni innri markaðar í framkvæmdastjórn ESB, segja í sameiginlegri yfirlýsingu að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar á laugardag hafi engin áhrif á aðildarviðræður Íslands við sambandið.

Styðja viðræðurnar heilshugar

Í yfirlýsingunni taka þeir Füle og Barnier fram að framkvæmdastjórn ESB styðji viðræðurnar við Ísland af heilum hug. Jafnframt leggja þeir áherslu á að framkvæmdastjórnin fylgist náið með þróun mála.

Á vefnum europolitics.info er haft eftir talskonu Füles að Ísland verði að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum til að fá aðild að Evrópusambandinu. Hins vegar sé litið á Icesave-málið sem tvíhliða mál milli Íslands annars vegar og Bretlands og Hollands hins vegar.

Aðeins þarf eitt ríki til að stöðva aðild annars ríkis að ESB og hafa bæði ráðgjafi forsætisráðherra Hollands í Icesave-deilunni og talsmaður Frelsisflokksins, sem á aðild að hollensku stjórninni, lagt til að Hollandsstjórn leggi stein í götu aðildarumsóknar Íslands.

Titringur í Brussel

Inntur eftir því hvort Icesave-deilan sé talin hafa haft áhrif á aðildarumsókn Íslands hefur Leigh Phillips, blaðamaður hjá ESB-vefnum EU Observer , eftir heimildarmönnum sínum í Brussel að þar á bæ sé litið svo á að útkoma Icesave-kosninganna tvennra geti haft óæskileg áhrif í þeim ríkjum evrusvæðisins sem glíma við skuldakreppu.

„Deilan þykir skapa það hættulega fordæmi að almenningur geti komist hjá skuldum,“ segir hann.