Baldur Arnarson baldura@mbl.is Embættismenn í Brussel hafa áhyggjur af því að útkoma þjóðaratkvæðagreiðslnanna tveggja í Icesave-deilunni skapi það sem þeir telja slæmt fordæmi í Evrópu.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Embættismenn í Brussel hafa áhyggjur af því að útkoma þjóðaratkvæðagreiðslnanna tveggja í Icesave-deilunni skapi það sem þeir telja slæmt fordæmi í Evrópu. Er þá horft til baráttu almennings á Írlandi, í Portúgal og Grikklandi gegn því að lífskjör verði rýrð vegna skuldakreppu ríkjanna.

Þetta fullyrðir Leigh Phillips, blaðamaður hjá EU Observer í Brussel, en hann ræðir reglulega við embættismenn hjá Evrópusambandinu um aðildarumsókn Íslands.

Beiti sér innan AGS og ESB

„Deilan þykir skapa það hættulega fordæmi að almenningur geti komist hjá skuldum,“ segir Phillips.

Haft var eftir ráðgjafa forsætisráðherra Hollands í Icesave-deilunni í Morgunblaðinu í gær að hollenska stjórnin myndi ekki samþykkja ESB-aðild Íslands nema orðið yrði við Icesave-kröfunum. Tony van Dijck, talsmaður Frelsisflokksins í Hollandi, tekur undir þetta og segir að hollenska stjórnin eigi að beita áhrifum sínum innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ESB til að þrýsta á greiðslur frá Íslandi. Líkti hann Íslandi við „reyttan kjúkling“. Talsmenn ESB vísuðu því á bug í gær að Icesave-deilan hefði áhrif á aðildarumsókn Íslands.

Lánshæfismatið
» Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir næstu daga kunna að fela í sér tíðindi hvað snertir lánshæfismat Íslands.
» Áhrifamiklir fjölmiðlar hafa fjallað um Icesave-kosninguna og taka sumir málstað Íslands.