Eftirskjálfti er mældist 7,1 stig á Richter-kvarða skók Japan í gær og voru upptökin á landi að þessu sinni, á aðeins um 10 km dýpi og skammt frá Fukushima-Daiichi-kjarnorkuverinu.

Eftirskjálfti er mældist 7,1 stig á Richter-kvarða skók Japan í gær og voru upptökin á landi að þessu sinni, á aðeins um 10 km dýpi og skammt frá Fukushima-Daiichi-kjarnorkuverinu. Rafmagn fór af í nokkrar stundir og á meðan gátu starfsmenn orkufyrirtækisins, TEPC, ekki dælt vatni til að kæla kjarnakljúfa til að koma í veg fyrir að þeir ofhitni og bráðni.

Þess var minnst um allt Japan í gær að réttur mánuður var liðinn frá því að hamfarirnar miklu, geysimikill skjálfti upp á 9 stig og flóðbylgja í kjölfarið, riðu yfir landið. „Jafnvel núna, mánuði seinna fer ég alltaf að gráta þegar ég sé fréttirnar,“ sagði Marina Seito, ungur stúdent.

Naoto Kan forsætisráðherra þakkaði þjóðum heims fyrir að styðja Japana á erfiðum tímum. Nær 13.000 lík hafa fundist og um 15.000 er enn saknað, einnig varð gríðarlegt eignatjón. Óbeint tjón vegna innflutningsbanns sem sum lönd hafa sett á japanskar vörur er einnig mikið. kjon@mbl.is