Þjóðaratkvæðagreiðslan Forseti Íslands greiðir atkvæði á laugardag.
Þjóðaratkvæðagreiðslan Forseti Íslands greiðir atkvæði á laugardag. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði í viðtali við sjónvarp Bloomberg-fréttastofunnar í gær, að hann hefði ekki sérlegar áhyggjur af yfirlýsingum matsfyrirtækisins Moody's um að lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins kynni að lækka niður í...

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði í viðtali við sjónvarp Bloomberg-fréttastofunnar í gær, að hann hefði ekki sérlegar áhyggjur af yfirlýsingum matsfyrirtækisins Moody's um að lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins kynni að lækka niður í ruslflokk ef Íslendingar höfnuðu Icesave-lögunum.

„Frammistaða Moody's við að meta lánshæfi Íslands er ömurleg því þegar íslensku bankarnir áttu í erfiðleikum gaf Moody's þeim AAA-einkunn,“ sagði Ólafur Ragnar. „Ég held að Moody's ætti frekar að taka tillit til þess, að erlend stórfyrirtæki á borð við Rio Tinto og Alcoa vilji fjárfesta á Íslandi. Raunar hefur Rio Tinto nýlega tilkynnt, að fyrirtækið ætli að fjárfesta fimm milljarða dala í endurnýjun á álveri á Íslandi og fjárfestar frá Evrópu og Bandaríkjunum urðu í síðustu viku stórir hluthafar í stærsta skipafélaginu á Íslandi og íslenskum banka. Alþjóðlegir fjárfestar og fyrirtæki eru því að fjárfesta á Íslandi og Moody's ætti að taka tillit til þess.“

Fimm ára skuldatryggingaálag íslenska ríkisins hreyfðist lítt þegar markaðir voru opnaðir í gærmorgun. Álagið stóð í 233 punktum rétt fyrir hádegi. Til samanburðar stóð skuldatryggingaálag gríska ríkisins í 996 punktum, Portúgals í 539 punktum og Írlands í 510 punktum.