Simonyan „... margt skemmtilegt í pokahorni er bar vott um sjálfstæðari túlkun en viðgengst hjá eldri sólistum.“
Simonyan „... margt skemmtilegt í pokahorni er bar vott um sjálfstæðari túlkun en viðgengst hjá eldri sólistum.“ — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tsjajkovskíj: Capriccio italien, Fiðlukonsert og Sinfónía nr. 5. Mikhail Simonyan fiðla og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stjórnandi: Christian Lindberg. Fimmtudaginn 7. apríl kl. 19:30.

Nánast fullfermi var á næstsíðustu sinfóníutónleikunum í fimmtugu Háskólabíói á fimmtudag. Hvað svo sem það þýðir í raun – því auk kreppu rugla margar breytur tölfræðina.

Í fyrsta lagi hefur landsmönnum fjölgað um hátt í helming síðan 1961, og ætti hlutfallsleg aðsókn að 90% fleiri sætum Eldborgarsalar í Hörpu af þeirri ástæðu einni því eftir að reynast engu minni, jafnvel þótt klassíkáhugi kunni að hafa minnkað frá því sem áður var. Aftur á móti er fyrirsjáanlegt að aukin forvitni hlustenda með tilkomu nýrri og glæsilegri salarkynna muni framan af birtast í drjúgri viðbótaraðsókn – líkt og þegar óperuáhugi Dana tók 40% kipp upp á við fyrstu misserin eftir vígslu nýja söngleikhússins í Kristjánshöfn.

Það verður því varla hægt að bera saman aðsóknartölur fyrir og eftir vistaskipti SÍ fyrr en að nokkrum árum liðnum. En auðvitað vonum við öll að aðalbreytan – verðandi hljómburður á heimsmælikvarða – skipti mestu, þó svo að þáttur erlendra gesta gæti líka orðið meiri en áður þekktist.

Að því töldu má sjá hvað vangaveltur um vinsældir Tjajkovskíjs, mældar í beinharðri miðasölu, eru um sinn ómarktækar – jafnvel þótt melódísk ægifegurð verka hans hafi borið af flestu í tónleikasölum hins vestræna heims allt frá ofanverðri 19. öld, eins og ugglaust kæmi skýrt fram af „Topp tíu“-hlustendakönnun í dag.

Hvað sem því líður fór ekki framhjá neinum að hlustendur síðasta fimmtudagskvölds kunnu gott að meta eftir rífandi góðu undirtektunum að dæma. Ekki sízt í jafnágætum flutningi og hér gat að heyra, enda lék sveitin flest af fagmannlegum eldmóði undir stjórn sænska básúnistans Christians Lindbergs, er kom mér raunar oft í óvæntan stanz miðað við fyrstu fordóma um snaggaralegan vélhjólatöffara með einleiksfortíð úr einkum framsæknum nútímaverkum. Því þótt glampasnarpan blástur SÍ-látúnsliða hafi kannski borið einna hæst fékk Lindberg líka ótrúlega mikið út úr tré- og strengjaleik bandsins af gestastjórnanda að vera, þökk sé m.a. fágaðri dýnamík, markvissum rúbatóum og almennt bullandi innlifun, er gerðu þessi rúmlega 130 ára gömlu tónverk jafnt bráðspræk sem unaðslega söngvæn fyrir hugskotseyrum.

Einleikari kvöldsins var hinn aðeins hálfþrítugi bandaríski Rússi Mikhail Simonyan. Nálgun hans að heimsfrægum fiðlukonsertinum frá 1878 var víða furðufíngerð – jafnvel svo minnti á köflum á ofurnýtingu Isabelle Faust á veikustu mögulegu styrkleikagráðum. Þótt ekki væri inntónun fiðlarans alltaf óaðfinnanleg í hæðinni átti Simonyan á móti margt skemmtilegt í pokahorni er bar vott um sjálfstæðari túlkun en viðgengst hjá eldri sólistum. Kom þannig á óvart hvað hann virtist hafa frjálslega, stundum jafnvel lágstemmt kímna, afstöðu til hins dáða meistaraverks án þess samt að brengla boðskapnum.

Kyrrlátt aukalag hans, Armensk bæn , kom enn meir á óvart fyrir einlæga túlkun á flugeldasneyddu austrænu sönglagi á íhugulum vængjum mannlegrar tilhöfðunar er lét engan ósnortinn.

Ríkarður Ö. Pálsson