Baldur Arnarson baldura@mbl.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Ísland verður að borga féð til baka með hraði og þangað til verður engin aðstoð af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og engar samningaviðræður um aðild að Evrópusambandinu,“ segir Tony van Dijck, helsti talsmaður Frelsisflokksins (PVV) í Hollandi í fjármálum, um sýn flokksins á næstu skref í Icesave-deilunni.

Frelsisflokkurinn styður hollensku stjórnina en formaður flokksins, Geert Wilders, er einn umdeildasti stjórnmálamaður Evrópu vegna afstöðu sinnar til íslamstrúar.

Van Dijck segir De Jager, fjármálaráðherra Hollands, hafa brennt sig á samningum við Ísland. „Þetta verður ráðherranum lexía um að lána ekki gjaldþrota þjóðum fé, vegna þess að maður sér það ekki aftur. Það er erfitt að reyta reyttan kjúkling. Það sem við höfum horft upp á á Íslandi mun væntanlega senn gerast í Grikklandi, á Írlandi og í Portúgal.“

Íslendingum ekki treystandi

Spurður um afstöðu hollenskra stjórnmálamanna til útkomu kosninganna á laugardag segir Maarten van Wijk, blaðamaður hjá Algemeen Dagblad , að samstaða sé um að vísa málinu til dómstóla. Þá sé Icesave-deilan talin vitna um ekki sé hægt að gera samninga við Íslendinga.

Í tillkynningu íslenskra stjórnvalda til hollenskra fjölmiðla á sunnudag segir að kosningarnar hafi ekki áhrif á greiðslur úr þrotabúi Landsbankans. Stóð almannatengslafyrirtækið Huijskens Communications að tilkynningunni en það hefur átt í samstarfi við hollenska bankann DSB, sem hrundi.

Elly Blanksma, þingmaður Kristilegra demókrata, gaf kost á viðtali í gær. „Það er skoðun flokksins að greiða verði skuldina. Ef ekki munum við sjást í réttarsal,“ sagði hún.