Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
Frá Gunnari Hólmsteini Ársælssyni: "Tungumál eru frábær. Þau greina okkur mennina frá dýrunum. Mannskepnan notar fjölskrúðugt safn tungumála, með tungumálum gerum við okkur skiljanleg og getum tjáð okkur með virkum hætti. Hver ný kynslóð lærir tungumálið og notkun þess af þeim eldri."

Tungumál eru frábær. Þau greina okkur mennina frá dýrunum. Mannskepnan notar fjölskrúðugt safn tungumála, með tungumálum gerum við okkur skiljanleg og getum tjáð okkur með virkum hætti. Hver ný kynslóð lærir tungumálið og notkun þess af þeim eldri. Við Íslendingar montum okkur af fallegu tungumáli á hátíðarstundum.

En tungumálið má líka nota til þess að kasta rýrð á náungann. Það er einmitt mjög mikið gert um þessar mundir hér á landi. Sérstaklega í sambandi við eftirköst hrunsins, aðildarumsóknina að ESB og Icesave-málið, svo dæmi séu tekin.

Til dæmis er gjarnan talað um að þeir sem aðhyllist aðild Íslands að ESB séu landráðamenn, „kvislingar“ (svikarar) og eru þeir kallaðir öllum illum nöfnum af þeim sem ekki aðhyllast aðild. „Glæpurinn“ er að vilja stuðla að aukinni samvinnu og samskiptum Íslands við aðrar Evrópuþjóðir, innan ESB.

Í sambandi við Icesave hafa andstæðingar samningsins talað um „ælu-rök“ (þeirra sem segjast vilja samþykkja samninginn) og á bloggi hjá andstæðingi Icesave og starfsmanni Bændasamtakanna var fyrirsögnin „VG ætlar að kyngja ælunni.“ Orðljótleikinn ríður húsum hér á landi sem aldrei fyrr og þetta sést hvað best á blogginu og Facebook.

Í Morgunblaðinu keppast menn við að gera lítið úr menntun og í leiðaraskrifum og Staksteinum kemur oftar en ekki fyrir að orðið sérfræðingar er haft innan gæsalappa og orðfærið „svokallaðir sérfræðingar“ gjarnan notað. Sérstaklega er þetta áberandi ef viðkomandi hefur lært eitthvað um sögu Evrópu og þróun mála í þeim heimshluta. Það er alveg versta sort! Þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi þeirrar staðreyndar að ritstjórar Morgunblaðsins eru báðir háskólamenntaðir!

Aulafyndni er líka mikið notuð á þeim bænum og sífellt meira ber á því að aðsendar greinar hafi sama yfirbragð og skrif blaðsins. Þeir sem rita blaðið hafa fært það í ákveðinn farveg og þeir sem senda inn efni fara sumir hverjir í þennan farveg líka.

Til að skrifa ljót orð þarf að hugsa þau fyrst. Og það gera einstaklingar sem eru orðljótir. Þeir hljóta því að vera orðljótir í hugsun, að minnsta kosti. Meira verður ekki sagt um þeirra innri mann.

Ljótt orðfæri er illa fallið til uppbyggilegrar umræðu. Ísland þarf ekki meiri subbuskap, af honum er nú þegar nóg!

GUNNAR HÓLMSTEINN

ÁRSÆLSSON,

stjórnmálafræðingur og framhaldsskólakennari.

Frá Gunnari Hólmsteini Ársælssyni