Bogi Eymundsson fæddist á Akureyri 14. apríl 1963. Hann lést á Karolinska sjúkrahúsinu í Huddinge, Stokkhólmi, 30. mars 2011.

Foreldrar Boga eru Eymundur Lúthersson, f. 20 október 1932 og Margrét Á. Halldórsdóttir, f. 27. maí 1934. Systkini hans eru: Sigurjón Kristinn, f. 26. nóvember 1957, Katrín, f. 13. mars 1964, gift Hannesi Trausta Skírnissyni, f. 8. maí 1964, Eymundur, f. 6. ágúst 1967, Lára, f. 19. febrúar 1970, sambýlismaður Hörður Theódórsson, Eydís Elva, f. 22. febrúar 1976. Fyrrverandi eiginkona Boga var Rattana Hiranchot, saman áttu þau soninn Eymund Þór, f. 8. janúar 1996. Bogi ólst upp á Akureyri og bjó þar til ársins 2005, en þá fluttist hann til Reykjavíkur. Leið Boga lá snemma á sjóinn og stundaði hann sjómennskuna stóran hluta ævi sinnar. Hann lærði netagerð og starfaði sem slíkur um tíma, en sjórinn kallaði og þar leið honum best. Sjómennskuna stundaði hann mest fyrir Útgerðarfélag Akureyrar, Samherja og síðustu ár sótti hann sjóinn með góðum skipsfélögum á Hákoni EA sem gerður er út frá Gjögri á Grenivík.

Útför Boga fer fram frá Árbæjarkirkju í dag, 12. apríl 2011, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku besti bróðir, ég get ekki trúað því að þú sért farinn frá okkur. Það er svo erfitt að hugsa til þess að þú fáir ekki lengur að njóta lífsins með okkur, þú sem elskaðir lífið og kunnir svo sannarlega að meta og njóta þess sem það hafði upp á að bjóða. Þitt mottó var að lifa í núinu, stunda þín áhugamál, golfið, veiðar, gítarspil, göngur o.fl. og njóta þess að vera með syni þínum, Eymundi Þór, þegar færi gafst, og er þú varst fjarri honum þá heyrðust þið daglega. Já, hann var stolt þitt og yndi, þú naust þín í föðurhlutverkinu og settir Donna þinn ávallt í forgang. Það var einstaklega fallegt samband á milli ykkar, þú varst hans klettur, studdir hann og hvattir áfram í lífinu og hélst vel utan um hann. Það er svo sárt að hugsa til þess hversu mikið hann hefur misst og ég lofa þér því, Bogi minn, að ég mun ávallt vera til staðar fyrir yndislega drenginn þinn og reyna eins og ég get að fylla upp í skarðið sem þú skilur eftir þig.

Ég dáðist að svo mörgu í fari þínu, þú varst svo heiðarlegur, traustur og heill. Aldrei gerðir þú lítið úr öðrum eða tókst þátt í einhverjum kjaftagangi, það leiddist þér. Þú reyndir ekki að upphefja sjálfan þig og monta, þó oft væri tilefni, enda ofsalega hæfileikaríkur og klár á ótal sviðum. Þú varst traustur og vinur vina þinna og þykir mér ákaflega vænt um hversu fallega þeir tala um þig. Þeir sakna vináttu þinnar og syrgja þig, þú valdir þá vel og kunnir líka að meta vináttu þeirra. Þú varst staðfastur og ef þú ætlaðir þér eitthvað þá gerðir þú það og gerðir vel, þrjóskan hjálpaði þér þar líka oft. Þú varst örlátur og óeigingjarn, þeir sem minna mega sín fengu oft að njóta fjárframlaga þinna og fallegra hugsana frá þér, Bogi minn.

Viðhorf þitt til lífsins einkenndist af jákvæðni, bjartsýni og þakklæti. Ég dáðist að jákvæðni þinni og æðruleysi eftir að þú greindist með sjaldgæfan blóðsjúkdóm fyrir rúmi ári. Mikið varstu þakklátur að fá merg úr mér, fá tækifæri til að ná heilsu á ný, halda áfram að njóta lífsins eins og þér einum var lagið. Ég bað þess að þú myndir taka vel við mergnum, verða fjörgamall, hress karl með blóðið mitt í æðum þér. Allt gekk svo vel og við hlökkuðum svo til að fá þig heim á ný 15. apríl. Þú taldir niður og beiðst spenntur eftir að koma til ástvina og lifa lífinu vel. En skyndilega veiktist þú af sjaldgæfum vírus og fékkst sveppasýkingu í kjölfarið. Hvorugt þoldum við óréttlæti og þykir mér svo erfitt að sætta mig við að svona hafi farið fyrir þér, elsku Bogi, því þetta er ekkert annað en óréttlæti. Fáir hafa farið í gegnum mergskipti eins vel og þú, mér er þetta óskiljanlegt. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að vera með þér síðustu dagana í lífi þínu, ég veit þú heyrðir í okkur þó þú værir í öndunarvél, þú varst svo sterkur og barðist fyrir lífinu þar til hjartað sló sinn síðasta takt.

Donni gat ekki átt betri fyrirmynd en þig, þú gafst honum dýrmætt veganesti sem hann tekur með sér inn í framtíðina og mun alltaf búa að. Takk fyrir samfylgdina, elsku Bogi, og fyrir allt sem þú hefur kennt mér.

Þín systir,

Lára.

Elsku Bogi frændi, þú varst einn af yndislegustu mönnum sem ég hef kynnst á ævinni. Ég dáðist að þér, hvað þú hugsaðir um alla aðra en sjálfan þig og hef ég alltaf litið mjög upp til þín. Það sem þú ætlaðir þér að gera gerðir þú vel og ákveðið. Þú settir aldrei út á neinn og varst alltaf svo æðislegur við mig og alla sem þú þekktir. Ég gat talað við þig um allt og þú hlustaðir vel. Þú hugsaðir líka alltaf svo vel um mig, hringdir alltaf í mömmu og spurðir hvernig ég hefði það og vorkenndir mér svo þegar ég var með smá flensu, mér þykir svo vænt um það.

Þú gerðir allt sem þú gast gert fyrir yndislega son þinn, Donna, og hugsaðir svo vel um hann. Studdir hann í öllu, fórst á alla fótboltaleikina sem þú gast, hjálpaðir honum með lærdóminn og varst alltaf til staðar fyrir hann og núna er hann búinn að missa svo mikið, eins og við öll. Ég man þegar við fórum norður og dvöldum saman hjá ömmu og afa um jól, áramót, páska og í sumarfríum, það voru skemmtilegir tímar. Við vorum dugleg að hittast og áttum mjög góðar stundir saman og verður skrýtið að hafa ykkur feðgana ekki með okkur hér heima á gamlárskvöld eins og undanfarin ár. Ég á eftir að sakna samverunnar með þér ótrúlega mikið. Þú hefur alltaf verið svo heilbrigður, traustur, heiðarlegur og duglegur.

Bogi, ég trúi ekki að þú hafir verið tekinn frá okkur og mér finnst það svo óréttlátt. Ég sakna þín svo mikið og það verður ekkert eins án þín, elsku Bogi minn. Ég á mjög erfitt með að sætta mig við það að geta aldrei hitt þig aftur og aldrei fengið að heyra í þér röddina. En þú verður ávallt hjá mér í hjartanu og ég veit að þú ert hjá okkur.

Ég sendi elsku frænda mínum, Donna, ömmu og afa sem eiga svo um sárt að binda núna, mömmu og öllum systkinum þínum, vinum og öðrum aðstandendum þínum innilegar samúðarkveðjur. Ég elska þig, Bogi minn.

Þin frænka,

Hildur Marín Ævarsdóttir.

Elsku Bogi minn.

Það er svo ótrúlegt að þú sért farinn. Að sitja og skrifa kveðju til þín núna er eitthvað sem ég átti aldrei von á. Síðast þegar við hittumst vorum við í Svíþjóð, þú, mamma og ég. Þar ræddum við um heima og geima. Þú sagðir mér frá þínum framtíðarplönum á milli þess sem þú kenndir sjálfum þér taílensku. Þú barst þig svo ótrúlega vel, þrátt fyrir allt, því þú varst á leiðinni heim. Við kvöddumst með þeim orðum að við sæjumst á Íslandi í næsta mánuði hress sem aldrei fyrr. En það fór ekki svo. Þú sem varst svo staðráðinn í að sigrast á þessum veikindum. Þú lagðir þig allan fram og fórst eftir einu og öllu sem þér var sagt að gera. En pottþéttari mann var vart hægt að finna. Þú varst með allt þitt á hreinu og það sem þú sagðir stóðst.

Elsku Bogi minn, það voru aldrei nein vandamál í þínum huga. Þú hugsaðir ekki þannig. Ef eitthvað var að þá var það bara leyst. Þú varst alltaf boðinn og búinn til að hjálpa. Til að mynda var aldrei neitt mál að fá gistingu hjá þér. Dyrnar voru ávallt opnar. Þú bjargaðir mér og fleirum margoft.

Ég trúi því ekki enn að ég muni ekki hitta þig aftur, elsku Bogi minn. Þú varst svo ákveðinn í að koma enn sterkari til baka. Mér verður hugsað til Donna. Hann var ljósið í þínu lífi og þú varst alltaf svo stoltur af honum. Þegar ég heimsótti þig til Svíþjóðar varstu að sýna mér myndir af honum og segja mér frá afrekum hans á vellinum. Við munum öll verða alltaf til staðar fyrir Donna og ég mun gera það sem í mínu valdi stendur til að honum líði sem best.

Elsku Bogi minn, ég ætla svo sannarlega að tileinka mér þau lífsviðhorf sem þér voru töm og verð ég þér ævinlega þakklát fyrir þau.

Minnig um frábæran frænda lifir.

Kveðja,

Margrét Hannesdóttir.