„Ég er ekki meiddur.

„Ég er ekki meiddur. Ég var einfaldlega ekki valinn í hópinn,“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson, leikmaður enska fyrstudeildarliðsins Reading, við Morgunblaðið í gær en eftir að hafa verið í byrjunarliði Reading í sjö leikjum í röð hefur hann ekki verið í leikmannahópi liðsins í síðustu tveimur leikjum.

„Það var fúlt að vera tekinn út þar sem liðinu gekk mjög vel en svona getur þetta verið skrýtið. Stjórinn ákvað að skella þeim mönnum inn í liðið aftur sem voru frá vegna meiðsla og ég þurfti að víkja og fékk ekki einu sinni pláss á bekknum. Hann vildi frekar hafa fleiri sóknarmenn til taks,“ sagði Brynjar Björn.

Gríðarleg sigling á Reading

Reading hefur verið á gríðarlegri siglingu í 1. deildinni. Liðið hefur unnið sex leiki í röð og er komið upp í fimmta sæti deildarinnar.

„Við erum komnir í mjög sterka stöðu og það er orðinn möguleiki að ná öðru sætinu,“ sagði Brynjar en Reading hefur 66 stig, er fjórum stigum á eftir Norwich sem er í öðru sætinu en sex umferðir eru eftir.

Samningur Brynjars við Reading rennur út eftir tímabilið og spurður hvað muni taka við eftir leiktíðina sagði hann: „Það er svolítið óljóst. Reading er búið að gefa það í skyn að hafa mig áfram og ég mun skoða það í sumar. Ég held að það sé alveg öruggt að ég verð áfram hér úti í alla vega eitt ár til viðbótar hvort sem það verður með Reading eða einhverju öðru ensku liði,“ sagði Brynjar Björn.

Reading verður í eldlínunni í kvöld en liðið etur kappi við Scunthorpe sem burstaði topplið QPR, 4:1, um nýliðna helgi.

gummih@mbl.is