[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján Jónsson kjon@mbl.is Þráteflinu um völdin á Fílabeinsströndinni virðist nú vera lokið, a.m.k. í bili, með sigri Alassene Ouattara sem talinn er hafa unnið forsetakosningarnar í nóvember.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Þráteflinu um völdin á Fílabeinsströndinni virðist nú vera lokið, a.m.k. í bili, með sigri Alassene Ouattara sem talinn er hafa unnið forsetakosningarnar í nóvember. Youssoufou Bamba, sendiherra Fílabeinsstrandarinnar hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði að Laurent Gbagbo, fyrrverandi forseti, sem neitaði að fara frá, hefði verið handtekinn. Hann hefur um skeið varist með liði sínu í forsetahöllinni í stærstu borg landsins, Abidjan. Eiginkona hans, Simone, var einnig handtekin.

Sendiherrann sagði að Gbagbo yrði nú dreginn fyrir rétt. Frakkar og Sameinuðu þjóðirnar hafa haft friðargæslulið í landinu um nokkurt skeið. Heimildarmenn sögðu hermenn Ouattara hafa handsamað Gbagbo-hjónin, en þyrlur friðargæsluliða gerðu loftárásir á vopnabúr Gbagbos á sunnudag og frönskum brynvögnum var ekið að bækistöð forsetans fyrrverandi rétt fyrir handtökuna.

Gbagbo og Ouattara hafa lengi eldað grátt silfur, hinn síðarnefndi var í reynd valdamesti landsins í nokkur ár á tíunda áratugnum og lét fangelsa Gbagbo. Stuðningsmenn Gbagbos segja að Ouattara megi ekki gegna forsetaembætti þar sem hann sé ekki fæddur í landinu. Síðustu vikurnar hafa mörg hundruð þúsund manns flúið heimili sín vegna bardaganna. Er ástandinu í Abidjan lýst sem skelfilegu, erlendir málaliðar Gbagbos hafi myrt, nauðgað og pyntað.

Skannaðu kóðann til að lesa um Fílabeinsströndina.
mbl.is>

RIS OG FALL LAURENTS GBAGBOS

Umbótasinninn sem brást

Laurent Gbagbo er nú sakaður um að hafa þverskallast við að sætta sig við kosningaósigur í fyrra og liðsmenn hans eru einnig sagðir hafa myrt fjölda saklausra borgara. En Gbagbo var upphaflega talinn umbóta- og lýðræðissinni, hann er með doktorsgráðu í sagnfræði frá háskóla í París. Gbagbo varð frægur fyrir andóf sitt gegn fyrsta forseta landsins, Felix Houphuet-Boigny sem var við völd í 33 ára og varð æ einræðissinnaðri. Fljótlega eftir valdatökuna árið 2000 hóf Gbagbo hins vegar að beita harkalegum aðgerðum til að bæla niður andstöðu og vinsældirnar dvínuðu.