Jóhann Tómasson
Jóhann Tómasson
Eftir Jóhann Tómasson: "Ég spurði höfund greinarinnar, sem birtist í Morgunblaðinu á hundrað ára fæðingarafmæli Helga árið 1996, hvort góður þýddi siðgóður. „Að sjálfsögðu“"

Tólf ára gömul saumaði móðuramma mín, Guðrún Sveinsdóttir, skyrtur á bróður sinn og vini hans. Hún var dæmd í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Hæstarétti fyrir Dettifosslaginn á Siglufirði árið 1934. Hún veiktist ung af berklum, var blásin, brennd og höggvin. Þrátt fyrir líkamlegt heilsuleysi skilaði hún miklu ævistarfi, saumakona, hönnuður, höfundur greina og skemmtiþátta, annáluð fyrir afköst, gáfur og listfengi. Síðustu árin lá hún á Vífilsstöðum. Þar dó hún 56 ára gömul árið 1964. Hún dáði lækni sinn umfram aðra menn. Um hann var sagt: „Helgi Ingvarsson var lifandi sönnun þess að aðeins góður maður getur verið góður læknir.“ Ég spurði höfund greinarinnar, sem birtist í Morgunblaðinu á hundrað ára fæðingarafmæli Helga 10. október 1996, hvort góður þýddi siðgóður. Mér var svarað um hæl: „Að sjálfsögðu“! Afkomendur Helga og Guðrúnar Lárusdóttur bera fágun foreldranna vitni.

Tengdafaðir minn, Guðmundur Helgi Þórðarson læknir, var einnig stéttarsómi. Hann talaði ekki um sjálfan sig. Honum var skylduræknin runnin í merg og bein. Vegtyllur eftirlét hann öðrum áreynslulaust. Guðmundur sagði við mig: „Siðferði verður ekki kennt. Það innrætist.“ Hann gaf mér litla bók úr vönduðu bókasafni sínu: „Handbók Epiktets“, sem þýðandinn dr. Broddi Jóhannesson, kallar, að tillögu Jóhannesar Nordals hagfræðings, „Hver er sinnar gæfu smiður“. Þar standa m.a. þessi orð: „Vanþroska maður þekkist af því, að hann sakar aðra um, ef honum farnast miður. Sá sem áfellist sjálfan sig er kominn nokkuð áleiðis, en sannmenntaður maður ber hvorki sjálfan sig né aðra sökum“.

Á áratugnum upp úr 1970 var vakinn talsverður áhugi á siðfræði lækninga og vísinda meðal íslenzkra lækna. Hingað komu og héldu námskeið dönsku læknaprófessorarnir Povl Riis, f. 1925, og Henrik Wulff, f. 1932, heimsþekktir fulltrúar danskrar fágurnar. Íslenzkir læknar nutu vinskapar Povl Riis og jafningja hans, Tómasar Árna Jónassonar læknis, sem var á þessum árum formaður Læknafélags Íslands. Ég sótti námskeiðin, þá læknanemi.

Því rifja ég þetta upp að nú er siðferði íslenzku læknastéttarinnar þannig að ein ódygðin fæðir aðra. Ekki batnar það þegar þeir fóstbræður, Sigurður Guðmundsson uppgjafalandlæknir og forstöðumaður heilbrigðissviðs Háskóla Íslands, og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og gistiprófessor við Háskóla Íslands, hafa tekið að sér að leiða umræðu um siðareglur í íslensku vísindasamfélagi. Hér sannast hið fornkveðna að lengi getur vont versnað. Háskóli Íslands hefur ekki siði. Forystumenn Háskóla Íslands þekkja ekki prédikunarorðin sem lögð voru í hornstein Alþingishússins, en þar var Háskóli Íslands stofnaður 17. júní 1911. Fremstu háskólar heims hafa þau að einkunnarorðum sínum.

Höfundur er læknir