<strong>Landsbankinn</strong> Eftirköst hrunsins enn til meðferðar á þingi.
Landsbankinn Eftirköst hrunsins enn til meðferðar á þingi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Kostnaður vegna samninganefndarinnar sem samdi um þriðju samninga í Icesave-málinu er samtals 369,2 milljónir króna. Kostnaður við fyrri samninganefndina er 77,5 milljónir. Þetta kom fram í svari Steingríms J.

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Kostnaður vegna samninganefndarinnar sem samdi um þriðju samninga í Icesave-málinu er samtals 369,2 milljónir króna. Kostnaður við fyrri samninganefndina er 77,5 milljónir. Þetta kom fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, á Alþingi í gær. Einnig kom fram að kostnaður við sölu Landsbankans þegar hann var einkavæddur á sínum tíma nam 334 milljónum á verðlagi þessa árs.

Morgunblaðið óskaði 21. febrúar eftir upplýsingum um kostnað við samninganefndina en fékk þau svör að hann hefði ekki verið tekinn saman. Þremur dögum síðar, 24. febrúar, lagði Björn Valur Gíslason, alþingismaður, fram fyrirspurn á Alþingi og spurði annars vegar um kostnað við samninganefndina og hins vegar um kostnað við sölu á Landsbankanum. Á þingi í gær sagði Björn Valur eðlilegt fá upp á borðið kostnað við sölu bankans og menn veltu fyrir sér kostnaði ríkissjóðs við að leysa Icesave-málið sem hefði hafist vegna einkavæðingar bankans.

Steingrímur sagði að kostnaður við samninganefndina í Icesave-málinu hefði numið 369,2 milljónum króna. Þar af var kostnaður vegna innlendra lögfræðiskrifstofa 132,5 milljónir, 233,6 milljónir vegna erlendra lögfræðiskrifstofa og annar innlendur kostnaður væri 3,1 milljón. Inni í þessari tölu væri ekki kostnaður Alþingis við málið.

Sundurliðaður kostnaður

Lögmannsstofa Lees Buchheits, formanns samninganefndarinnar, sem nefnist Cleary, Gottlieb, Steen & Hamilton fékk 86,3 milljónir króna í heildarþóknun. Inni í því eru laun Buchheits og annarra starfsmanna stofunnar og allur kostnaður.

Don Johnston, fyrrverandi framkvæmdastjóri OECD, sem starfaði með nefndinni um tíma, fékk 16,8 milljónir. Juris, lögmannsstofa Lárusar Blöndal, fékk 18,1 milljón króna í heildarþóknun. Landslög, stofan sem Jóhannes Karl Sveinsson starfar á, fékk 11,2 milljónir.

Guðmundur Árnason og Einar Gunnarsson fengu ekki greitt sérstaklega enda ráðuneytisstjórar. Kostnaður við erlenda ráðgjöf var þannig að Ashearst fékk 52 milljónir króna í lögfræðikostnað. Hawkpoint Partners fengu 143 milljónir fyrir sérfræðiráðgjöf á árinu 2010 og Hawkpoint Partners Ltd. 38 milljónir króna fyrir sérfræðiráðgjöf.

1,1% af andvirði bankans

Steingrímur vísaði í skýrslu Ríkisendurskoðunar og sagði að salan á Landsbankanum árið 2003 hefði kostað ríkissjóð 204 milljónir króna. Á verðlagi dagsins í dag væru þetta 334 milljónir. Þetta væri um 1,1% af söluandvirði bankans. Þá væri ótalinn ýmis kostnaður sem hefði lent á Landsbankanum vegna sölunnar.

Dýr erlend ráðgjöf

»63,3% kostnaðarins við Icesave III samningagerðina fóru í erlenda sérfræðiráðgjöf.

»23,4% af kostnaðinum fóru til lögmannsstofu Lees C. Buchheits.

»49% kostnaðarins fóru til Hawkpoint Partners.

»Tæp 8% kostnaðarins fóru til íslenskra lögmannsstofa.

RÁÐUNEYTIÐ HAFNAÐI ÓSK UM UPPLÝSINGAR

Meiri réttur þingmanna

Fjármálaráðuneytið svaraði loks formlega í gær ósk Morgunblaðsins um upplýsingar um kostnað vegna samninganefndarinnar í Icesave. Svarið barst með boðsendingu um tveimur klukkustundum áður en Steingrímur J. Sigfússon svaraði fyrirspurn Björns Vals Gíslasonar á Alþingi.

Í bréfinu er vísað til að þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál beindi því til ráðuneytisins, í kjölfar kæru Morgunblaðsins, að ákvörðun í málinu yrði birt blaðamanni blaðsins og nefndinni eigi síðar en kl. 16.00 8. apríl. Það var ekki gert.

Vísað er til þess að skv. upplýsingalögum sé stjórnvaldi skylt að taka ákvörðun vegna óskar um upplýsingar innan sjö daga frá móttöku. Í bréfi sínu biðst ráðuneytið velvirðingar á að þeirri skyldu hafi ekki verið sinnt.

Í bréfi ráðuneytisins er ósk Morgunblaðsins um upplýsingar hafnað. Þar kemur fram að þær upplýsingar sem beðið var um liggi eingöngu í bókhaldi ráðuneytisins. Af upplýsingalögum verði ráðið að lögin taki ekki til bókhalds ráðuneytisins og tekið er fram að úrskurðir á þá vegu hafi margsinnis fallið hjá úrskurðarnefndinni.

Öðru máli gegni um stjórnarskrárvarinn rétt alþingismanna til að biðja stjórnvöld um upplýsingar. Eftir að ósk barst frá Birni Val Gíslasyni hefði ráðuneytið byrjað að safna saman gögnum. Í bréfinu, sem er dagsett í gær, kemur fram að áætlað hafi verið að ráðherra veiti munnlegt svar við fyrirspurninni þann sama dag. Með hliðsjón af upplýsingalögum þyki heldur ekki rétt að veita aðgang að svari fjármálaráðherra frá Alþingi fyrr en henni hefur verið svarað.