Höskuldur Þráinsson sendi kveðju í Vísnahornið fyrir helgi, þar sem við sögu kemur þjóðaratkvæðagreiðsla og nýr bragarháttur: „Af því að ég veit að þú hefur áhuga á bragarháttum var ég að velta því fyrir mér hvort þú kannaðist við svonefndan...

Höskuldur Þráinsson sendi kveðju í Vísnahornið fyrir helgi, þar sem við sögu kemur þjóðaratkvæðagreiðsla og nýr bragarháttur:

„Af því að ég veit að þú hefur áhuga á bragarháttum var ég að velta því fyrir mér hvort þú kannaðist við svonefndan „valhátt“. Hann er þannig að sá sem les eða lærir vísuna má velja á milli tveggja orða í flestum línum, en þó því aðeins að það fari ekki í bága við venjulegar reglur um rím og stuðla. Hér er dæmi þar sem þau orð, sem velja mætti á milli, eru aðskilin með skástriki:

Konan/Karlinn brunar kjörstað á,

klukkan heyrist níu/tíu slá.

Þar má klefa og kassa sjá,

kjörseðil og blýant/penna fá.

Titrar ákaft henni/honum hjá

höndin rauð og græn og blá.

Hér vill konan/karlinn hug sinn tjá

og heldur best að segja nei/já.“

Skírnir Garðarsson hafði spurnir af því að nemandanum Mark Grey hefði verið vísað úr skóla í Bretlandi vegna „snyrtimennsku“, en drengurinn skartar myndarlegri mottu. Honum varð að orði:

Markús greyið mottu fína,

má ei bera.

Yfir- bretar- öllu gína,

augljóslega.

Eitt sinn orti Hólmfríður Bjartmarsdóttir um ellina:

Allir vita hvað ellin er þung

og aldurinn hroðaleg brekka.

Ég lofa að vera alltaf ung

yrkja reykja og drekka.

Pétur Blöndal pebl@mbl.is