Forysta Egill Þormóðsson og Brynjar Þórðarson fagna innilega eftir að Emil Alengård kom Íslandi óvænt í 2:0 í leiknum í Zagreb í gær. Pökkurinn liggur í markinu hægra megin. Næsti leikur Íslands er gegn Búlgaríu um hádegið á morgun.
Forysta Egill Þormóðsson og Brynjar Þórðarson fagna innilega eftir að Emil Alengård kom Íslandi óvænt í 2:0 í leiknum í Zagreb í gær. Pökkurinn liggur í markinu hægra megin. Næsti leikur Íslands er gegn Búlgaríu um hádegið á morgun. — Ljósmynd/Kristján Maack
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Króatíu Kristján Jónsson kris@mbl.is Litlu munaði að gífurlega óvænt úrslit litu dagsins ljós í 2. deild á HM í íshokkí í gær þegar Ísland og Rúmenía mættust í Spartova-höllinni í Zagreb.

Í Króatíu

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Litlu munaði að gífurlega óvænt úrslit litu dagsins ljós í 2. deild á HM í íshokkí í gær þegar Ísland og Rúmenía mættust í Spartova-höllinni í Zagreb. Rúmenía teflir fram sterku liði atvinnumanna sem leika um 80 leiki á keppnistímabili og liðið féll niður úr 1. deildinni árið 2009. Rúmenar ætla sér upp í 1. deild á ný og eru töluvert sterkari en liðin almennt eru í 2. deild. Þeir fengu hins vegar að svitna duglega í gær gegn spræku íslensku liði sem er í stöðugri framför. Ísland komst 2:0 yfir í leiknum en þurfti að láta í minni pokann, 2:4, eftir mikla baráttu í 60 mínútur.

Robin og Emil skoruðu

Robin Hedström skoraði fyrsta mark Íslands á HM í ár og kom Íslandi yfir strax á 4. mínútu með marki af stuttu færi eftir að Egill Þormóðsson stal pökknum fyrir aftan mark Rúmena. Robin kom aftur við sögu þegar Ísland komst í 2:0 í upphafi annars leikhluta. Hann og Stefán Hrafnsson lögðu þá upp mark fyrir Emil Alengård sem skoraði af stuttu færi þegar tveir Rúmenar voru í kælingu. Robin var að leiknum loknum valinn maður leiksins hjá Íslandi. „Mér fannst við hafa góð tök á leiknum lengi vel en ég veit eiginlega ekki hvað gerðist í seinni hluta leiksins. Við erum ekki eins góðir og við viljum vera þegar við erum manni færri og þar af leiðandi þurfum við að skora fleiri mörk,“ sagði Robin þegar Morgunblaðið ræddi við hann að leiknum loknum.

Fyrsta markið var vendipunktur

Rúmenar skoruðu tvö mörk með skömmu millibili um miðjan annan leikhlutann. Fyrsta mark þeirra var vendipunktur leiksins. Þá höfðu Íslendingar sótt grimmt að marki Rúmena sem voru leikmanni færri. Rúmenar sluppu á ótrúlegan hátt við að fá á sig þriðja markið en tókst þess í stað að skora úr skyndisókn leikmanni færri. Að fá á sig mark leikmanni færri er mikið móralskt áfall og slíkan munað getur íslenska landsliðið ekki leyft sér á móti sterkum liðum eins og Rúmeníu. Þriðja mark Rúmena kom á 46. mínútu en spenna var í leiknum allt til loka þegar Ísland freistaði þess að jafna og setti útileikmann inn á í stað markvarðarins Dennis Hedström. Rúmenum tókst að senda pökkinn í opið markið þegar um þrjátíu sekúndur voru eftir af leiknum. „Ég hef mikla trú á liðinu og þrátt fyrir að hafa tapað þá er margt mjög jákvætt í okkar leik. Við setjum stefnuna á bronsverðlaunin og að mínu mati erum við mun betri núna en í fyrra,“ sagði Robin Hedström.

Vorum betri í 40 mínútur

Segja má að ný staða hafi komið upp í sögu íshokkílandsliðsins í leiknum í gær. Aldrei fyrr hefur Ísland staðið uppi í hárinu á liði sem er nánast á 1. deildarstyrkleika. „Við vorum betra liðið í 40 mínútur en síðustu 20 mínúturnar skorti okkur kraft. Ég er stoltur af frammistöðu strákanna því okkar fyrsta markmið var að gera betur en í fyrra,“ sagði landsliðsþjálfarinn Olaf Eller við Morgunblaðið þegar úrslitin lágu fyrir og vísar til þess að Ísland tapaði 3:8 fyrir Rúmeníu í fyrra. Þetta var frábær leikur en ég er auðvitað vonsvikinn því við fengum góð færi til að skora í stöðunni 2:0. Hins vegar er mjög mikilvægt að við tökum jákvæðu þættina með okkur í næstu leiki og það er sú staðreynd að við getum spilað vel gegn liðum í háum gæðaflokki.“