Hvað svo? Spurt er hvernig starfsumhverfið verði í þingflokki VG eftir að Guðfríður Lilja var sett af sem þingflokksformaður og Árni Þór var kjörinn.
Hvað svo? Spurt er hvernig starfsumhverfið verði í þingflokki VG eftir að Guðfríður Lilja var sett af sem þingflokksformaður og Árni Þór var kjörinn. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Agnes Bragadóttir agnes@mbl.

Fréttaskýring

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Sú ákvörðun að knýja fram kosningu um þingflokksformann VG á fundi á sunnudag, þvert á vilja Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, fráfarandi þingflokksformanns, er talin til marks um það, að flokksforysta VG ætli sér að herða á stjórn sinni á flokknum og reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að „þingmenn flokksins hlaupi út undan sér“, eins og einn viðmælandi orðaði það.

Eins og kom fram hér í Morgunblaðinu í gær kom kosningin Guðfríði Lilju í opna skjöldu, þar sem hún hafði gengið út frá því að stíga aftur inn í embætti þingflokksformanns að afloknu barneignarfríi sínu. Það var Þuríður Backman sem bar upp tillöguna um kosningu þingflokksformanns, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins og samkvæmt sömu heimildum var Þuríður einnig með umboð upp á vasann til þess að kjósa fyrir fjarstaddan þingmann, Lilju Rafney Magnúsdóttur.

Þuríður Backman sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að vitanlega treysti hún Guðfríði Lilju sem formanni þingflokksins. Hún sagði að eftir skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis hefði þingflokkur VG farið yfir sínar eigin starfsreglur og meðal þess sem ákveðið hefði verið væri að hafa aðalfund þingflokksins í septembermánuði ár hvert, þar sem starfsstjórn þingflokksins væri kjörin, til árs í senn. Til hefði staðið að hafa þennan hátt á í haust, en þessum dagskrárlið hefði verið frestað þar til Guðfríður Lilja kæmi aftur til starfa úr barneignarfríi. „Þar af leiðandi hefur Árni Þór verið starfandi þingflokksformaður í vetur. Það eru erfið mál framundan og ég taldi eðlilegt að það væri óbreytt stjórn þingflokksins fram að næsta aðalfundi, sem verður í september. Þess vegna bar ég upp þessa tillögu, til þess að sá hinn sami og stýrt hefur þingflokknum í vetur kláraði þessi mál. Þetta hefur ekkert með persónur Guðfríðar Lilju eða Árna Þórs að gera,“ sagði Þuríður.

Vildi kosningu í haust

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins sótti Árni Þór Sigurðsson það fast á liðnu hausti að verða kjörinn þingflokksformaður. Röksemdir hans voru þær að erfiður og átakamikill vetur væri framundan og hann teldi sig hafa skýrara umboð með því að vera kjörinn formaður þingflokksins heldur en að vera starfandi þingflokksformaður í fjarveru Guðfríðar Lilju. Guðfríði Lilju leist ekki á þessar hugmyndir Árna Þórs og mætti á þingflokksfund, þótt hún væri komin í barneignarfrí, til þess að gera grein fyrir sínum sjónarmiðum. Guðfríður Lilja mun hafa sagt á þeim fundi að þessi ósk kæmi sér mjög á óvart. Hún hafi farið í sitt fæðingarorlof sem þingflokksformaður og hún mun hafa spurt flokkssystkin sín hvort þau teldu það sæmandi að skipta henni út á meðan hún væri í fæðingarorlofi. Niðurstaðan varð sú í haust, að horfið var frá kosningu og það bókað að síðar yrði kosið.

Þar til laust fyrir síðustu helgi mun Guðfríður Lilja hafa staðið í þeirri meiningu að hún væri aftur að taka við sem þingflokksformaður.

Heimildir innan úr VG herma að þeir þingmenn sem kusu Árna Þór sem formann þingflokksins á sunnudag hafi m.a. verið að refsa henni fyrir það hvers konar afstöðu hún hefur tekið í ýmsum málum, sem hafa komið flokksforystunni illa.

Tilgreint er að verið sé að refsa Guðfríði Lilju fyrir það að hún greiddi ekki atkvæði með forystu VG í ESB-afgreiðslu Alþingis og að hún stóð þétt við bakið á Jóni Bjarnasyni þegar til stóð að bola honum út úr ríkisstjórninni. Þá hafi hún vakið heift forystunnar þegar hún hafnaði því að veita Alþingi umboð til þess að ganga frá Icesave II (Icesave-samningnum sem Svavar Gestsson gerði). Hún hafi fengið ákúrur fyrir það á sínum tíma að ræða það í þinginu að það væri ekki samstaða í þingflokki VG um málið.

Stríðsyfirlýsing

„Hér er augljóslega og meðvitað verið að boða til stríðs. Menn voru í gær vígamóðir eftir að Icesave var hafnað í þjóðaratkvæði öðru sinni og augljóslega hafa einhverjir viljað hefna fyrir það og hegna einhverjum, í þessu tilviki Guðfríði Lilju,“ segir VG-maður sem telur að Guðfríður Lilja hafi verið beitt miklum órétti. Hann fullyrðir að þegar Guðfríður Lilja fór í fæðingarorlof hafi hún notið meirihlutastuðnings þingflokksins í þingflokksformannsstöðunni.

Árni Þór Sigurðsson, nýkjörinn formaður þingflokks VG, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að hann hefði enga ákvörðun tekið um það hvort hann gæfi kost á sér sem þingflokksformaður á nýjan leik í haust. „Samkvæmt samþykktum þingflokksins þá er stjórn hans kosin til eins árs í senn. Það hefði átt að kjósa í haust, en það var fallist á það og það fært til bókar að kosningu væri frestað þar til Guðfríður Lilja kæmi aftur til starfa,“ sagði Árni Þór.

Aðspurður hvort þessi kosning væri hluti af stærri átökum innan flokksins sagði Árni Þór: „Svo er ekki af minni hálfu. Þingflokksformennskan snýst fyrst og fremst um að skipuleggja störf þingflokksins og verkaskiptingu þingmanna, samskipti við yfirstjórn þingsins og þar fram eftir götum. Þingflokkurinn verður auðvitað að fá að ráða því hvern hann velur til þess að sinna þeirri vinnu hverju sinni.“

Spurður hvort þessi kosning gengi ekki gegn jafnréttisstefnu VG sagði Árni Þór: „Það getur enginn sýnt fram á að þessi kosning hafi verið brot á fæðingarorlofslögum, vegna þess að það er ekkert ráðningarsamband um formennsku í þingflokki. Kjörtímabil formanns þingflokks er eitt ár og því er það fyrirsláttur að mínu viti að nota röksemd sem þessa.“

Árni Þór benti einnig á að í VG hefði verið mikið jafnrétti hvað varðar skipan í ábyrgðarstöður. Á þeim 23 mánuðum sem liðnir væru frá því að ríkisstjórnin var mynduð hefðu þrír karlar og tvær konur verið ráðherrar flokksins í 12 mánuði og þrjár konur og tveir karlar í 11 mánuði. Ef um nákvæmlega jafna skiptingu væri að ræða og menn gengju út frá því að ríkisstjórnin sæti út kjörtímabilið þyrfti að jafna skiptinguna, körlum í hag, innan árs. Hann kvaðst telja að hið sama ætti við um þingflokksformennskuna.

ÞINGFLOKKUR VG

Óvissa um framhaldið

„Forystan er að draga tennurnar úr órólegu deildinni með þessari kosningu,“ segir VG-maður. Raunar mun flokksforystan hafa talið að það yrði engum vandkvæðum háð að skipta um þingflokksformann nú, þar sem þau Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir hafa sagt sig úr þingflokknum.

Hefðu þau enn verið í flokknum eru menn á því að mjótt hefði orðið á mununum í kosningu, þar sem þau hefðu að öllum líkindum greitt atkvæði eins og þeir Jón Bjarnason, Ögmundur Jónasson og Ásmundur Einar Daðason, þ.e. með Guðfríði Lilju. Enn liggur ekkert fyrir um hvort og þá hvernig þeir Ögmundur Jónasson, Jón Bjarnason og Ásmundur Einar Daðason munu bregðast við þessari breytingu, sem augljóslega var gerð í óþökk þeirra.