Tjón Fjárhús að Múlakoti í Lundarreykjadal í Borgarfirði fuku í heilu lagi ofan af skepnunum í einni af verstu kviðunum sem þar gengu yfir. Björgunarmenn fluttu skepnurnar í nærliggjandi hesthús. Ljóst er að tjónið er talsvert.
Tjón Fjárhús að Múlakoti í Lundarreykjadal í Borgarfirði fuku í heilu lagi ofan af skepnunum í einni af verstu kviðunum sem þar gengu yfir. Björgunarmenn fluttu skepnurnar í nærliggjandi hesthús. Ljóst er að tjónið er talsvert. — Ljósmynd/Pétur Davíðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Una Sighvatsdóttir una@mbl.

Fréttaskýring

Una Sighvatsdóttir

una@mbl.is

„Svona slæm sunnanveður eru sjaldgæf á þessum tíma árs, það er miklu algengara að við séum með norðan- og austanáttir á þessum tíma svo þetta er óvenjulegt að því leytinu til, þótt það sé ekki dæmalaust,“ segir Trausti Jónsson veðurfræðingur.

Ofsaveðrið sem gekk yfir landið á sunnudag virtist koma aftan að mörgum enda hafði vorið gert vart við sig. Vindhraði náði allt að 54 m/sek í hviðum en við Garðskagavita náði 10 mínútna meðalvindur 30 metrum á sekúndu sem er mjög mikið á láglendi að sögn Trausta.

Erfitt að spá vindi sem ekki sést

Mikil hlýindi voru framan af apríl og hitinn um 2,5 stigi yfir meðallagi. Um helgina kom hinsvegar gusa af köldu lofti frá Kanada sem ýtti hlýindunum burt. Trausti segir að lægðir af þessari ætt séu fremur dæmigerðar fyrir tímabilið frá september fram í febrúar. Illviðrið var því ólíkt hinu klassíska páskahreti, sem jafnan einkennist af norðanátt með hríðarveðri.

„En á hverjum vetri eru alltaf að skjótast hjá svona lægðir í námunda við okkur sem við verðum ekki vör við. Fyrir tilviljun vill svo til að versta veðrið er hér á þéttbýlasta svæði landsins og á þessum tíma sólarhringsins, þegar mjög margt fólk er á ferðinni vegna ferminga. Þá fer miklu meira fyrir því. Hefði þetta komið 12 tímum áður, aðfaranótt sunnudags, hefði náttúrulega fokið en menn hefðu ekki fundið eins fyrir því á eigin skinni.“ Trausti segir vísbendingar um lægðina hafa sést í kortunum með margra daga fyrirvara en hún hafi hinsvegar verið mjög lítil um sig og því horfið í sumum spám en svo birst aftur, enda reyndist lægðin snarpur hvellur.

„Það var erfitt að spá nákvæmlega brautina á henni marga daga fram í tímann því ef hún hefði farið 100 km vestar hefði verið bara venjulegt slagveður hér sem engan hefði truflað nema bara útisamkomur.“

Trausti segir jafnframt dálitla eyðu í þeim gögnum sem veðurfræðingar geti byggt á. „Það er dálítið bagalegt að það eru engar beinar athuganir á vindi hér suðvestur af landinu. Þar er svolítil eyða sem er verri en hún hefur verið undanfarin ár því það eru gisnari upplýsingar frá gervihnöttum sem mæla vindhraðann. Sá gervihnöttur sem hentaði okkur best var fallinn á aldri.

Þetta þýðir að veðurfræðingar þurfa að treysta á að tölvuspárnar gangi nákvæmlega eftir og jú, sumar gerðu það, en það er alltaf erfitt að spá vindi sem maður sér hvergi.“ Þótt lægðin sé nú gengin yfir segir Trausti að umhleypingarnar haldi áfram næstu daga. „Það er bara svona venjulegt leiðindaveður núna.“

HÁTT Í 500 BEIÐNIR

Réðu varla við ástandið

„Þetta var nú með því meira sem við höfum upplifað. Ég er búinn að vera í aðgerðastjórnun í 10 ár og man varla eftir jafnmiklum fjölda beiðna á svo skömmum tíma. Á tímabili var þetta á mörkum þess að við réðum við það og í raun mjög alvarlegt ástandið á Suðurnesjum,“ segir Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Hátt í 200 björgunarsveitarmenn voru að störfum í allt að 8 klst. á sunnudag og sinntu þeir hátt í 500 aðstoðarbeiðnum. Á Suðurnesjum voru 140 aðstoðarbeiðnir, en um fimm sinnum færri að störfum en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem beiðnir voru um 250. „Við reyndum að forgangsraða eftir því hvar mest hætta var á manntjóni eða verðmætatjóni,“ segir Jónas. Á Suðurnesjum og í Reykjavík lauk síðustu verkefnum upp úr miðnætti en á norðvesturhluta landsins voru menn að störfum fram á nótt.