Átaksfundur Fundað var um atvinnumál 9. nóv. sl. í Víkingaheimum á Reykjanesi.
Átaksfundur Fundað var um atvinnumál 9. nóv. sl. í Víkingaheimum á Reykjanesi. — Morgunblaðið/RAX
Baldur Arnarson baldura@mbl.is „Ég held að engum hafi dottið í hug, þó við tækjum málefni Suðurnesjanna sérstaklega fyrir, færum þangað í heimsókn og hleyptum af stað ýmsum aðgerðum, að það eitt og sér gerði kraftaverk,“ segir Steingrímur J.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Ég held að engum hafi dottið í hug, þó við tækjum málefni Suðurnesjanna sérstaklega fyrir, færum þangað í heimsókn og hleyptum af stað ýmsum aðgerðum, að það eitt og sér gerði kraftaverk,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, spurður um þá staðreynd að störfum á Reykjanesi hefur fækkað síðan ríkisstjórnin efndi til fundar um átak í atvinnumálum svæðisins í nóvember.

Ýmis verkefni séu þegar í pípunum.

„Síðan þetta var hefur þó náðst að ganga frá samningum um eitt stórt atvinnuverkefni á Suðurnesjum sem er að fara af stað á árinu, þ.e. bygging kísilverksmiðju í Helguvík. Ég hygg að öll þau mál sem voru sett í farveg á fundinum séu á sínum stað. Þá á ég við kortlagningu á félagslegum aðstæðum, átak á menntasviðinu og störf á vegum Þróunarfélags Keflavíkur og fleiri aðila. Allt hefur þetta vissulega hjálpað,“ segir fjármálaráðherra.

Veldur engum straumhvörfum strax

Hann telur væntingarnar ekki raunhæfar.

„En það datt engum í hug, hvorki okkur né heimamönnum, að þetta átak myndi valda einhverjum straumhvörfum í glímunni við atvinnuleysi strax, t.d. upphefja hina árstíðabundnu sveiflu í atvinnuleysi,“ segir hann og kveðst gera sér vonir um að atvinnuleysi fari niður fyrir 7% á landsvísu í sumar. En hvernig svarar ráðherra gagnrýni á meint aðgerðaleysi stjórnvalda í atvinnumálum? „Ég myndi svara því til að það væri ekki sanngjörn gagnrýni, ef menn horfa raunsætt á aðstæður. Það mætti lista það upp. Það er búið að gera gríðarlega mikið, bæði á sviði vinnumarkaðs- og virkniúrræða og í beinum átaksverkefnum, t.d. við að skapa sumarstörf. Mér finnst umræðan dálítið merkileg ef það er andinn á árinu 2011 að það séu stjórnvöld sjálf sem eigi að skapa störfin. Er það umræðan en ekki hitt að við séum að hamast við að skapa skilyrði sem geta síðan orðið til þess að störf skapist vítt og breitt með fjölbreyttum hætti um allt hagkerfið? Þar höfum við óumdeilanlega náð miklum árangri,“ segir hann og vísar m.a. til þess að tekist hafi að „ná verðbólgu og vöxtum niður, koma á gengisstöðugleika, ná miklum árangri í ríkisfjármálum og fleira“.