Valkvíði Perúbúar fá að velja milli Ollanta Humala og Keiko Fujimori í seinni umferð forsetakosninganna. Bæði hafa vafasaman bakgrunn.
Valkvíði Perúbúar fá að velja milli Ollanta Humala og Keiko Fujimori í seinni umferð forsetakosninganna. Bæði hafa vafasaman bakgrunn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Svo virðist sem Perú ógæfu verði allt að vopni. Í júlí verður þar gengið til forsetakosninga og fær þjóðin að velja á milli tveggja slæmra kosta.

Fréttaskýring

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Svo virðist sem Perú ógæfu verði allt að vopni. Í júlí verður þar gengið til forsetakosninga og fær þjóðin að velja á milli tveggja slæmra kosta.

Annars vegar höfum við uppátækjasaman hermanninn og vinstrimanninn Ollanta Humala og hins vegar Keiko Fujimori, dóttur forsetans fyrrverandi Alberto Fujimori sem nú situr bak við lás og slá. Verður að segjast eins og er að hvorugt þeirra virðist sérlega gæðalegur leiðtogi fyrir þessa sérstöku suðuramerísku þjóð.

„Fujimorismi“

Hvað varðar stjórnmálalega stefnu er Keiko skárri kosturinn. Enginn vafi leikur á að hún mun vilja fylgja sömu stefnu og faðir hennar markaði á sínum tíma, þegar hann einkavæddi ríkisfyrirtæki, kom skikk á óðaverðbólgu og önnur vandræði sem vinstrimaðurinn Alan Garcia skildi eftir sig árið 1990. Reyndar sýnist sitt hverjum um hversu vel ávinningurinn af einkavæðingar- og frjálshyggjustefnu Fujimori gamla skilaði sér til hins almenna Perúbúa, þó ekki verði um það deilt að þjónustan hafi snarbatnað, t.d. hjá fjarskiptafyrirtækjunum. Ekki verður heldur litið fram hjá því að Alberto Fujimori situr bak við lás og slá fyrir mannréttindabrot, fjármálamisferli, mútur og símhleranir.

Keiko hefur opinberlega varið verk föður síns og er óhrædd að kalla eigin stefnu Fujiomorisma. Í einu viðtalinu kvaðst hún telja föður sinn saklausan mann og bætti við að forsetinn hefði vald til að náða saklausa. Síðan þá á stúlkan að hafa dregið ummælin til baka og heitið því að beita náðunarvaldinu ekki á föður sinn. Kannski hefur það líka sitt að segja að verið er að reyna að fá karlinn, sem enn nýtur mikilla vinsælda hjá hluta þjóðarinnar, lausan úr steininum á lögtæknilegum formsatriðum.

Til vinstri við Chavez?

Ekki er samt Ollanta Humala skárri, þó hann þyki sigurstranglegri. Á upptökum virkar hann ekki mjög kröftugur og minnir jafnvel svolítið á einkaspæjarann Monk úr samnefndum þáttum. Ollanta er sonur harðlínukommúnista og fræðimanns, Isaac Humala, og árið 2000 stóð hann fyrir lítilli byltingu í þorpinu Toquepala til að mótmæla stjórnarháttum Albertos Fujimori. Ollanta er langt til vinstri og tapaði í síðustu kosningum fyrir miðju-vinstrimanninum Alan Garcia sem þá sneri aftur í forsetastól eftir um 15 ára hlé. Var það talið hafa spillt fyrir Ollanta að honum var líkt við Hugo Chavez og látið í veðri vaka að þjóðnýtingarplön væru í bígerð að venesúelskri fyrirmynd.

Ollanta hefur verið skammaður af bróður sínum Antauro, sem einnig er hermaður, fyrir að hafa dregið nokkuð úr harðlínustefnunni og lýsa sér sem vinstri-miðjumanni. Antauro hefur látið hafa eftir sér að hann vilji þjóðnýta fyrirtæki, og ekki síst fjölmiðlana sem séu áróðursvélar vestrænna valda sem arðræna þjóðina. Þessar skoðanir verður að lesa með hliðsjón af uppeldinu sem þeir bræður hafa fengið hjá föður sínum Isaac, sem er hugmyndafræðilegur leiðtogi róttæks þjóðernissinnaðs stjórmálaafls sem hefur tengsl bæði við skæruliða/hryðjuverka-hreyfingarnar Túpac Amaru og Hinn skínandi stíg. Haft hefur verið eftir Isaac að hann hafi af ásetningi sent syni sína í herinn, þar sem herþjónsta væri greið leið til valda, jafnvel með valdaráni. Keiko og Ollanta eiga það sameiginlegt að eiga ættingja í steininum, en Antauro situr nú í fangelsi fyrir misheppnað vopnað uppþot í bænum Andahuaylas sem kostaði a.m.k. fjóra lífið.

UNGA FORSETAFRÚIN

Takmörkuð útgeislun

Keiko varð að forsetafrú þegar foreldrar hennar skildu í illu og er rétt nýbúin að ná 35 ára aldurslágmarkinu til að vera gjaldgeng í forsetaembættið. Hún hefur setið á perúska þinginu, án sérstakra afreka, menntaði sig í viðskiptafræðum við fínan háskóla í New York og stofnaði fjölskyldu með Bandaríkjamanni. Hvort hún kemur vel fyrir verður hver að dæma fyrir sig. Sá sem þetta skrifar getur ekki sagt að traustið beinlínis hellist yfir hann þegar horft er á myndskeið með þessari ungu stjórnmálakonu. Illkvittnari gagnrýnendur Keiko líkja henni við pandabjörn.