Listamennirnir María Ellingsen, Eivör Pálsdóttir og Reijo Kela unnu saman að Úlfhamssögu fyrir sjö árum.
Listamennirnir María Ellingsen, Eivör Pálsdóttir og Reijo Kela unnu saman að Úlfhamssögu fyrir sjö árum. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir ben@mbl.

Bergþóra Njála Guðmundsdóttir

ben@mbl.is

Goðsögnin um Fönixinn sem brennur upp í eldinum og rís svo upp úr öskunni með nýja vængi er innblástur sýningar sem sett verður upp á Listahátíð í Reykjavík eftir tæpan mánuð, þar sem sönglist, danslist og leikhús er brætt saman í eina heild.

„Eftir því sem maður öðlast meiri lífsreynslu sér maður að fólk fer stöðugt í gegnum stórar breytingar – það byggir upp líf sitt og svo hrynur allt, það gengur í gegnum skilnað, veikist eða verður fyrir sorg og allt hrynur. Rétt eins og gerðist með Ísland,“ segir María Ellingsen leikkona. „Ég stúdera mikið goðsögur og hvernig þær spegla í stóru samhengi það sem við göngum í gegnum og mér fannst gaman að þessari goðsögu um Fönixinn – hvernig hann fer inn í eldinn og brennur upp áður en hann endurfæðist. Þegar eitthvað hrynur þýðir það ekki að maður sé dáinn heldur að maður muni endurfæðast. Þetta finnst mér mjög spennandi hugsun: að ná að sleppa, deyja og fæðast á ný.“

Unnu við Úlfhamssögu

María fékk til liðs við sig tónlistarkonuna Eivöru Pálsdóttur og finnska nútímadansarann Reijo Kela til að gera þessu viðfangsefni skil, en þau unnu saman að uppfærslu Úlfhamssögu árið 2004. „Við höfum fikrað okkur áfram eftir þessu þema en allir koma með sína lífsreynslu inn í þetta og við vinnum öll á mjög ólíkan hátt,“ heldur María áfram. „Þetta er mjög persónulegt og við höfum farið mjög nálægt sjálfum okkur.“

Umgjörð sýningarinnar er óvenjuleg, t.d. fyrir það að áhorfendur eru á sviðinu þar sem verkið verður flutt og það er án talaðra orða, svo leikkonan María „hreyfir sig í gegnum stykkið“ eins og hún orðar það. Eivör kemur líka við sögu á sviðinu en hún semur og flytur lifandi tónlist sem hreyfingarnar hverfast um. „Mér fannst þetta strax mjög spennandi hugmynd þegar María kom með hana og ég fæ mikinn innblástur af því að vinna með hana. Þetta er svolítið mikill spuni hjá mér enn sem komið er og ég hugsa að þannig verði það, alla vega að einhverju leyti, þótt eitthvað verði ákveðið líka,“ segir hún.

Aðkoma Reijos að Úlfhamssögu var með nokkru öðru móti en nú, en í þeirri sýningu kom hann fram í myndbandi sem var tekið upp í Finnlandi, þar sem hann dansaði nakinn á ísbreiðu. Núna verður hann hins vegar í eigin persónu á sviðinu. „Ég hugsa lítið um sjálfan mig og söguna að baki verkinu heldur fyrst og fremst um tónlistina og að upplifa andartakið og rýmið,“ segir hann og bætir því við að honum henti vel að vinna með þessum hætti. „Alla vega ef ég fæ nægilegt frjálsræði. Ég hef unnið með dansspuna í næstum því 20 ár, svo mér líkar ekki að endurtaka mig.“

FLUTT Á LISTAHÁTÍÐ Í VOR

Sýnt þrisvar

Auk Maríu, Eivarar og Reijos koma Snorri Freyr Hilmarsson leikmyndahöfundur, Filippía Elísdóttir búningahönnuður og Björn Bergsteinn Guðmundsson ljósameistari að sýningunni en verkefnastjóri og framleiðandi er Sigrún Þorgeirsdóttir. Verkið verður flutt þrisvar á Listahátíð í vor en að auki er stefnt að sýningum í Færeyjum og Finnlandi síðar á árinu.