Árni Árnason fæddist á Ásmundarstöðum á Melrakkasléttu 23. janúar 1920. Hann lést á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 8. apríl 2011.

Útför Árna fór fram frá Akureyrarkirkju 20. apríl 2011.

Nú er Addi bóndi í Nesi farinn. Föðurbróðir minn Árni Árnason gekk alltaf undir þessu nafni „Addi bóndi í Nesi“ og var þar með kenndur við Höskuldarnes á Melrakkasléttu.

Hann var einstakur ljúflingur, gerði öllum greiða sem á þurftu að halda, hress og kátur heim að sækja, kunni ógrynni af sögum um menn og málefni, skreytti eftir þörfum.

Mestu samskipti okkar voru á þeim árum þegar við Siggi vorum að gera upp Harðbak, þá var hægt að fara í Nes til að fá öll verkfæri lánuð, láta saga, sjóða eða hvað sem þurfti að gera til að koma eyðibýli á nyrsta hjara veraldar í það horf að hægt væri að búa þar. Bóndi steypti gólfin fyrir okkur, smíðaði upp í loftin, gerði glugga og hurðargereft, bara að nefna það bóndi kunni það.

Hann var listasmiður hvort sem það voru stærri verkefni eða skera út í tré, hann tók upp á því þegar hann var búinn að missa flesta fingur á báðum höndum. Fingurna missti hann við það að saga eða teyma hesta, það háði honum ekkert, varð bara betri útskurðarmeistari við það.

Það var gott að eiga þau Neshjónin að, þangað fór maður í sturtu, þvoði þvotta, baðaði börnin á þeim tímum þegar ekkert vatn eða rafmagn var á Harðbak. Það var sest við eldhúsborðið, bóndi í sínu horni, spjalla um daginn og veginn, hrossahláturinn hans glumdi um allt, Bogga hans að hella á kaffi og bera kræsingar á borð, þar var hægt að sitja lengi dags.

Eftir að þau fluttu til Akureyrar var jafngott að koma á Mýrarveginn, þar sveif Nesandinn yfir vötnum og þau breyttust ekkert hjónin. Bóndi hélt alltaf uppá afmælið sitt á bóndadaginn með þorramat og íslensku brennivíni, síðasta veislan sem ég fór í var fyrir rúmu ári þegar hann varð 90 ára, þar var mikið fjör og gaman.

Bóndi missti mikið þegar Bogga hans dó fyrir nokkrum árum, ástfangnari hjón sem gift hafa verið í tugi ára sá maður hvergi nema hjá þeim. Pabbi sagði alltaf að „mákka í Nesi“ væri mesti kvenkostur sem þessi þjóð hefði eignast og mikið óskaplega væri „brúdder“ heppinn að hafa krækt í hana.

Það verður vel tekið á móti frænda hinum megin, bræður hans þrír bíða og verður mikill hávaði og fagnaðarfundur þegar hann kemur, Bogga breiðir út faðminn á móti sínum og knúsar fast og lengi.

Börnin mín biðja að heilsa með þökk fyrir allt sem þau fengu að njóta hjá þér í Nesi.

Far vel kæri frændi

Margrét Jónsdóttir.

Takk fyrir allt, elsku afi. Þú varst stórkostleg fyrirmynd, alltaf í stuði og alltaf til í grín, meira að segja undir það allra síðasta. Það var frábært að heimsækja ykkur ömmu í Nes og ekki síður frábært að fá ykkur til Akureyrar. Það var alltaf glatt á hjalla á Mýrarveginum, óborganlegar spilastundir koma óneitanlega upp í hugann.

Sá tími sem við áttum með þér í Nesi er ljóslifandi í minningunni. Þú leyfðir okkur að vesenast það sem við vildum, misgáfulegt sem það var. Það var alltaf gaman að brasa eitthvað með þér og heimsækja þig, hvort sem það var til að smíða eitthvað eða djöflast, eða bara að sitja og hlusta á einhverja af ótalmörgum skemmtilegu sögunum sem þú sagðir okkur. Þú hafðir svo gaman af lífinu og varst svo glæsilegur töffari. Við gætum ekki hafa hugsað okkur betri afa og munum sakna þín og minnast með hlýju í hjarta alla tíð. Hvíldu í friði, elsku afi okkar.

Árni, Axel, Jóhannes og Helena.