Gleði Valsmenn fagna fyrra marki sínu í framlenginunni í gær. Christian R. Mouritsen kom þá Valsmönnum í 2:1 en hann er lengst til hægri á myndinni.
Gleði Valsmenn fagna fyrra marki sínu í framlenginunni í gær. Christian R. Mouritsen kom þá Valsmönnum í 2:1 en hann er lengst til hægri á myndinni. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Undirbúningstímabili knattspyrnumanna fyrir Íslandsmótið lauk formlega með úrslitaleik Lengjubikarsins í Kórnum í gærkvöldi.

Fótbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Undirbúningstímabili knattspyrnumanna fyrir Íslandsmótið lauk formlega með úrslitaleik Lengjubikarsins í Kórnum í gærkvöldi. Þar mættust Valur og Fylkir og höfðu Valsmenn betur 3:1 eftir framlengdan leik þar sem staðan var 1:1 að loknum venjulegum leiktíma.

Fylkismenn voru reyndar mjög sannfærandi fyrsta klukkutíma leiksins eða svo. Andrés Már Jóhannesson sýndi frábæra takta á miðjunni hjá Fylki og gæti átt eftir að slá hressilega í gegn í sumar. Hann lagði til að mynda upp mark Fylkis þar sem hann splundraði vörn Vals. Fyrirliðinn Gylfi Einarsson er kominn heim í Árbæinn úr atvinnumennsku en minna bar á honum og hann var ekki ýkja mikið í boltanum á heildina litið. Fylkismenn höfðu öll völd á vellinum framan af leik og forysta þeirra hefði getað verið meiri en 1:0. Þeir nýttu hins vegar ekki yfirburði sína til að ganga frá leiknum og Valsmönnum tókst að vinna sig inn í hann á síðasta hálftímanum.

Kristján Guðmundsson, þjálfari Vals, gerði tvær breytingar á liði sínu strax að loknum fyrri hálfleik. Guðjón Pétur Lýðsson og Færeyingurinn Christian Mouritsen fengu þá að spreyta sig en báðir eru þeir nýir hjá Hlíðarendafélaginu. Þeim tókst báðum að komast á blað í leiknum og mark Mouritsens var laglegt. Færeyingurinn lagði einnig upp síðasta mark Vals á óeigingjarnan hátt. Markið kom upp úr skyndisókn en það verður að segjast eins og er að Magnús Þórisson dómari las leikinn illa í aðdragandanum. Mouritsen var utan vallar til þess að láta hlúa að sér og Magnús hleypti honum inn á völlinn á ný þegar Valsmenn voru að bruna upp völlinn. Mouritsen bættist því við skyndisóknina og átti í framhaldinu stóran hlut að máli.

Lið Vals hefur breyst talsvert frá því á síðustu leiktíð. Með liðinu leika nú þrír Færeyingar og þeir verða ekki dæmdir að verðleikum hér og nú. Innkoma Mouritsens í gærkvöldi ætti þó að gefa honum sjálfstraust fyrir Pepsí-deildina sem hefst á sunnudaginn.

Fylkir – Valur 1:3

Kórinn, deildabikar karla, Lengjubikarinn, úrslitaleikur, mánudaginn 25. apríl 2011.

Skilyrði : Gervigrasið þurrt og blankalogn í Kórnum.

Skot : Fylkir 16 (6) – Valur 11 (10).

Horn : Fylkir 15 – Valur 6.

Lið Fylkis : (4-4-2) Mark : Bjarni Þórður Halldórsson. Vörn : Andri Þór Jónsson, Þórir Hannesson, Kristján Valdimarsson, Tómas Joð Þorsteinsson (Davíð Þór Ásbjörnsson 100.). Miðja : Baldur Bett (Daníel Freyr Guðmundsson 110.), Gylfi Einarsson (Ásgeir Börkur Ásgeirsson 78.), Andrés Már Jóhannesson, Ingimundur Níels Óskarsson. Sókn : Kjartan Ágúst Breiðdal, Albert Brynjar Ingason (Jóhann Þórhallsson 71.)

Lið Vals : (4-3-3) Mark : Haraldur Björnsson. Vörn : Jónas Tór Næs, Halldór Kristinn Halldórsson, Pól Jóhannus Justiniussen, Stefán Eggertsson (Christian R. Mouritsen 46.) Miðja : Sigurbjörn Hreiðarsson, Rúnar Már Sigurjónsson (Guðjón Pétur Lýðsson 56. (Guðmundur Steinn Hafsteinsson 107.), Haukur Páll Sigurðsson (Andri Fannar Stefánsson 82.). Sókn : Matthías Guðmundsson (Fitim Morina 96.), Jón Vilhelm Ákason (Hörður Sveinsson 61.), Arnar Sveinn Geirsson.

Dómari : Magnús Þórsson.

Aðstoðardómarar: Jóhann Gunnar Guðmundsson (Sigurður Óli Þorleifsson 46.) og Óli Njáll Ingólfsson.

Áhorfendur : Rúmlega 800.

Þetta gerðist í Kórnum

FÆRI 4. Andrés Már Jóhannesson fékk fyrsta hættulega færi leiksins. Hann lék þá laglega í gegnum miðja vörn Vals og kom sér í mjög gott færi en Haraldur Björnsson varði laust skot Andrésar.

1:0 26. Andrés lék á varnarmann Vals og komst inn í teiginn vinstra megin. Hann gaf boltann fyrir markið í stað þess að skjóta, þegar Haraldur markvörður Vals kom á móti honum, og eftirleikurinn því auðveldur fyrir Ingimund Níels Óskarsson sem kom Fylki yfir.

FÆRI 38. Fyrsta almennilega marktækifæri Vals kom ekki fyrr en á 38. mínútu. Arnar Sveinn Geirsson slapp inn fyrir vörnina og komst í dauðafæri eftir mjög góða stungusendingu frá Matthíasi Guðmundssyni . Bjarni Þórður Halldórsson var frekar lengi að koma sér út úr markinu en tókst að verja skotið engu að síður.

FÆRI 70. Litlu munaði að Færeyingnum Pól Jóhannus Justinussen tækist að jafna metin fyrir Val, andartaki áður en Valur fékk dæmda vítaspyrnu. Justinussen náði góðum skalla eftir hornspyrnuna en varnarmaður Fylkis bjargaði á fjærstönginni.

1:1 70. Valur fékk vítaspyrnu eftir að boltinn fór í hendina á varnamanni Fylkis. Guðjón Pétur Lýðsson skoraði örugglega úr spyrnunni í vinstra hornið en Bjarni Þórður markvörður Fylkis valdi vitlaust horn til að skutla sér í.

1:2 99. Valur fékk innkast vinstra megin við vítateiginn. Fitim Morina tók við boltanum og skallaði hann fyrir Færeyinginn Christian Mouritsen sem skaut viðstöðulaust neðst í markhornið fjær. Snyrtilega afgreitt hjá Mouritsen.

1:3 119. Hörður Sveinsson gerði þriðja mark Vals eftir vel útfærða skyndisókn. Arnar sendi boltann inn á vítateiginn hægra megin á Mouritsen sem gaf óeigingjarnt á Hörð sem skoraði auðveldlega frá markteig.

Gul spjöld:

Halldór (Val) 30. (brot), Ingimundur (Fylki) 32. (sparkaði boltanum frá brotsstað), Haukur Páll (Val) 55. (brot), Kristján (Fylki) 56.

*Valsmenn hömpuðu deildabikarmeistaratitlinum í annað sinn en þeir báru sigu úr býtum í keppninni árið 2008 þegar þeir lögðu Framara í úrslitaleik, 4:1.

*Valsmenn unnu þar með tvö mót á undirbúningstímabilinu en þeir fögnuðu sigri á Reykjavíkurmótinu með sigri á KR-ingum, 1:0, í úrslitaleik. 100 ára afmælisár Vals fer því vel af stað í knattspyrnunni.

*Skipta þurfti um aðstoðardómara að loknum fyrir hálfleik í venjulegum leiktíma. Jóhann Gunnar Guðmundsson þurfti frá að hverfa vegna veikinda og stöðu hans á hliðarlínunni tók Sigurður Óli Þorleifsson . Örvar Sær Gíslason var hins vegar varadómari leiksins.

*Valsmenn léku með sorgarbönd í gærkvöldi. Fram kom hjá vallarþulnum, Páli Sævari Guðjónssyni, að það væri vegna fráfalls Helga Hannessonar nuddara liðsins sem varð bráðkvaddur aðfaranótt laugardagsins.

* Atli Sveinn Þórarinsson , varnarmaðurinn sterki hjá Val, gat ekki leikið með liðinu í gærkvöldi vegna meiðsla. Halldór Kristinn Halldórsson og Pól Jóhannus Justinussen léku sem miðverðir en báðir komu þeir til félagsins í vetur. Halldór frá Leikni í Breiðholti og Justinussen frá Færeyjum.