Downtown Abbey Gæði.
Downtown Abbey Gæði.
Það er ástæða til að fagna sýningum RÚV á Downton Abbey á sunnudagskvöldum. Þetta er myndaflokkur í sjö þáttum sem Bretar kolféllu fyrir og fékk mikla og afar jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum þar í landi.

Það er ástæða til að fagna sýningum RÚV á Downton Abbey á sunnudagskvöldum. Þetta er myndaflokkur í sjö þáttum sem Bretar kolféllu fyrir og fékk mikla og afar jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum þar í landi.

Fyrsti þátturinn olli svo sannarlega ekki vonbrigðum, enda eru þessir þættir fádæma vel leiknir. Smánarleg framkoma þjónustufólks við nýjan einkaþjón húsbóndans á óðalssetrinu var í forgrunni í fyrsta þættinum. Hver einasti áhorfandi með vott af sómakennd hlýtur að hafa setið í sófanum sínum og sagt upphátt eða í hljóði: Svona má ekki gera. Maður á að reyna að vera góð manneskja!

Það var nokkur misbrestur á því að persónum þáttarins tækist það, með áberandi góðum og virðingarverðum undantekningum þó. Og óðalseigandinn reyndist sannarlega vera væn manneskja.

Það var mikil ánægja að lifa sig inn í örlög þeirra mörgu áhugaverðu persóna sem við sögu koma í þessum þáttum. Einn svona vandaður sjónvarpsþáttur á viku nægir manni til þess að heita því að kvarta ekki undan sjónvarpsdagskránni. Allavega ekki fyrr en eftir sýningu á lokaþættinum.

Kolbrún Bergþórsdóttir

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir