Gunnlaugur Sigurjónsson fæddist á Granda við Dýrafjörð 8. desember 1922. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði 6. júlí 2011 eftir langvarandi veikindi.

Hann var sonur hjónanna Sigurjóns Sveinssonar, f. í Dalasýslu 8. júlí 1893, látinn 5. maí 1985, og Guðrúnar Sigríðar Guðmundsdóttur, f. 7. ágúst 1891, látin 22. nóvember 1977. Systkini Gunnlaugs voru Jóhanna Sigurjónsdóttir, f. 1913, d. 1982, Haraldur Sigurjónsson, f. 1916, d.1993, Gunnar Sigurjónsson, f. 1920, d.1998, Elísabet, f. 1924, og Jónína Sigurjónsdóttir, f. 1930.

Eftirlifandi eiginkona Gunnlaugs Sigurjónssonar er Ingibjörg Finnbogadóttir, f. 13. júlí 1926. Þau giftust 19. september 1945. Foreldrar hennar voru Sesselja Guðjóna Nikólína Sturludóttir, f. 14. september 1893 í Hrauni í Hraunshr., d. 21. janúar 1963 og Kristján Finnbogi Bernódusson, f. 26. júlí 1892 í Þernuvík í Ögurhr., d. 9. nóvember 1980. Börn þeirra eru Sigurjón Gunnlaugsson, f. 18. ágúst 1944, sambýliskona hans er María Símonardóttir. Jóhanna Gunnlaugsdóttir, f. 24. nóvember 1947, eiginmaður hennar er Hilmar Jónsson. Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, f. 6. febrúar 1951. Gréta Björg Gunnlaugsdóttir, f. 26. febrúar 1952, eiginmaður hennar var Anton Proppé. Finnbogi Unnsteinn Gunnlaugsson, f. 21. desember 1953, eiginkona hans er Barbara Foley. Svanberg Reynir Gunnlaugsson, f. 13. febrúar 1956, sambýliskona hans er Fríður Jónsdóttir. Sigríður Sesselja Gunnlaugsdóttir, f. 10. október 1959, sambýlismaður hennar er Sigurður Grétar Sigurðsson.

Útför Gunnlaugs fer fram frá Þingeyrarkirkju í dag, 15. júlí 2011, og hefst athöfnin kl. 13.

Ég sit hérna og reyni að koma nokkrum orðum um hann elskulega afa minn Gunnlaug Sigurjónsson á blað. Hann var einstakur maður, mikill barnakall og þess fékk ég að njóta. Ég var mikið á heimili afa míns og ömmu minnar og þar var mikið um ást og umhyggju og kenndu þau mér svo margt sem ég mun ávallt geyma í hjarta mínu.

Minningar um hann afa minn eru svo margar að ekki verður hægt að telja þær upp hér. En mér eru minnistæðar allar þær ferðir sem við fórum saman í sveitina Bakka, gefa kindunum, svínunum og ekki má gleyma henni Búkollu minn sem hann afi minn fékk fyrir mig hjá vini sínum eða öllum hestamótunum sem ég fór með honum og horfði á og lærði af honum, já, þær eru ótal minningar um góðan mann. Það voru ófá sporin sem ég fylgdi honum afa mínum og nú fylgi ég honum síðasta spölinn með sorg í hjarta, en minningin lifir um elskulegan mann, elska þig, afi minn.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól

lýsa upp sorgmætt hjarta.

Hjá þér ég finn frið og skjól.

Láttu svo ljósið þitt bjarta

vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál

svala líknarhönd

og slökk þú hjartans harmabál

slít sundur dauðans bönd.

Svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Elsku amma mín, börn afa míns, aðrir ættingjar og vinir, minningin lifir um elskulegan mann.

Þín,

Sesselja.

Að fæðast og deyja er lífsins gangur en það er samt alltaf sárt að kveðja. Nú er komið að því að kveðja afa okkar Gulla á Granda eins og hann var oft kallaður.

Við þökkum þér fyrir allar góðu stundirnar, elsku afi.

Við sjáum að dýrð á djúpið slær,

þó degi sé tekið að halla.

Það er eins og festingin færist nær,

og faðmi jörðina alla.

Svo djúp er þögnin við þína sæng,

að þar heyrast englar tala,

og einn þeirra blakar bleikum væng,

svo brjóst þitt fái svala.

Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt,

svo blaktir síðasti loginn.

En svo kemur dagur og sumarnótt,

og svanur á bláan voginn.

(Davíð Stefánsson.)

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Vald. Briem.)

Elsku amma okkar, Guð gefi þér styrk í sorg þinni.

Ástarkveðja

Ingibjörg, Viktor og börn,

Rúrik, Gunnhildur og synir,

Garðar og börn.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

(Höf. ók.)

Elsku afi, þrautagöngu og þjáningum þínum er lokið.

Á þessari nóttu sem við systur sátum hjá þér komu upp margar minningar og margt var rifjað upp.

Það var mjög erfitt að horfa upp á þig berjast fyrir lífinu, en við vissum alltaf að þú heyrðir í okkur malið. Það er svo margs að minnast.

Allar Bakkaferðinnar hvort sem það var sauðburður, grill

partí, úti við tjarnirnar eru okkur kærar því þær voru margar þessar stundir.

Þú varst partur af okkar lífi frá því við munum eftir okkur og þannig verður það alltaf í hjörtum okkar.

Elsku afi, við söknum þín sárt og það er mikið tómaróm. En við vonum að þér líði betur núna.

Við biðjum algóðan guð að geyma þig og varveita.

Loks er dagsins önn á enda

úti birtan dvín.

Byrgðu fyrir blökkum skugga

björtu augun þín.

Ég skal þerra tár þíns trega,

tendra falinn eld,

svo við getum saman vinur

syrgt og glaðst í kveld.

Lífið hefur hendur kaldar,

hjartaljúfur minn.

Allir bera sorg í sefa,

sárin blæða inn.

Tárin fall heit í hljóði,

heimur ei þau sér.

Sofna vinur, svefnljóð

meðan syng ég yfir þér

Þreyttir hvílast, þögla nóttin

þaggar dagsins kvein.

Felur brátt í faðmi sínum

fagureygðan svein.

Eins og hljóður engill friðar

yfir jörðu fer.

Sof þú væran, vinur,

ég skal vaka yfir þér.

(Kristján frá Djúpalæk.)

Hvíl í friði, elsku afi.

Arnheiður og Sigríður.