Erling Garðar Jónasson
Erling Garðar Jónasson
Eftir Erling Garðar Jónasson: "Þessi stefna sparar milljarða en þá má aldrei gleyma að aldraðir eru ekki samlitur stór hópur heldur ólíkir einstaklingar með þrjátíu ára aldursbili,"

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti 16. desember 1991 ályktun nr. 46/1991 um stefnumið í málefnum aldraðra „ til þess að lífga við árin sem bæst hafa við lífið“ . Í ályktun Allsherjarþingsins var átján grundvallarmarkmiðum skipt í fimm efnisþætti: sjálfstæði , virkni , lífsfyllingu, reisn og umönnun , með áherslu á að aldraðir þurfi að njóta allra þessara þátta til jafns við aðra þegna þjóðfélagsins.

Hlutverk aldraðra innan fjölskyldunnar og í samfélaginu er afar mikilvægt, enda þótt framlag þeirra sé oft ekki metið að verðleikum og hinn félagslegi auður sem í þeim býr sé gjarnan vannýttur. Sú þekking sem aldraðir hafa aflað sér með langri lífsreynslu er mikilvægt framlag til félagslegrar og efnahagslegrar þróunar. Þátttaka aldraðra í sveitarfélögum eykur lífsgæði þeirra og stuðlar að betra samfélagi. Stjórnvöld ættu því í samráði við sveitarfélög, frjáls félagasamtök og fulltrúa eldri borgara að hvetja til þátttöku allra aldurshópa í samfélaginu og þróa slíkt með því að nálgast verkefnið á víðtækan hátt. Setja þarf heildstæð markmið varðandi málaflokka á borð við samfélagslega þróun, húsnæðismál, umhverfismál, samgöngur, heilbrigðismál, félagsþjónustu, menntamál, atvinnulíf og elligleði.

Þá segir í Vínar-framkvæmdaáætluninni um málefni aldraðra ( Vienna International Plan of Action on Ageing ), að mörg lönd hafi sett á stofn landsnefndir aldraðra í þeim tilgangi að tryggja á landsvísu öflug og samræmd viðbrögð gagnvart hækkandi meðalaldri íbúa og að réttar aldraðra sé gætt, velferð þeirra aukin og lagt sé mat á stefnumótun og þjónustu fyrir aldraða.

Ísland á sína þykjustunefnd, Samstarfsnefnd um málefni aldraðra heitir hún og á að starfa á grundvelli laga um málefni aldraðra nr. 125/1999. Samkvæmt lögum skal ráðherra skipa fimm menn í þessa nefnd og fimm til vara eftir hverjar almennar alþingiskosningar. Verkefni samstarfsnefndar um málefni aldraðra eru að vera velferðarráðherra og ríkisstjórn til ráðuneytis um málefni aldraðra, vera tengiliður milli ráðuneyta, stofnana og samtaka sem starfa að málefnum aldraðra og stjórna Framkvæmdasjóði aldraðra og gera tillögur til ráðherra um úthlutun úr sjóðnum. Nefndina skipa nú: Rannveig Guðmundsdóttir, formaður , Ólafur Þór Gunnarsson, Unnar Stefánsson, Ragnheiður Hergeirsdóttir, Pétur Magnússon.

Þarna eru bara tveir öldungar, hinir eru unglingar! Mikið heiðursfólk og mikilhæft, en þarf greinilega að taka verkefni sín alvarlega. Því hvar var gagnrýni þessarar nefndar þegar eignaupptakan hófst 2009, bæði með niðurfellingu grunnlífeyris og hækkun fjármagnstekjuskatts ásamt lækkun allra frítekjumarka? Ekki einu sinni mæðustuna heyrðist frá þessari þykjustunefnd ríkisstjórnarinar þá.

Þá er líka – væntanlega ríkistyrkt – apparat, sem heitir Öldrunarráð Íslands, og þar eiga aðild samtök, félög, fyrirtæki og stofnanir, þar með talið sveitarfélög, sem vinna að málefnum aldraðra. Aðilar eru nú alls 31.

Markmið Öldrunarráðs Íslands er að vinna að bættum hag aldraðra. (Ath.: öll sveitarfélög eiga samkvæmt lögum að annast aldraða sem og aðra sem „vinna þarf með“).

Ég hef ekki nennu til að leita í viskubrunnum þeirra sem þarna starfa eða árangurs þeirra visku.

Í Madrídar - sáttmálanum frá 2002 og Vínarsáttmálanum frá 1983 segir hinsvegar að „aldraðir eru sjálfir bestu talsmennirnir í málefnum sem að þeim snúa“.

Samtök aldraðra sem stofnuð voru 1973 hafa aldrei orðið vör við afskipti eða haft samræðu við ofangreind apparöt á sinni vegferð, nema vera skyldi viðkoma 1981 þegar samtökin urðu að ósk sinni að Framkvæmdarsjóður aldraðra var stofnaður. En til Framkvæmdarsjóðsins hefur ekkert spurst í sögu samtakanna.

Spurningarnar eru: Hverjar eiga megináherslur að vera? Hvað vilja aldraðir sjálfir? Það er ljóst að miklar breytingar eru framundan, 67+ eru nú um 26 þúsund en verða væntanlega 59 þúsund 2030.

Þjónusta og félagsstarfið þarf að taka mið af því og hafa í frammi nauðsynlegan sveigjanleika. Þetta á ekki síst við þegar hugað er að húsbyggingum sem kosta mikla peninga. Hús sem byggð eru nú á tímum geta staðið lengi.

Meginhugmynd Samtaka aldraðra er að aldraðir búi í húsnæði sem falli að þeirra þörfum og stuðli að sjálfstæði og reisn þeirra í stað stofnanavistar. Markmiðið að allir búi heima sem lengst hentar auðvitað ekki öllum, því til að einstaklingur geti búið heima þarf að vera hægt að tryggja öryggi hans. Þetta öryggi byggir á samspili margra þátta og þjónustukerfa.

Stefnan er að tryggja aukið sjálfstæði og reisn á ævikvöldi. Stofnanavistin verði sem styst og fólk búi við eðlilegt heimilislíf þar til spítalavist er óumflýjanleg. Þessi stefna sparar milljarða útgjöld fyrir ríkissjóð, höfuðborgina og aðrar bygðir.

Þetta þarf að hafa í huga þegar mörkuð er stefna í öldrunarþjónustu, en þá má aldrei gleyma að aldraðir eru ekki samlitur stór hópur heldur ólíkir einstaklingar með minnst þrjátíu ára aldursbili, með ólíkan bakgrunn, ólíkar þarfir og mismunandi lífsviðhorf.

Höfundur er formaður Samtaka aldraðra.