Tekið á því Að lyfta lóðum eða stunda aðra hreyfingu hægir á elliglöpum.
Tekið á því Að lyfta lóðum eða stunda aðra hreyfingu hægir á elliglöpum.
Nú hefur verið sýnt fram á það með rannsóknum að líkamleg hreyfing hefur góð áhrif á heilastarfsemina og hægir á andlegri öldrun. Frá þessu er sagt á vef The New York Times.

Nú hefur verið sýnt fram á það með rannsóknum að líkamleg hreyfing hefur góð áhrif á heilastarfsemina og hægir á andlegri öldrun. Frá þessu er sagt á vef The New York Times. Þetta eru góðar fréttir, því eflaust vonast allir til að halda andlegri heilsu sem lengst á sínum efri árum. Samkvæmt þessum rannsóknum hefur líkamleg áreynsla marktæk bætandi áhrif á minni eldra fólks, þó reyndar hafi ekki enn tekist að sanna að hún hamli sjúkdómum eins og alzheimer.

Hið hversdagslega minnisleysi getur þó plagað fólk alveg nógu mikið, þegar það man ekki hvar það lagði frá sér hluti, man ekki nöfn fólks og fleira í þeim dúr. Það er því til mikils að vinna fyrir eldra fólk að stunda reglulega líkamlega hreyfingu, og góðu fréttirnar eru þær að samkvæmt þessum rannsóknum þurfa það ekki að vera kröftugar æfingar heldur hafa stuttir göngutúrar, garðvinna og almenn heimilisþrif góð áhrif á heilastarfsemina. Aukið blóðflæði til heilans er það sem skiptir mestu og það eykst við alla líkamlega hreyfingu. Þetta ætti að hvetja þá sem hafa verið óduglegir við að hreyfa sig, til að standa upp og koma blóðinu á hreyfingu. Það er semsagt ekki nauðsynlegt að fara í ræktina eða gera flóknar og erfiðar æfingar. Það sem skiptir máli er að sitja ekki kyrr. Algert hreyfingarleysi er verst af öllu.

Ein af rannsóknunum stóð yfir í fimm ár og náði til hóps kvenna sem allar voru um sjötugt og með æðasjúkdóma. Þær voru ekkert sérstaklega sprækar líkamlega og meðal þeirra var enginn maraþonhlaupari. Þær sem voru virkastar fóru í göngutúra. En gerður var samanburður á þeim sem hreyfðu sig eitthvað og hinum sem voru kyrrsetumanneskjur. Vissulega varð vitsmunaleg hnignun hjá báðum hópum, en hjá kyrrsetukonunum dró hraðar úr hæfileikanum til að muna og hugsa heldur en hjá þeim sem hreyfðu sig eitthvað.

Það að ganga og stunda létta hreyfingu getur fært fólki allt að fimm ár með betri heilastarfsemi en ella. Fólk getur því frestað elliglöpunum um nokkur ár með því að stunda reglulega hreyfingu.