Hjörtur J. Guðmundsson: "Ein helzta gagnrýnin sem heyrzt hefur á stjórnarskrá lýðveldisins, fyrir utan þá að hún beri á einhvern óútskýrðan hátt einhverja ábyrgð á bankahruninu, er að hún sé að uppruna frá Dönum komin og sé því væntanlega ekki nægjanlega íslenzk."

Ein helzta gagnrýnin sem heyrzt hefur á stjórnarskrá lýðveldisins, fyrir utan þá að hún beri á einhvern óútskýrðan hátt einhverja ábyrgð á bankahruninu, er að hún sé að uppruna frá Dönum komin og sé því væntanlega ekki nægjanlega íslenzk. Íslendingar þurfi því nauðsynlega að setja sér sína eigin stjórnarskrá sem sé þá laus við slíkan óásættanlegan útlenzkan uppruna.

Þetta sjónarmið hefur ekki sízt heyrzt hjá sumum af þeim sem sitja í svonefndu stjórnlagaráði og fengu það verkefni að setja saman tillögu að nýrri stjórnarskrá. Þannig hafði Ríkisútvarpið þetta til að mynda eftir einum sem þar situr fyrir helgi. Það verður óneitanlega að teljast athyglisvert að úr sömu átt og umrædd gagnrýni á stjórnarskrána hefur borizt hafa einnig heyrzt skammir í garð ófárra annarra fyrir að „leika á þjóðernislega strengi“ við ýmis tækifæri í pólitískum tilgangi og jafnvel að vera á móti öllu sem útlenzkt er. Þá einkum og sér í lagi þeirra sem ekki hafa áhuga á því að gangast undir yfirstjórn Evrópusambandsins.

En hvað er það annað en að spila á þjóðernislega strengi í pólitískum tilgangi að beita því sem rökum fyrir því að skipta þurfi um stjórnarskrá að gildandi stjórnarskrá sé ekki nógu íslenzk? Eðlilega vaknar sú spurning hvort aðeins sé leyfilegt að beita slíkum málflutningi þegar það hentar ákveðnum einstaklingum sem annars tala allajafna með allt öðrum hætti? Slíkur málflutningur bendir ekki beinlínis til þess að rökin fyrir því að þörf sé á nýrri stjórnarskrá séu merkileg. Þá væri vafalaust gripið til einhvers haldbærara.

Ekki batnar það síðan þegar horft er til þess að ýmsir af þeim sem beitt hafa slíkum málflutningi í tengslum við stjórnarskrá lýðveldisins eru á sama tíma miklir talsmenn þess að æðstu lög Íslands verði ekki íslenzk stjórnarskrá heldur stjórnarskrá Evrópusambandsins með inngöngu landsins í sambandið. Svonefndur Lissabon-sáttmáli.

Það er ekki að sjá að það trufli umrædda einstaklinga á nokkurn hátt að stjórnarskrá Evrópusambandsins muni seint geta talizt íslenzk. Þvert á móti verður ekki betur séð en að það teljist fremur kostur að þeirra áliti en hitt. Hvers vegna er það óásættanlegt að stjórnarskrá lýðveldisins hafi hugsanlega einhver tengsl við danskan uppruna en á sama tíma í góðu lagi að æðstu lög landsins verði hátt í 400 blaðsíðna doðrantur frá Evrópusambandinu á tyrfnu lagamáli?

Það sem skiptir vitanlega mestu máli í þessu sambandi er að um sé að ræða lagasetningu sem sé á forræði Íslendinga og nýtist þjóðinni sem skyldi. Í því sambandi má benda á að innan Evrópusambandsins yrði stjórnarskrá sambandsins hvorki á forræði íslenzku þjóðarinnar né tæki mið af íslenzkum aðstæðum.

hjorturjg@mbl.is

Hjörtur J. Guðmundsson